132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrr í dag, fyrir einhverjum klukkutímum, þegar hv. þm. Mörður Árnason hóf ræðu sína kom strax í ljós að andstaða hans við þetta frumvarp grundvallast m.a. á því að ekki sé í rekstri hins nýja hlutafélags, eftir því sem segir í nefndaráliti minni hlutans, gert ráð fyrir viðeigandi gagnsæi í starfsemi og rekstri Ríkisútvarpsins, t.d. með því að um það gildi upplýsingalög. Þetta hefur margoft komið fram í umræðunni.

Nú hefur verið dreift á Alþingi nefndaráliti frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem fjallar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, svokölluðum lögum um opinber hlutafélög.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í 5. gr. frumvarpsins láðist að taka fram að heimild fjölmiðla til að sækja aðalfund taki aðeins til opinberra hlutafélaga og leggur 1. minni hluti því til að það verði lagfært. Í tengslum við þessa grein fóru fram ítarlegar umræður um hvort ekki væri eðlilegt að kjörnum fulltrúum yrði einnig gert heimilt að sitja þá fundi. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu er lagt til að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, sé heimilt að sækja aðalfund með rétti til að bera fram skriflegar fyrirspurnir. Fyrsti minni hluti telur að með því að leyfa skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum verði auðveldara en ella að afla upplýsinga um opinber hlutafélög sem áður voru opinberar stofnanir og lutu þá sem slíkar m.a. upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.“

Nú spyr ég: Tryggir regla eins og þessi (Forseti hringir.) ekki þá upplýsingagjöf sem hv. þingmaður hefur verið að kalla eftir (Forseti hringir.) og hefur staðið stuðningi hans við frumvarpið fyrir þrifum?