132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:41]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil biðjast afsökunar, eins og menn segja. Hafi einhverjum orðið illt við umsögn mína um Framsóknarflokkinn biðst ég afsökunar á því, eins og KR-ingarnir eftir herrakvöldið, án samjafnaðar að öðru leyti.

Já, þessi ályktun er merkileg, sérstaklega vegna þess sem ekki stendur í henni. Þegar þessi ályktun var gerð eftir mikið málefnastarf og umræður og mikla sátt á flokksþingi framsóknarmanna var fallið frá stefnunni um að Ríkisútvarpið ætti að vera sjálfseignarstofnun. Það sem þessi ályktun gerir er að hún opnar leiðina fyrir forustu Framsóknarflokksins til þess að semja við Sjálfstæðisflokkinn um það að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi.

Þarna stendur — hvað? Þarna stendur annars vegar að Ríkisútvarpið eigi að vera í þjóðareign. Framsóknarmenn hafa auðvitað fært fyrir því rök að það sé a.m.k. ekki meiri breyting fyrir þingið að eyðileggja Ríkisútvarpið eins og það er núna eða að breyta þeim lögum sem út úr þessu frumvarpi kæmu. Það má út af fyrir sig rétt vera. Hins vegar segir sagan okkur svolítið annað. Þau spor hræða, eins og ég hef sagt hér áður. Ég ætla ekki að vera með hrakspár um það og ég vona að Framsóknarflokkurinn standi á þessu, að Ríkisútvarpið sé í þjóðareign, vegna þess að það er — ég tek þá áhættu að vera ókurteis — það a.m.k. var nánast það eina sem var eftir af stefnu hins gamla Framsóknarflokks í almennum samfélagsmálum.

Framsóknarmenn segja líka: Það á að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það stendur þá upp á hv. þingmann sem er hér á mælendaskrá að skýra fyrir okkur hvernig það er gert, hvernig sjálfstæðið er eflt með því að búa til nýjan ríkisstjórnarmeirihluta í stjórninni sem getur ráðið og rekið útvarpsstjóra hvenær sem hann vill og að baki þessu öllu saman, þó að það standi ekki í frumvarpinu, er sem sé leyniákvæði um þjónustusamning milli menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins. (Forseti hringir.) Hvar er sjálfstæðið í því?