132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég get ekki látið hjá líða að geta þess að mér var tjáð í kvöldverðarhléi að búið væri að dreifa á Alþingi frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Ég gat þess í upphafi máls míns áðan, þegar ég fór yfir hlutafélagavæðingaræði ríkisstjórnarinnar, að það væri eitt af þeim málum sem væru á næsta leiti þótt enn hafi ekki verið búið að dreifa því. En það er sem sagt komið hér. Þar er enn eitt málið sem BSRB og BHM eiga eftir að senda okkur umsagnir um, sem verða á sömu nótum og allar umsagnirnar sem þessi stéttarfélög hafa skrifað hingað til vegna hlutafélagavæðingar ríkisstofnana sem hingað til hafa farið í umsagnarferli. Þar verður örugglega sama upp á teningnum og er í Ríkisútvarpinu hf. Hér er verið að brjóta rétt á starfsmönnum, loka inni sjálfsagðar upplýsingar, taka ríkisstofnanir undan lögum um upplýsingamál, stjórnsýslulögum, undan lögum um umboðsmann Alþingis og undan lögunum um opinbera starfsmenn, réttindi þeirra og skyldur.

Ég sakna þess að stjórnarliðar hafi ekki notað tækifærið í allri þessari umræðu um hlutafélagavæðinguna til að útskýra hvers vegna það ríður svo á að kippa öllum þessum lögum úr sambandi. Hvers vegna er svo mikilvægt að fækka því fólki sem starfar undir lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Hvaða skilgreiningar eiga að gilda um þá starfsmenn sem starfa í almannaþjónustu, ef ekki lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna?

Mér finnst ríkisstjórnin á miklum villigötum. Menn neita að horfast í augu við að eðli þeirra starfa sem undir þau lög heyra er slíkt að eðlilegt er að um þessi störf gildi sérstök lög og sérstakar reglur. Hér um að ræða fólk sem starfar í þágu hins opinbera, þjónustu þjóðarinnar, og sinnir hlutverkum sem varða t.d. öryggi, ég nefni lögregluna. Ríkisútvarpið er reyndar ein af þeim stofnunum í samfélaginu sem á að gæta öryggis okkar. Öryggismálin heyra líka undir matvælarannsóknastofurnar sem nú á að fara að háeffa. Næst á dagskrá eru svo Flugmálastjórn og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Enn fækkar því þeim starfsmönnum í þjónustu hins opinbera sem fá að starfa undir lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég fæ ekki röksemdir frá stjórnarliðinu um það hvers vegna þeim er þetta svo mikið í mun. Hvaða hjal er þetta um sveigjanleikann einatt, sýknt og heilagt, sem við vitum öll að er eingöngu hugsaður fyrir forstjóra sem stjórnarliðar vilja að fái sem mest svigrúm til að ráða og reka fólk, og þó aðallega til að reka það? Einkavæðingaráráttan er á fullri siglingu. Menn eru í óða önn við að hlutafélagavæða ríkisstofnanir burt séð frá hlutverkum stofnana og því sem viðkomandi stofnanir eiga að standa vörð um. Hér sjást menn á engan hátt fyrir í háeffunum sínum.

Svo að ég stikli aðeins á nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar og því sem málflutningur okkar í þessum ræðum hefur snúist um þá höldum við því fram, minni hlutinn í menntamálanefnd, að hér sé í sjálfu sér engin stefna og fullkomlega óljóst með hvaða hætti þessi nýja stofnun, Ríkisútvarpið hf., kemur til með að sinna því hlutverki sem almannaútvarp þarf að standa vörð um og þarf að sinna samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum um hlutverk slíkra stofnana. Við teljum fullkomlega óljóst hver eigi að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva. Sú sem hér stendur telur að það hefði verið eðlilegt að heimila umræðu um þetta frumvarp, þ.e. málefni Ríkisútvarpsins, á sama tíma og umræðan færi fram um aðra fjölmiðla, almenn umræða um fjölmiðlalög.

Það hefur ævinlega verið keppikefli hæstv. menntamálaráðherra að skilja þessa hluti að og heimila ekki umræður um hvort tveggja í senn. Til marks um þetta er beiðni stjórnarandstöðuflokkanna og fulltrúa stjórnarandstöðunnar í fjölmiðlanefnd, sem skilaði af sér mikilli fjölmiðlaskýrslu síðastliðið vor. Aftast í þeirri skýrslu getur að líta bréf, bókun þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni lýsa yfir mikilvægi þess að heildstætt sér horft til hlutanna og málefni Ríkisútvarpsins tekin til umfjöllunar á sama tíma og frumvarp um fjölmiðla.

Nú háttar svo til, frú forseti, að lögfræðinganefnd sem hæstv. menntamálaráðherra setti á laggirnar fyrir skömmu er um það bil að skila af sér frumvarpi um fjölmiðla. Það frumvarp á að leysa af hólmi eldri fjölmiðlalög, lög nr. 53/2000, útvarpslög, sem hafa nú gegnt sínu hlutverki um nokkurt skeið. Hæstv. menntamálaráðherra sér fyrir sér að hið nýja frumvarp komi til með að leysa þessi almennu útvarpslög af hólmi. Ákveðnir kaflar í því væntanlega frumvarpi koma til með að ná yfir Ríkisútvarpið.

Einn af þeim köflum sem ég man eftir í fljótu bragði sem kemur til með að varða Ríkisútvarpið jafnt og aðra fjölmiðla lýtur að sjálfstæði fréttastofa. Það er megináhersla Fréttamannafélags Ríkisútvarpsins og reyndar Blaðamannafélags Íslands líka að tryggt sé að fréttastofur Ríkisútvarpsins, sem ég tel að eigi að vera tvær, þ.e. sjónvarps- og hljóðvarps, njóti sjálfstæðis frá öllum hagsmunaaðilum. Þá erum við ekki bara að tala um útvarpsstjóra eða stjórnvöld heldur líka hagsmunaaðila úti á markaði, t.d. þeirra sem eiga viðskiptalegra hagsmuna. Það vita allir sem vita vilja að stór og öflug fyrirtæki hefðu ekkert á móti því að komast í þá aðstöðu að geta haft áhrif á fréttaflutning eða dagskrá svo öflugs fjölmiðils sem Ríkisútvarpsins.

Í þessu sambandi langar mig að gagnrýna hæstv. menntamálaráðherra, að ekki skuli vera heimilað að ræða um fjölmiðlafrumvarpið á sama tíma og rætt er um frumvarp um Ríkisútvarp. Ég held því fram að með því séu hlutirnir gerðir óþarflega flóknir og kergja vakin í fólki með því að verða ekki við þeirri sjálfsögðu kröfu að þetta verði allt skoðað á sama tíma.

Ég hef fyrir framan mig tvær umsagnir úr bunkanum sem barst menntamálanefnd við umfjöllun um málið. Það er annars vegar umsögn frá stjórn Blaðamannafélags Íslands og hins vegar umsögn Félags fréttamanna sem farið var yfir gaumgæfilega í nefndinni. Það er athyglisvert að Félag fréttamanna gerir fyrst og fremst kröfu um að staðið verði við þau réttindi starfsmanna, áunnin réttindi, lífeyrisréttindi og önnur réttindi, sem starfsfólk hefur tilkall til. Menn telja að því sé ekki sinnt og í raun og veru brotið gegn því með þessu nýja frumvarpi. Félagið gerir skýlausa kröfu um að menn haldi samningsrétti sínum og félagið starfi áfram sem fag- og stéttarfélag fréttamanna. Félagið ætlar samkvæmt áformum sínum að halda áfram aðild að BHM en samkvæmt frumvarpinu, eins og það liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir að þetta félag verði samningsaðili við hið nýja Ríkisútvarp hf.

Síðan gera fréttamenn hjá Ríkisútvarpinu athugasemd við að í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og öðrum lögum sem snúa að starfsmönnum ríkisins sé kveðið á um mikilvæg réttindi og víðtækar skyldur. Eftir því sem ég best veit og okkur var tjáð á fundi menntamálanefndar var þessi umsögn kynnt félögum í Félagi fréttamanna og um hana ríkir mikil sátt í þeirra hópi. Þau segja að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna séu þess eðlis að eðlilegt sé að þau gildi áfram eftir formbreytinguna, eftir hlutafélagavæðinguna. Ég verð að segja að það er engin von til þess. Fréttamönnum getur ekki orðið að ósk sinni í þessum efnum því að það er alls ekki ætlun ríkisstjórnarinnar eða hæstv. menntamálaráðherra að heimila að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gildi áfram eftir háeffun. Það er meginatriði í málinu, einn megintilgangur hæstv. ráðherra með þessu öllu er að koma opinberum starfsmönnum í annað fyrirkomulag en ríkir með lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Fréttamenn hafa áhyggjur af því að þessi háeffun geti valdið því að fréttastofum í landinu fækki. Eins og nú er háttað hjá Ríkisútvarpinu eru starfandi tvær fréttastofur, þ.e. önnur hjá sjónvarpi og hin hjá hljóðvarpi. Yfir þær er sett fréttasvið. Þessar fréttastofur eru að öðru leyti sjálfstæðar og í umræðu og umfjöllun um fjölbreytni fjölmiðla, fjölræði og hið lýðræðislega hlutverk fjölmiðla af þessu tagi, hefur verið fjallað um að eðlilegt og sjálfsagt sé að reynt sé að standa vörð um þessar tvær fréttastofur.

Nú held ég að það sé vel þess virði að fá einhver svör frá hæstv. menntamálaráðherra og einhver sjónarmið í þessum efnum. Hvernig sér hún þetta fyrir sér. Ekki gátu höfundar frumvarpsins sagt okkur nokkurn skapaðan hlut um þetta í menntamálanefndinni, ekki var það fólgið í þeirra sýn til frumvarpsins eða til framtíðarhlutverks Ríkisútvarpsins að þar yrðu starfandi tvær sjálfstæðar fréttaritstjórnir, svo sannarlega ekki. Ekkert slíkt var innifalið í þeirra hugmyndum eða hugmyndafræði. En Félag fréttamanna leggur mikla áherslu á að þessar tvær sjálfstæðu fréttastjórnir, ritstjórnir, fái áfram að starfa þótt af formbreytingunni verði. Í því sambandi er reyndar lögð til í umsögn þeirra breytingartillaga varðandi samvinnu um dagskrárgerðina og samkvæmt tillögu meiri hlutans kemur hún til með að falla út. Reyndar leggur Félag fréttamanna það til að Ríkisútvarpinu hf. verði gert að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni, líðandi stundar og sömuleiðis að Ríkisútvarpinu sé gert að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða varða almenning.

Síðan vilja fréttamennirnir hafa eftirfarandi setningu í lagasetningunni, með leyfi forseta:

„Fréttaþjónustu RÚV annast tvær sjálfstæðar fréttaritstjórnir þ.e. Fréttastofa útvarpsins og Fréttastofa sjónvarpsins.“

Ég lýsi því hér með yfir, frú forseti, að þessa tillögu styð ég. Og ef svo fer að þessi hugmynd, frávísunartillaga okkar í minni hluta menntamálanefndar, verði felld í atkvæðagreiðslu, sem raunsæið segir mér að megi gera ráð fyrir, þá kann að vera að það komi til á síðari stigum þessa máls, í 3. umr., að einhvers konar breytingartillögur líti hér dagsins ljós frá minni hlutanum og þá er ég þess fylgjandi og fýsandi að tryggt verði með einhverjum hætti í lögunum að í öllu falli verði eftir breytinguna starfandi tvær sjálfstæðar fréttastofur. Það væri í samræmi við yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra varðandi fjölræði í fjölmiðlum og það væri í samræmi við vilja fjölmiðlanefndar sem skilaði af sér skýrslunni síðasta vor og ég nefndi áðan.

Ég tel afar mikilvægt að slíkri fjölbreytni sé viðhaldið og tryggt sé að þarna verði ekki um neina einhæfni að ræða. En vissulega er hætta á því í okkar smáa samfélagi þar sem smæð fjölmiðla í sjálfu sér veldur því að fáir fjölmiðlar hafa bolmagn til að reka öflugar fréttastofur. Nú er ég ekki að segja að þær fréttastofur sem starfa í dag séu endilega að sinna hlutverki sínu eins og best verður á kosið því að ég vildi gjarnan sjá miklu öflugri fréttastofur við Ríkisútvarpið en raun ber vitni í dag. Ég teldi einboðið, ef menn vildu í alvöru standa vörð um lýðræðislega umræðu í landinu, að verulegt átak þyrfti að gera í því hvernig fjárframlögum til stofnunarinnar er varið. Ég get ímyndað mér að fréttastofan mundi vera það fyrsta sem fengi aukið fjármagn, ef til þess kæmi að eitthvað yrði sett inn í stofnunina, því að ég ímynda mér, ég er kannski of bjartsýn, að fólk átti sig á að fjölmiðill á borð við Ríkisútvarpið þarf að hafa fréttastofu sem hefur bolmagn til að kafa djúpt ofan í mál. Það er ekki forsvaranlegt að fréttastofur Ríkisútvarpsins þurfi að skauta á yfirborði mála og geti aldrei kafað djúpt í málin eða gert sjálfstæðar fréttaskýringar vegna þess að fjármunir séu ekki til staðar til að sinna þeim sjálfsagða hluta af starfi öflugrar fréttastofu. Ef það er í alvöru einhver meining á bak við orð hæstv. menntamálaráðherra, að hún vilji efla Ríkisútvarpið og hið almenna hlutverk þess, þá hlýtur það að gilda um fréttastofurnar líka. Ég skora því á hæstv. ráðherra að standa með þeim sjónarmiðum sem vilja standa vörð um báðar fréttastofurnar, bæði fréttastofu útvarpsins og fréttastofu sjónvarpsins. Það tryggir margt í senn og gæti orðið til þess að bjarga ýmsu í sambandi við fjölbreytnina í flóru fréttastofanna.

Fleiri þætti nefnir Félag fréttamanna í umsögn sinni, m.a. að upplýsingalögin þurfi að gilda áfram þó svo að Ríkisútvarpið verði hlutafélagavætt. Ég get sagt það sama um þá hugmynd fréttamannanna og ég sagði um hina, að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gætu virkað áfram eða náð áfram yfir Ríkisútvarpið hf. Um það eru alveg skýr sjónarmið í meiri hlutanum, það er enginn vilji fyrir því að upplýsingalög að einu eða neinu leyti gildi. Því til staðfestingar getum við litið á frumvarp, sem mér skilst að sé nýkomið úr efnahags- og viðskiptanefnd, frá hæstv. viðskiptaráðherra sem varðar hlutafélög í opinberri eigu en þar eru engar vonir að hafa um að þessi opinberu hlutafélög sem verið er að búa til hérna í gríð og erg komi til með að heyra að nokkru leyti undir upplýsingalögin, því að eina ákvæðið í því frumvarpi sem varðar einhvers konar aðgang að upplýsingum er að finna í 5. gr. sem er breyting við 80. gr. laganna um hlutafélög.

Setningin sem 5. gr. hefur að geyma og á að tryggja aðgang að upplýsingum er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Fulltrúum fjölmiðla er heimilt að sækja aðalfund.“ Punktur.

Þetta er nú allur aðgangurinn að upplýsingunum sem menn gera ráð fyrir að sé í hinum opinberu hlutafélögum eftir því sem næst verður komist í því frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi Íslendinga.

Hjá ríkisstjórninni eða stjórnarflokkunum stendur enginn vilji til þess að upplýsingalögin nái á nokkurn hátt yfir þessi nýju hlutafélög sem verið er að stofna til hægri og vinstri, aðallega hægri.

Ég gæti farið í löngu máli, frú forseti, yfir þau sjónarmið sem fréttamenn telja að þurfi að tryggja og koma fram í umsögn þeirra en læt mér nægja að gera að lokum grein fyrir punkti sem varðar sjálfstæða umfjöllun. Af því að ég var að tala um fréttaritstjórnirnar þá segja fréttamenn í umsögn sinni að ákveðin trygging þurfi að vera fyrir því að umfjöllun á fréttastofunum sé sjálfstæð. Þeir vilja að í frumvarpinu komi fram að fréttastofurnar eða fréttaritstjórnirnar séu sjálfstæðar gagnvart útvarpsstjóra, sömuleiðis að þær verði sjálfstæðar gagnvart markaðsdeild og annarri þeirri starfsemi Ríkisútvarpsins hf. sem á sitt undir auglýsendum eða kostun efnis. Þá vilja fréttamenn að tryggt sé að við ráðningar fréttamanna sé farið að faglegum sjónarmiðum og að forsendur fyrir ráðningunni séu öllum ljósar og að fréttamenn gangist undir hæfnispróf áður en þeir eru ráðnir og í þessum punkti vilja fréttamenn líka tryggja að stofnunin hafi örugga tekjustofna. Allt þetta eru hlutir sem ég hef orðað í máli mínu og ættu að geta orðið til þess að einhvers konar trygging verði fyrir sjálfstæði þeirra sem fjalla um eða eiga að sinna hinu lýðræðislega hlutverki. En ekki eru miklar vonir til þess að eftir þeim ábendingum verði farið, slíkur er vilji stjórnarflokkanna.

Ég gerði að umfjöllun í upphafi máls mína ályktun þá sem starfsmannafundur Ríkisútvarpsins samþykkti, starfsmannafundur sem haldinn var í dag þar sem starfsmenn Ríkisútvarpsins óska eftir skýrari upplýsingum frá stjórnvöldum um hvernig fyrirtæki stjórnvöld sjá fyrir sér á grunni hins gamla Ríkisútvarps. Ég reyndi að gjóa augunum á fréttir eða þefa uppi einhverja fréttaumfjöllun áðan í matarhléi en fann ekki að ríkisstjórnin eða hæstv. menntamálaráðherra hefði nokkuð brugðist við því ákalli starfsmanna. En ég tel alveg einsýnt að það verði að gera því að hér erum við að fjalla um það alvarleg mál og alvarlegar ávirðingar sem starfsmennirnir koma með og enda á því að skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina sem yrði leidd í lög með þessu nýja frumvarpi og óskað er eftir því að búin verði til löggjöf sem dugi.

Frú forseti. Ég fer að ljúka máli mínu, ég hef tæpt á þeim punktum sem mér þóttu mikilvægastir að kæmu fram. Ég vil að lokum segja þetta um þá áráttu stjórnvalda að breyta ríkisstofnunum í hlutafélög að ég tel tímabært að stjórnvöld skoði hug sinn í þessum efnum og fari ofan í saumana á því hvort ekki sé hægt að horfa til þess kerfis sem við sjáum í nágrannalöndum okkar, t.d. á Norðurlöndunum, þar sem menn hafa ekki sömu sögu að segja um ósveigjanleika ríkiskerfisins og hér virðist vera upp á teningnum en búið er að halda þeirri staðhæfingu svo að þjóðinni að ríkiskerfið sé svo ósveigjanlegt að það verði helst að háeffa allt ef hlutirnir eigi að fúnkera. Þetta tel ég vera mikla bábilju og nauðsynlegt að hrekja hana. Eftir lestur lagatexta eins og t.d. laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna fullyrði ég og er sannfærð um að með góðum vilja megi innleiða mun meiri sveigjanleika inn í hið opinbera kerfi og inn í þær opinberu stofnanir sem hafa með almannaþjónustu okkar að gera í dag. Ég tel að með góðum vilja stjórnvalda og forstöðumanna þeirra stofnana megi gera gríðarlegt átak í þeim efnum. Ég er algerlega sannfærð um að innan þess kerfis sem við búum við í dag er hægt að búa til þennan sveigjanleika sem í orði kveðnu núverandi ríkisstjórn segist vilja.

Ef fólk er ekki tilbúið til að takast á við það verkefni að innleiða sveigjanleika inn í þær ríkisstofnanir og það kerfi sem við höfum í dag vil ég leyfa mér, frú forseti, að fullyrða að það er ekki það sem menn vilja, það er eitthvað annað. Þá kem ég náttúrlega að þeim kjarna í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem manni virðist vera sá einn að draga úr útgjöldum hins opinbera. Hvernig gera menn það? Með því að hlutafélagavæða stofnanirnar, fækka starfsfólki, veikja stofnanirnar þar með, þannig að alveg tryggt sé að ríkisstjórnin hafi tögl og hagldir með sín sterku ráðuneyti sem hafa ekki dregið úr umsvifum sínum á síðustu árum heldur þvert á móti. Hér er í sjálfu sér verið að opna fyrir það að ríkisstjórnin geti náð einhvers konar alræðisvaldi í hinu opinbera kerfi okkar. Það er auðvitað vilji hinnar valdasjúku ríkisstjórnar. Hún vill hafa hér tögl og hagldir, beita þeim áhrifum sem hún mögulega getur og það þjónar vilja ríkisstjórnarinnar að hafa ríkisstofnanir veikar. Og ein af stofnununum sem núverandi ríkisstjórn er verst við er Ríkisútvarpið. Þess vegna er kappið búið að vera svona mikið að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Síðan á að halda áfram að draga þar saman, skera utan af almannaþjónustuhlutverkinu allt sem getur talist til samkeppnisrekstrar þannig að uppi stendur útvarpsstjóri, ráðinn af menntamálaráðherra eftir samtal, ekki í Downingstræti 10, heldur Sölvhólsgötunni og þannig getur hæstv. menntamálaráðherra eftir því sem vilji hennar stendur til reynt að hafa síðan áhrif á það litla sem eftir verður, almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins.

Ég ætla að fá að ljúka máli mínu, frú forseti, á tilvitnun í ræðu Harðar Áskelssonar, kantors við Hallgrímskirkju í Reykjavík, sem hann flutti á málþingi Bandalags íslenskra listamanna sem ég gat um í upphafi máls míns, en hann hefur í starfi sínu sem tónlistarmaður skrifað greinar um Ríkisútvarpið og mikilvægi þess fyrir tónlistina. Hann hélt erindi á umræddu málþingi þar sem hann spurði um hlutverk Ríkisútvarpsins, menningarhlutverk þess, sem hann taldi vera í mjög miklu uppnámi og hann taldi það vera í uppnámi fyrst og fremst vegna þess að verið væri að takast á um gildismat. Hann gerir þetta gildismat að umræðuefni í ræðu sinni og talar um tengsl þessarar stofnunar við listamennina og listmenninguna og telur að Ríkisútvarpið og sjónvarpið eigi að vera í hlutverki fræðanda, gagnrýnanda og uppörvanda.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Það ætti að halda vakandi umræðu um listir, það ætti að vera með fingurinn á púlsinum, gefa hlustendum innsýn í listalífið og að vera á staðnum þar sem hlutirnir eru að gerast. Það ætti í auknum mæli að kalla til samstarfs þær stofnanir sem fremst standa á menningar- og menntasviðinu, það á að örva listalífið. Það sem best er gert á sviði lista á að vera boðstólum hjá sjónvarpi og útvarpi, sem allir landsmenn eiga saman.“

Að lokum, frú forseti, vitnar Hörður Áskelsson til orða nóbelsskáldsins og segir:

„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin var til fjár. Það var klukka.“

Hörður Áskelsson segir í ræðu sinni að löngu sé kominn brestur í þessa klukku, eins og klukkuna í sögu skáldsins og að elstu menn muni hljóm hennar skærari, og heimfærir Hörður Áskelsson þessi orð nóbelsskáldsins upp á þá Íslandsklukku sem Bandalag íslenskra listamanna fjallaði um á málþingi sínu, Íslandsklukkuna sem honum finnst fólgin í Ríkisútvarpinu, klukkuna sem nú er veist að á tíma þegar verið er að rífa hana niður til sölu á hlutabréfamarkaði, eins og Hörður Áskelsson kantor orðar það í erindi sínu.

Ég er sannfærð um að hér er einungis fyrsta skrefið stigið í þeim efnum að Sjálfstæðisflokknum verði að ósk sinni, þeirri ósk sem hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Pétur H. Blöndal hafa lýst í frumvarpi sem hefur verið til umfjöllunar, þ.e. þeirri ósk að Ríkisútvarpið verði á endanum sett á sölulistann, ef ekki að öllu leyti þá örugglega að flestu leyti. Koma þarf í veg fyrir það. Þess vegna segir stjórnarandstaðan í menntamálanefnd nei takk við þessu frumvarpi og flytur frávísunartillögu þá sem hér hefur verið til umfjöllunar.