132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:41]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Saga hv. þingmanns um afstöðubreytingu Framsóknarflokksins í þessu máli er athyglisverð. Í raun og veru ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo, sem er kannski ekkert óeðlilegt, að flokkurinn hafi breytt nokkrum sinnum um skoðun í samræmi við breytingar í samfélaginu. Það er auðvitað þannig í ýmsum málum og verður að teljast eðlilegt. En mér sýnist því miður, frú forseti, að þessi breyting sem orðið hefur á skoðun Framsóknarflokksins í þessu máli sé fyrst og fremst vegna samstarfsflokksins í ríkisstjórninni. Ég tel að hv. þingmaður hafi í rauninni fært ágæt rök fyrir því þegar hún talaði um að náðst hefði sátt um ákveðna hluti, sátt um að Ríkisútvarpið hefði ákveðnu hlutverki að gegna. Það er augljóst mál að ekki þurfti að ná sátt við neina aðra en hluta af Sjálfstæðisflokknum um það mál. Aðrir hafa verið þessarar skoðunar mjög lengi. Það er því augljóst að það er samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn sem hefur hrakið Framsóknarflokkinn í það far sem hann er í nú, þ.e. frá því að hafa haft þá skoðun að eðlilegast væri að Ríkisútvarpið væri sjálfseignarstofnun. Hann stóð nokkuð lengi í fæturna gagnvart þeirri skoðun en síðan kom eitthvert undarlegt tímabil, sem ég held að ekki nokkur maður hafi skilið, þegar rætt var um hið svokallaða sameignarfélag sem reyndist vera eitthvað sem enginn botnaði í raun og veru í hvað var, það er sérkennilegt að einn aðili ætli sér að eiga eitthvert sameignarfélag. Það var hugsanlega til þess að reyna að tefja málið eitthvað af hálfu Framsóknarflokksins sem endaði svo með því að tapa málinu algerlega fyrir Sjálfstæðisflokknum og það er leitt til þess að vita.

Frú forseti. Það sem mér leikur hugur á að vita hjá hv. þingmanni er að það kom fram í störfum menntamálanefndar að þessi merka setning í 1. gr., sem hv. þingmaður byggði alla afstöðubreytingu Framsóknarflokksins á, væri í raun og veru nákvæmlega sama eðlis og (Forseti hringir.) fyrri setning (Forseti hringir.) sem verið hefur, þ.e. að áfram þarf bara einfalda lagabreytingu á Alþingi ef menn vilja selja eða breyta.