132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:52]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er rétt sem hv. þm. Mörður Árnason kom inn á að í samþykktum okkar er kveðið á um að efla sjálfstæði Ríkisútvarpins. Ég tel að við séum einmitt að gera það með þessu frumvarpi. Hv. þingmaður spyr: Hvernig?

Til að fara yfir nokkra punkta þar að lútandi vil ég fyrst nefna að með því að stofna hlutafélag eykst sveigjanleikinn. Það gerir RÚV kleift að takast á við nýja tíma og breyttar aðstæður. Þar af leiðandi verður Ríkisútvarpið samkeppnishæfara sem treystir undirstöðurnar mjög mikið. Útvarpsstjórinn ber nú ábyrgð á dagskrárgerð en áður var það pólitískt skipað útvarpsráð. Ég tel þetta vera gríðarlega mikilvægt atriði í að efla sjálfstæði Ríkisútvarpins.

Tekjustofninn er styrkur. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpins hf. Þetta er breyting vegna þess að áður komu t.d. tillögur frá ráðherra um framkvæmdastjóra deilda og eins og lögin eru í dag gefur útvarpsráð umsögn um starfsfólk dagskrárgerðar. Eftir þessar breytingar mun þetta ekki vera hlutverk útvarpsráðs. Ég tel það vera mjög af hinu góða að þetta valdsvið færist yfir til útvarpsstjóra. Þetta eru þau atriði sem ég tel stuðla að eflingu sjálfstæðis Ríkisútvarpins. Um það geta verið skiptar skoðanir en það er alla vega mitt mat á þessu.