132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:28]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður staðfestir í ræðu sinni að ekki hafi verið nægjanlega vönduð vinnubrögð í nefndinni. Það er náttúrulega algerlega ótækt að afgreiða mál úr nefnd á þennan hátt, þ.e. þegar liggur ekki einu sinni fyrir hverjar eignir Ríkisútvarpsins eru. Það komu gestir. Það er rétt hjá hv. þingmanni. Við höfum fengið marga gesti. Við höfum hlustað á marga gesti. Þeir hafa sagt margt fróðlegt en því miður virðist meiri hluti nefndarinnar ekki hafa hlýtt nægilega vel á þessa gesti.

Það kom m.a. fram hjá gesti úr menntamálaráðuneytinu að það væri núna verið að fara yfir eigur Ríkisútvarpsins. Það væri verið að velta fyrir sér möguleikunum á því hvernig menn tryggðu rétt eiginfjárhlutans. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem ekki eru boðleg, að við fáum inn í þingsal og eigum að afgreiða hér mál þegar jafnmikilvægar upplýsingar eins og þessar liggja ekki fyrir. Það liggur sem sagt ekki fyrir hverjar eignir Ríkisútvarpsins eru eða hvernig staðið verður að því að tryggja að eiginfjárhlutfallið verði ekki neikvætt? Enda verður það vonandi ekki fyrsta verk nýrrar stjórnar í þessu væntanlega hlutafélagi að tilkynna að (Forseti hringir.) að félagið sé gjaldþrota.