132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég tel að sú tillaga sem 1. minni hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar, þ.e. hv. þm. Pétur H. Blöndal, Magnús Stefánsson, Birgir Ármannsson og Ásta Möller, leggja til hljóti að vera nægileg þegar maður skoðar þau sjónarmið sem fram komu í ræðu hv. framsögumanns minni hluta menntamálanefndar og uppfylla þau sjónarmið sem fram koma í áliti minni hlutans og sömuleiðis komu fram í ræðu hv. þingmanns.

Til upplýsingar segir í breytingartillögunni, með leyfi forseta:

„Fulltrúum fjölmiðla er heimilt að sækja aðalfund opinbers hlutafélags. Kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, er heimilt að sækja aðalfund með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir.“

Í nefndarálitinu er vísað til þess að þessu ákvæði sé bætt inn í frumvarpið með hliðsjón einmitt af ákvæðum upplýsingalaga. Ég vildi benda hv. þingmanni á þessa breytingartillögu sem ég tel að komi mjög til móts við þau sjónarmið sem hann hefur hér reifað og er líka til skýringar á því sem ég hef áður sagt hér um þetta atriði þegar við höfum fjallað um þetta mál.

Þetta atriði leiðir líka hugann að því hvort hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru, eftir að þessi tillaga liggur fyrir, þeirrar skoðunar að skynsamlegra væri að breyta Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun. (Forseti hringir.) Ákvæði eins og þetta mundi aldrei ná til slíkrar stofnunar.