132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:46]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski rétt að ræða aðeins um muninn á því sem staðið hefur í lögunum um hlutafélagið Landssímann og því sem stendur í frumvarpinu núna. Í lögum eins og samþykktum um Landssímann stendur yfirleitt að hlutir verði ekki seldir eða fyrirtækið í heild án samþykkis Alþingis. Í þessu frumvarpi stendur svo eitthvað annað. Það eigi sem sé ekki að selja að hluta eða heild eða nokkurn skapaðan hlut.

Þetta er falleg yfirlýsing og örugglega komin inn vegna þrýstings frá Framsóknarflokknum. Mér finnst það sjálfgefið að Framsóknarflokkurinn hafi þó reynt að sýna að hann ætti eitthvað í þessu frumvarpi. Á hinn bóginn var það ljóst strax við 1. umr., í andsvörum, hygg ég, við hæstv. menntamálaráðherra, að lokinni framsögu hans, að efnislega er enginn munur á þessu. Þegar til stykkisins kemur eru þessar greinar jafnauðfelldar út úr lögunum með einum hætti eða öðrum, þannig að það eina sem framsóknarmenn hafa unnið sér inn við þetta er að geta farið með þessa fallegu þulu hér í ræðustólnum.

Við skulum vona að Framsóknarflokkurinn standi heill að því, ásamt með okkur hinum, að Ríkisútvarpið sé áfram í einhvers konar þjóðareigu. Það kann að gefast tækifæri til þess eftir ár að byrja að athuga þetta upp á nýtt. En hitt stendur upp á þingmanninn, hann skuldar mér enn þá skýringu á því hvernig hann ætlar að fara að því að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins með því að nú á að setja það í hlutafélagsform þar sem ekki verður betur séð en ríkisstjórnarmeirihluta menntamálaráðherra sé greið leið að því að halda áfram flokkspólitískum ítökum í gegnum sérstök tengsl útvarpsstjórans við ríkisstjórnarmeirihlutann í stjórninni o.s.frv.