132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:58]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Sú umræða sem hér hefur átt sér stað í dag hefur um margt verið fróðleg. Það hefur víða verið komið við eins og eðlilegt er þegar svo stórt mál er rætt eins og framtíð Ríkisútvarpsins. Samt sem áður er víða hægt að bæta einhverju við þessa umræðu og ég mun leitast við að fara yfir það frá ýmsum hliðum. En vegna þess andsvars sem hér var áðan held ég að ekki sé óeðlilegt að byrja ræðu mína þar sem frá er horfið í andsvörum, vegna þess að þarna er auðvitað verið að tala um býsna stóran hlut, þ.e. sjálfstæði Ríkisútvarpsins og stjórnskipulag þess sem skiptir miklu máli.

En aðeins áður, vegna þess andsvars sem ég átti við hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur hér áðan, þar sem við ræddum m.a. afstöðubreytingu og þróun á skoðunum Framsóknarflokksins í þessu máli þá er það auðvitað þannig að við sem höfum verið að horfa á vanda Framsóknarflokksins, höfum haft af honum ákveðnar áhyggjur. Vegna þess að flokkurinn á merka sögu að baki og það er ekkert skemmtiefni fyrir okkur sem lifum og hrærumst í stjórnmálum að sjá einn flokk engjast svo í vanda sínum, eins og Framsóknarflokkurinn hefur gert í þeim vanda sem hann hefur átt við að stríða undanfarið.

En ég held að þetta litla dæmi sem við ræddum hér áðan um þróun skoðunar Framsóknarflokksins á þessu máli, þ.e. hvernig flokkurinn hefur á látlausum flótta undan samstarfsflokknum verið að breyta um skoðun, sé kannski eitthvað sem flokkurinn þyrfti að staldra örlítið við og velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að læra eitthvað af. Vegna þess að þannig var fyrir ekkert allt of mörgum árum að býsna margir treystu því að Framsóknarflokkurinn gæti haldið aftur af Sjálfstæðisflokknum í ýmsum áhugamálum Sjálfstæðisflokksins. Mér heyrist, því miður fyrir Framsóknarflokkinn, mjög víða nú að fólk sé hætt að gera ráð fyrir slíku. Því er nú ver og miður. Sjálfstæðisflokkurinn virðist því nú vera einráður í þessu meirihlutasamstarfi og þrátt fyrir einstaka tilraunir Framsóknarflokksins til að snúa við af þessari óheillabraut þá virðist það ekki vera nægjanlega sannfærandi þannig að fólk trúi því.

Ég held t.d. að Ríkisútvarpið hafi verið eitt af þessum málum sem margir gerðu ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn mundi hafa sem eins konar lokavarnarmúr í að láta ekki valta yfir sig. Það leit þannig út býsna lengi. Ég man eftir ræðum hér úr þessum ræðustóli þar sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins margir hverjir stóðu nokkuð keikir og sögðu aldrei, aldrei hlutafélag um Ríkisútvarpið. Þar eru ekki mörg ár síðan. En svo kom þetta undarlega tímabil sem ekki nokkur maður skildi þegar allt í einu var komið inn sameignarfélag. Það verður kannski að hæla fulltrúum Sjálfstæðisflokksins fyrir klókindi í þeim efnum, því ég trúi að þar hafi mönnum verið nokkuð ljóst mjög snemma að slíkt yrði aldrei samþykkt af ESA svo að það væri ekkert vandamál að eyða nokkrum mánuðum í að láta Framsóknarflokkinn halda að þetta væri einhver lausn fyrst ekki mátti setja háeff á þetta. Og láta síðan tilskipunina koma að utan og taka þá málið. Því þá var Framsóknarflokkurinn auðvitað kominn upp við vegg og átti ekki margar leiðir úr þeim vanda eins og komið hefur í ljós. Nú situr Framsóknarflokkurinn uppi með að leið Sjálfstæðisflokksins hefur verið valin og það eina sem Framsóknarflokkurinn hefur á að benda er sérkennilegt setningarbrot, og ég verð að segja það eins og er, frú forseti, að ég hélt ég ætti ekki eftir að upplifa það og ætlaði eiginlega að leiða hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur í þá gildru, að rifja upp þessa setningu í andsvari. En hv. þingmaður gerði það sjálfur svo ég þurfti ekkert á því að halda. En eins og ég segi, ég hélt að framsóknarmenn mundu gleyma þessari setningu, sérstaklega hv. framsóknarþingmenn sem hafa setið fundi í menntamálanefnd þar sem þessi setning var rædd og það kom fram sem ég held að flestir hafi vitað að þessi setning er auðvitað ekkert hald ef á annað borð er einhver áhugi á því að selja þetta hlutafélag, eins og önnur hlutafélög sem seld hafa verið af ríkisstofnunum sem breytt hefur verið í hlutafélög. Þessi setning veitir þar af leiðandi enga meiri vörn en þær setningar sem sagðar hafa verið áður.

Slagurinn verður auðvitað áfram um hvort sá áhugi er fyrir hendi eða ekki, og ég verð að segja eins og er út frá þessari sögu um það hvernig Framsóknarflokkurinn hefur þróast í þessu máli, að því miður óttast maður að ef framhald verður á, sem ég vona að þjóðin sjái til að verði ekki en í stjórnarsamstarfi þessara flokka, þá þurfi ekki að líða allt of mörg ár þar til Framsóknarflokkurinn er kominn í hóp þeirra sem tala opinberlega um vilja Sjálfstæðisflokksins í málinu, þ.e. þingmenn eins og hv. þm. Pétur Blöndal sem er hreinskilinn að vanda í þessum efnum og talar auðvitað hreint út hver vilji þeirra er. Það er auðvitað skoðun út af fyrir sig sem þarf að ræða. Ég held að það sé ansi einföld útlistun á raunveruleikanum að nú sé allt í einu gífurleg samstaða um það, miklu meiri en áður hefur verið, að ekki eigi að selja Ríkisútvarpið. Ég held að sá hópur innan Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið þeirrar skoðunar sé álíka stór og hann hefur alltaf verið og muni bara leita færis í að koma því fram.

Frú forseti. Hér var áðan rætt um stjórn Ríkisútvarpsins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir vildi meina að í hinni breyttu stjórn fælist m.a. stóraukið sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það er hægt að taka undir að vissulega er það form sem verið hefur á útvarpsráði úrelt og kominn tími til að gera á því breytingar. En því miður hefur ekki verið stigið nægjanlega langt að mínu mati og okkar samfylkingarmanna til að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar, þ.e. sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart hinu pólitíska valdi. Það er auðvitað afskaplega óheppilegt að stjórn Ríkisútvarpsins verði áfram skipuð meiri hluta ríkisstjórnarmeirihlutans. Það fellur ekki að þeim hugmyndum að stofnunin sé sjálfstæð gagnvart pólitískum meiri hluta á Alþingi. Þetta skal gerast árlega og þar af leiðandi er enginn möguleiki á að það verði tímabil sem þessi stjórn verði með öðrum meiri hluta en ríkisstjórnarmeirihlutinn er. Það verða þá í mesta lagi einhverjir mánuðir. Það væri hægt að nálgast þetta á margan hátt ef menn hefðu endilega viljað kjósa stjórnina á þennan hátt, það hefði t.d. verið hægt að hafa kjörtímabil hennar eitthvað annað en kjörtímabil til Alþingis. Þannig að það vissu það allir, hvort sem þeir voru í meiri hluta eða minni hluta að sá meiri hluti sem væri í dag gæti verið orðinn annar við næstu stjórn. Það mundi ekki fylgja, þannig að það væri hægt að tryggja að það væri ákveðin fjarlægð þarna á milli.

Það virðist ekki vera vilji til þess þannig að það er augljóst mál að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur áhuga á að halda þessum tengslum. Hver sem ástæðan er fyrir því, það getur hver og einn auðvitað leikið sér með það að velta því fyrir sér hvernig á því standi. En ég benti á í andsvari áðan við hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, að það gæti verið að ákveðinn hluti Sjálfstæðisflokksins hefði sérstakan áhuga á að Ríkisútvarpið sem slíkt væri með ákveðnum styrk nú um stundir. Hugsanlega vegna þess að það væru einhverjir aðilar sem þessum hópi hefur að því hefur virst á undanförnum missirum verið eitthvað uppsigað við, af ástæðu sem ég ætla ekki að reyna að útskýra, en hefur blasað við um nokkurt skeið. Það gæti verið hugsanleg skýring á þessum áhuga að halda styrk Ríkisútvarpsins, og við skulum vona að hann dugi til þess, en ekki verið þó tilbúnir til að gefa stofnuninni það sjálfstæði, sem ég held að flestir séu sammála um að sé nauðsynlegt ef stofnunin á yfirleitt að ná að dafna. En þrátt fyrir ákvæðin sem eru í 9. gr. um stjórnina er ekkert útilokað að þetta gangi. En þessi hætta er sannarlega til staðar. Við skulum ekki gleyma að þessi sama stjórn fer síðan með það mikla vald að ráða og reka eða leysa útvarpsstjóra frá störfum, sem hefur síðan gífurlega mikið vald um starfsemina alla saman. Það liggur alveg ljóst fyrir að við þessar kringumstæður þegar útvarpsstjóri hefur í raun og veru ekkert svigrúm í ráðningartíma sínum, þ.e. getur átt von á því hvenær sem er að vera leystur frá störfum, þá er sú hætta alltaf til staðar að viðkomandi embættismaður hugsi sig um hvort líkur séu á við hina eða þessa ákvörðun að hann haldi starfi sínu.

Þarna hefði líka verið hægt að fara ýmsar leiðir til að tryggja aukið sjálfstæði, m.a. með því að hafa ráðningartímann lengri, hafa hann eins og er reyndar með forstöðumenn, og sérkennilegt að ekki skuli vera horft til þess, að forstöðumenn í ríkisstofnunum eru nú ráðnir til fimm ára. Þannig að það er sérkennilegt að það skuli ekki vara farin sama leið og þar við þessa stofnun, eða þetta hlutafélag, eins og það er nú hugsað. Eða horft til annarra landa þar sem þetta eru jafnvel sex eða sjö ár, þar sem menn líta á þetta sem mikilvægan þátt í að stofnanirnar geti dafnað og þær séu klárlega í ákveðinni fjarlægð frá hinu pólitíska valdi.

Frú forseti. Það er ein nálgun í þessu máli sem hefur verið nokkuð nefnd hér í dag og er býsna mikilvæg og er eiginlega algjörlega óskiljanlegt hvernig á því stendur að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki sinnt því sem skyldi, en það er að gera tilraun til að ná sem víðtækastri sátt um Ríkisútvarpið. Þetta er stofnun sem ég trúi að muni starfa um ókomna tíð í samfélaginu og það er mjög nauðsynlegt að um hana ríki sem allra mest sátt. Þetta er stofnun sem er rekin fyrir almannafé að stórum hluta til og gegnir gífurlega mikilvægu hlutverki í menningarlegu tilliti og í mótun fjölmiðlunar í landinu. Þannig að um svona stofnun þarf að ríkja gífurleg sátt.

Í mínum huga, frú forseti, er það skylda ríkisstjórnar hverju sinni að reyna að ná slíkri sátt. Vegna þess að það er ekki hægt að gera stofnun það, ég tali nú ekki um eftir þá tíð sem við höfum horft upp á, ég veit ekki hvað ég á að fara langt aftur í tímann, að búa við þá óvissu sem ríkt hefur um stofnunina, m.a. vegna mikils áhuga stórs hluta Sjálfstæðisflokksins á að selja hana og vegna þess sem á stundum hefur að minnsta kosti hefur sýnst, að það ætti eiginlega að svelta hana til hlýðni. Þessi óvissa hefur auðvitað leikið stofnunina grátt. Það er alveg klárt mál að það er kominn tími til að því tímabili linni.

Þess vegna m.a. er það mjög alvarlegur hlutur að koma hér fram með frumvarp sem er keyrt í gegnum þingið á þann hátt sem við höfum að minnsta kosti fram að þessu séð gerast, þ.e. í menntamálanefndinni, mér liggur við að segja í miðjum klíðum, sem er þó kannski að hluta til ósanngjarnt vegna þess að það er ekki eins og frumvarpið hafi ekki verið til umfjöllunar hjá nefndinni í nokkurn tíma og var auðvitað líka búið að vera í örlítið breyttri mynd á síðasta ári einnig í nefndinni. En út af fyrir sig er ekki hægt að ásaka formann nefndarinnar eða meiri hluta nefndarinnar fyrir að hafa ekki gefið sér þokkalegan tíma til að taka á móti gestum. Þó svo að við höfum gert athugasemdir við að við teldum að það þyrfti að fá nokkra í viðbót, í raun og veru bara örfáa í viðbót. Hefði ekki átt að vera mikið vandamál að tryggja það.

Af einhverjum ástæðum er sú ákvörðun tekin í meiri hlutanum að nú sé komið að endapunkti. Nú skuli ekki vera gefinn meiri tími í þetta og það á þeim tímapunkti þegar nokkurn veginn er búið að ljúka heimsóknum en ekki búið að gefa sér neinn tíma í nefndinni til að ræða frumvarpið sem slíkt. Það var aldrei reynt að ræða um hvað það væri sem nefndarmenn hefðu áhuga á eða teldu að mætti betur fara. Enginn tími notaður til þess. Nú þurfti bara að ljúka málinu og klára og koma því inn í þingsal. Þetta er eiginlega alveg með ólíkindum. Vegna þess að þegar við horfum örlítið fram í tímann þá eru alþingiskosningar árið 2007 og allar líkur á að það verði breytt stjórnarsamstarf og ég færði nokkur rök fyrir því hér áðan að það er eins gott að breyting verði á ríkisstjórnarsamstarfi, bæði fyrir stofnunina Ríkisútvarpið og fyrir íslenska þjóð, en þá blasir við að ný ríkisstjórn verður að fara að skoða þessi mál upp á nýtt og gera einhverjar breytingar á þessum lögum. Þetta er mjög slæmt og ég held að það hefði mátt koma í veg fyrir þetta, þ.e. ef örlítið meiri vinna hefði verið lögð í að reyna að ná sátt um málið. Þá hefði verið hægt að tryggja miklu víðtækari sátt svo það hefði verið nokkuð víst að það væru að minnsta kosti ekki gerðar stórvægilegar breytingar sem mundu raska á einhvern hátt framtíðaráætlunum stofnunarinnar þó svo skipt yrði um ríkisstjórn.

Þetta er sama, frú forseti, og ég tel vera skyldu stjórnvalda gagnvart breytingum t.d. á skólakerfinu. Þar erum við líka með viðkvæma starfsemi sem er afskaplega mikilvægt að ríki sem víðtækust sátt um þegar breytingar eru gerðar. Það er ekki hægt fyrir kerfi eins og skólakerfið, alveg eins og er með stofnun eins og Ríkisútvarpið, að búa við þá óvissu að við hver stjórnarskipti verði alltaf nýjar áherslur og umskipti. Svona starfsemi á að vera yfir það hafin. Þess vegna er það mikill ábyrgðarhluti þess stjórnarmeirihluta sem hér ræður för að velja þá leið að keyra þetta, ég vil segja eiginlega í eins mikilli ósátt og möguleiki var. Leitað var að því er virtist leiða til að skapa ósátt. Ekkert gert í því — þrátt fyrir það, frú forseti, sem er auðvitað athyglisvert vegna þess að núna er kominn í salinn hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, sem ég ætla að eyða örstuttum tíma í að hæla fyrir vinnubrögð, því að hv. þingmaður hefur lagt sig fram um svo eftir hefur verið tekið í menntamálanefnd, að reyna að ná sem mestri sátt um mál, hagað vinnubrögðum þannig að um það hefur verið, ég vil segja nokkuð mikil ánægja í nefndinni — þar til allt í einu á þessum tiltekna fundi að öllu er snúið við og nú skal bara keyrt í deilur.

Frú forseti. Ég hefði kosið að hv. þingmaður hefði skipt um kúrs í einhverju öðru máli vegna þess að þetta mál er svo mikilvægt. Það fjallar um svo mikilvæga stofnun að ekki gengur að sýna slíkt ábyrgðarleysi að keyra það í gegn í bullandi ágreiningi, ég tala nú ekki um þegar við fáum það sterklega á tilfinninguna í minni hlutanum að reynt sé að auka á ágreininginn. Vinnulagið er með þeim hætti að reynt er að auka ágreininginn, reynt er að draga hann allan fram, ekkert gert til að reyna að ná sátt um stærri mál í frumvarpinu.

Frú forseti. Ég fullyrði að mikill möguleiki hefði verið á að ná sátt um það. Og það hefði mátt byrja á því fyrr en á þessum tiltekna fundi, það hefði örugglega skapað meiri möguleika ef það hefði verið gert strax í upphafi. En þetta vinnulag var valið, og ekkert nema gott um það að segja, að gefa góðan tíma í viðræður og gestakomur til nefndarinnar út af málinu.

Frú forseti. Ég skil vel ákveðnar áhyggjur sem koma fram í ályktun starfsmannafundar Ríkisútvarpsins sem samþykkt var á fundi þeirra í dag, en þar segir, með leyfi forseta:

„Starfsmenn furða sig líka á því að ekki hafi verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd Alþingis. Spyrja má um tilganginn með að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjöf.“

Frú forseti. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt og í raun þyrfti forsætisnefnd Alþingis að velta fyrir sér þessum setningum í þeirri ályktun. Ég vænti þess að forsætisnefnd velti því fyrir sér þegar ályktunin verður send vonandi til forsætisnefndar hvort þetta sé svo að nefndir þingsins — þetta er raunverulega mjög alvarleg ásökun um vinnubrögð að nefndir þingsins, þó að í þessu tilfelli sé aðeins verið að tala um menntamálanefnd — leyfi sér að setja fólk í vinnu úti um allan bæ, úti um allt land og það sé bara einhver leikaraskapur, það sé ekkert með það gert. Því miður, frú forseti, virðist í þessu tilfelli vera allt of mikið til í þessum setningum, vegna þess að þegar búið var að breyta um kúrs í störfum nefndarinnar þá kom þetta í raun og veru í ljós. Að vísu var tekið tillit til nauðsynlegra ábendinga frá ESA en þaðan fengum við enga gesti. Ef eitthvað er getur maður dregið þá ályktun að það væri verra að vera gestur á fundum í menntamálanefnd, a.m.k. þegar verið er að fjalla um ákveðin mál eins og þetta mál, því að ekki verður vart við það í störfum meiri hlutans að hlustað hafi verið á einn einasta gest.

Ég vakti athygli á því áðan að hv. varaþingmaður menntamálanefndar virtist líklega ekki hafa hlustað á suma gesti sem komu til nefndarinnar vegna þess að hv. þingmaður talaði eins hér áðan og við 1. umr. þegar Framsóknarflokkurinn var í alsælu yfir setningu sem einhver snjall lögfræðingur Sjálfstæðisflokksins hafði rétt fram og framsóknarmenn tóku gleði sína og voru í gleðivímu lengi. En ég hélt að sú gleðivíma hefði horfið þegar lögfræðingar komu til menntamálanefndar og bentu á að þessi setning hefði enga merkingu umfram þær setningar sem notaðar hefðu verðið fram til þessa þegar verið var að breyta ríkisstofnunum í hlutafélög. Alveg jafnt þá og nú við þessa setningu er bara einföld ákvörðun meiri hluta þingsins, að sjálfsögðu, sem þarf til að gera breytingu á. Þarna er enginn munur á.

Frú forseti. Fyrst ég er byrjaður að fjalla um ályktun starfsmannafundar Ríkisútvarpsins er kannski rétt að fara yfir fleiri þætti í ályktuninni. Það er önnur setning sem er einnig afskaplega auðvelt að skilja. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þær virðast nú hafa endað“ — þ.e. þessar gömlu deilur eða mismunandi áherslur ríkisstjórnarflokkanna — „í óútfylltri ávísun til framtíðar.“

Í óútfylltri ávísun til framtíðar. Þetta er mjög skiljanlegt af þeirri einföldu ástæðu að menn sjá ekki hver framtíðarsýnin er í frumvarpinu. Svo virðist vera fyrst og fremst að verið sé að breyta þessu í hlutafélag, væntanlega til þess að liðka til á ákveðnum þáttum, ekki síst gagnvart starfsfólkinu. En það verður að segjast eins og er að ef það er megináhuginn þá skilur maður eiginlega ekki af hverju ríkisstjórnarflokkarnir koma ekki fram með frumvarp um hvernig þeir vilja að starfsmannamálum sé háttað í ríkisstofnunum. Af hverju þarf alltaf að fara þessar krókaleiðir til að ná því fram? Af hverju er ekki komið fram með almenn lög um hvernig réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna eiga að vera, ef það er óánægja með slíkt í ríkisstjórnarmeirihlutanum? Maður þarf líklega ekki að nota orðið „ef“ því að það blasir við að mikil óánægja er með það.

Það er ekki aðeins í þeirri merkingu sem við getum horft á hina óútfylltu ávísun vegna þess að í ályktuninni kemur einnig skýrt fram og segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Starfsmenn gera alvarlegar athugasemdir við að ekki liggi ekki enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið á að ráða yfir í upphafi.“

Frú forseti. Þetta er grafalvarlegt mál. Ég kom inn á þetta í andsvari við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson í morgun, að það er algjörlega með ólíkindum að farið skuli vera með slíkt mál úr nefnd án þess að fyrir liggi mat á eigum, mat á eiginfjárstöðu stofnunarinnar, ekki síst vegna þess að minnst er á þetta í frumvarpinu þar sem er talað um að lagðar skuli 5 millj. kr. í hlutafé, a.m.k. 5 millj. kr. í hlutafé. Og við skiljum hugtakið „að minnsta kosti“. Þegar frumvarpið var lagt fram gat maður vissulega skilið að þetta væri ekki allt saman þaulkannað og skoðað, þetta var líka á þeim árstíma að ársreikningar fyrir Ríkisútvarpið lágu líklega ekki fyrir. En nú liggur hreinlega fyrir að eiginfjárstaða Ríkisútvarpsins er neikvæð. Þessar 5 milljónir munu því ekki duga. Ef engar breytingar verða á verður það fyrsta verk stjórnarinnar að lýsa yfir gjaldþroti. Samkvæmt hlutafélagalögum væri það skylda stjórnarinnar. En það hefur komið fram, m.a. í heimsóknum til menntamálanefndar, að vilji er til þess að slíkt gerist ekki og vinna er í gangi milli menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins um að fara yfir þessi mál. Sú vinna stendur yfir núna, að fara yfir þessi mál. Upplýst var að allt í þeim efnum væri óljóst, nema að eiginfjárstaðan um síðustu áramót væri neikvæð og þessar 5 milljónir mundu ekki duga til að rétta það við. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson endurtók það sem kom fram á fundum nefndarinnar að sá vilji væri til staðar og hv. þingmaður ákallaði hæstv. ráðherra, bæði menntamála og fjármála, um að hæstv. ráðherrar væru örugglega reiðubúnir til að koma hér og lýsa því yfir að tryggt yrði að eiginfjárhlutfallið yrði ekki neikvætt.

Þannig er það samt sem áður. Og því er eðlilegt að starfsmennirnir veki athygli á að þetta liggi ekki fyrir núna, þegar umræðan ef hafin og ég geri ráð fyrir að þetta muni ekki liggja fyrir miðað við fyrri vinnubrögð og að þetta muni ekki liggja fyrir þegar umræðunni lýkur. Þess vegna er farið fram með óvissu. Í rauninni hefði málið allt saman átt að vera þannig — því að fyrir lá þegar við vorum að afgreiða fjárlög að það var vilji ríkisstjórnarinnar að fara þessa leið með Ríkisútvarpið — að þær tölur lægju fyrir og hefðu átt að vera tilbúnar. Ef rétt hefði verið að þessu staðið má segja að ekki væri óeðlilegt að vera með frumvarpið í nefndinni í vor en ljúka ekki málinu fyrr en á haustdögum þegar allt liggur fyrir og samþykkja það síðan samhliða fjárlögum þannig að dæmið væri gert upp um leið. Það væru auðvitað vinnubrögð sem væru til fyrirmyndar. En það er eitthvað annað sem ræður hraðanum en að vanda vinnubrögð sem mest og þess vegna erum við í þessari stöðu.

Frú forseti. Það er meira segja þannig að í umsögn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjórans, kemur fram þetta sama áhyggjuefni vegna þess að þar er vakin athygli á því hver staða Ríkisútvarpsins er í fjárhagslegu tilliti. Ég held að full þörf sé á að rifja það örlítið upp, líka starfsmannanna vegna í Ríkisútvarpinu sem hafa hugsanlega þá tilfinningu að þeir séu eitthvað öðruvísi en aðrir sem koma í heimsókn til nefndarinnar. En hægt er að fullyrða við starfsmennina að útvarpsstjórinn sjálfur, yfirmaður þeirra, fékk alveg nákvæmlega sömu meðhöndlun hvað þetta varðar.

Í umsögninni segir m.a., með leyfi forseta:

„Um langt árabil hefur verið verulegur halli á rekstrinum“ — þ.e. hjá Ríkisútvarpinu — „og er eigið fé stofnunarinnar neikvætt. Á þessu er nauðsynlegt að taka áður en nýtt hlutafélag verður skráð.“

Þetta er dagsett, frú forseti, 17. febrúar 2006. Þar er það komið hreint og klárt að eigið fé stofnunarinnar er neikvætt, þ.e. var það um síðustu áramót, staðfest af útvarpsstjóra.

Áfram heldur útvarpsstjóri, með leyfi forseta:

„Þessum taprekstri verður ekki mætt einvörðungu með hagræðingu.“

Þetta er býsna mikilvægt, frú forseti, að taprekstrinum verður ekki mætt einvörðungu með hagræðingu. Hér er sagt berum orðum: Það þarf að bæta fjármagni inn í stofnunina. Það er ekki nóg að eigið fé stofnunarinnar verði bara rétt til að tryggja eitthvað lögformlegt, það þarf aukið fjármagn inn.

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur Ríkisútvarpinu tekist að hagræða verulega í rekstri, enda ítrekað verið farið ofan í rekstur einstakra deilda. Ekki verður séð að hægt sé að ganga mikið lengra á því sviði án þess að skerða þjónustuna.“

Frú forseti. Getur það verið að á bak við þetta liggi einhvers staðar hjá einhverjum hópi að leiðin til þess að ná sínum markmiðum fram um að selja stofnunina sé að halda hugsanlega áfram að svelta hana til hlýðni? Að það eigi að draga úr þjónustunni? Þetta vitum við ekki vegna þess að það liggur ekki fyrir hvernig á að taka á eiginfjárhlutfalli eða fjármálum stofnunarinnar almennt. Það liggur bara hreinlega alls ekkert fyrir. Svörin sem við fengum í menntamálanefnd voru þau að ráðuneyti fjármála og mennta væru að skoða málið, væru að fara yfir eignir stofnunarinnar, væru að velta því fyrir sér hvernig ætti að fara með skuldir stofnunarinnar við ríkissjóð, hvort það ætti að láta stofnunina borga þær, hugsanlega á einhverjum árum, eða hvort ríkið ætlaði að gefa þær eftir eða hvernig ætti að fara með þetta. Það liggur ekkert fyrir, allt saman í skoðun. Þrátt fyrir það, og það var athyglisvert, var það á sama fundinum sem meiri hluti menntamálanefndar breytti algjörlega um kúrs, hætti að hafa tíma til þess að ræða málið og nú þurfti að drífa málið í þingsalinn. Hver ástæðan var er okkur auðvitað enn þá algjörlega hulið því að engar skýringar höfum við fengið og var þó oft búið að gefa í skyn að þetta væri þannig mál að eðlilegt væri að reyna að ná einhverri samstöðu um málið.

Frú forseti. Það er auðvitað alveg með ólíkindum að þessi sami ríkisstjórnarmeirihluti sem lenti í miklum hremmingum með ekki mjög óskylt mál, þ.e. fjölmiðlafrumvarpið svokallaða, skuli ekki hafa lært nokkurn skapaðan hrærandi hlut, þ.e. virðist algjörlega skorta hæfileikann til þess að yfirfæra. Vissulega lærði ríkisstjórnarmeirihlutinn eitthvað gagnvart fjölmiðlafurmvarpinu. Þar var vinnubrögðum algjörlega breytt, leitað eftir samráði, skipuð nefnd allra flokka og hvað kom í ljós? Í ljós kom það sem stjórnarandstaðan hafði ætíð sagt að ef gerð verður tilraun til þess að ná sátt í málinu mun hún nást. Þannig held ég að þetta sé líka með Ríkisútvarpið af þeirri einföldu ástæðu að nákvæmlega eins og með fjölmiðlafrumvarpið er það meginatriðið, sem ég er sannfærður um að er mikill meiri hluti fyrir á Alþingi, þ.e. að tryggja farsæla framtíð Ríkisútvarpsins. Það er til staðar nákvæmlega eins og var varðandi fjölmiðlamálið, að allir voru tilbúnir og reiðubúnir til þess að kanna stöðuna á fjölmiðlamarkaðnum og kanna hvort til þess þyrfti að setja lög og þá með hvaða hætti.

Nú heyrum við þær fréttir að væntanlegt sé á næstu dögum frumvarp inn í þingið sem góðar líkur eru á að náist sátt um. Ég held að ekki sé alveg búið að ganga frá því endanlega en góðar líkur séu á því. Á þessum svipaða tíma breytir allt í einu meiri hlutinn algjörlega um kúrs í menntamálanefnd. Frú forseti, ég verð að segja að því meira sem maður veltir þessu fyrir sér því meira undrandi verður maður á málinu. Hver er ástæðan fyrir þessu? Hún hlýtur einhvern tíma að koma í ljós, vonandi upplýsir þessi umræða hvað veldur. Ef ekki verðum við í versta falli að bíða eftir því að sagnfræðingar framtíðarinnar komist að því hvað gerðist í meiri hlutanum.

Maður getur auðvitað velt ýmsu upp. Skömmu eftir þetta kom í ljós að bullandi ágreiningur var í ríkisstjórnarflokkunum, að vísu um allt annað mál. Getur verið að klókindi stóra flokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu hafi enn einu sinni verið á ferðinni? Þarna var þó mál, þ.e. Ríkisútvarpið, sem Framsóknarflokkurinn lengi vel stóð í lappirnar í, í raun og veru ótrúlega lengi miðað við hvað hann hefur verið fljótur að snúast. Getur verið að klókindin hafi verið þau að láta Framsóknarflokkinn ekki geta stoppað þetta mál þrátt fyrir að deilur væru um annað mál á milli ríkisstjórnarflokkanna, sem blasir nú við, að hin nýja stofnun hæstv. iðnaðarráðherra verður stoppuð í iðnaðarnefnd af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni? Sama hefðu auðvitað fulltrúar Framsóknarflokksins getað gert í menntamálanefnd, nákvæmlega það sama, hefðu hugsanlega getað stillt þessum málum upp gegn hvort öðru og sagt við Sjálfstæðisflokkinn: Ja, við hleypum ekkert Ríkisútvarpinu út úr nefndinni ef þið ætlið að stoppa hæstv. viðskiptaráðherra í því að koma sinni stofnun í gegn. Svoleiðis hlutir hafa nú líklega gerst áður í þessu stjórnarsamstarfi.

Frú forseti. Margt bendir til þess að það skeið sem ég lýsti örlítið áðan í ræðu minni í sögu Framsóknarflokksins sé orðið þannig að mátturinn sé gjörsamlega horfinn, ekki sé einu sinni eftir máttur til þess að hugsa taktíska leiki. Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði áðan að þetta skeið í sögu Framsóknarflokksins er um margt sorglegt. Við höfum fylgst með þessum flokki gera í gegnum söguna ýmislegt merkilegt og standa lengi vel í ístaðinu gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Það var m.a.s. talað um það oft með nokkuð digrum rómi af framsóknarmönnum hvernig þeir gætu alltaf staðið gegn Sjálfstæðisflokknum. Og gleymum því ekki að það er í raun og veru ótrúlega stutt síðan ýmsir forkólfar Framsóknarflokksins notuðu slagorðið Allt er betra en íhaldið. En það er önnur tíð sem við lifum í dag. Ekki bara að hætt sé að nota slík slagorð heldur virðist sem æ minni munur sé verða á flokkunum. Það er eðlilegt að maður ræði það þegar við ræðum málefni Ríkisútvarpsins því að það var lengi vel eitt af þeim málum sem Framsóknarflokkurinn gat alltaf bent á: Ja, við stoppum nú Ríkisútvarpið, þar vilja þeir einkavæða, sögðu framsóknarmennirnir. Þeir náðu að stoppa það en nú er önnur tíð og nú er leið Sjálfstæðisflokksins gengin. Huggun framsóknarmanna harmi gegn er ein pínulítil setning sem því miður fyrir þá hefur enga skýringu á afstöðu þeirra í málinu. (Gripið fram í: Það má lengi ...) Það má ýmislegt gera, hv. þingmaður, það er rétt og spurning hvort ekki liggi ýmislegt að baki akkúrat því að margir hv. þingmenn í Sjálfstæðisflokknum, sem eru ekki jafnhreinskilnir og hv. þm. Pétur Blöndal, hugsi ekki ýmislegt um það hvaða leiðir eru færar inni í framtíðinni þegar búið er að tugta Framsóknarflokkinn til í þessum efnum.

En við höfum alltaf þann möguleika, þjóðin, að stoppa þessa þróun. Við teljum, og ég veit að a.m.k. meiri hluti hv. þingmanna hér í salnum er sammála mér um að nauðsynlegt sé fyrir þjóðina og Ríkisútvarpið að hér verði breyttur stjórnarmeirihluti eftir næstu alþingiskosningar og þá er auðvitað hægt að bjarga því sem bjargað verður í þessum efnum.

Frú forseti. Ég var að fara yfir umsögn Ríkisútvarpsins og var að fjalla um tapreksturinn sem þar hefur verið um allt of langt skeið. Ég var áðan búinn að nefna að margt virtist benda til að það væri að hluta til skipulagt, þ.e. að reyna að svelta stofnunina til hlýðni þannig að hún væri meðfærilegri og þannig væri hægt að tryggja frekar ákveðnu máli farveg. Það hefur heyrst á máli ýmissa þingmanna að það verði að gera breytingar á stofnuninni því að hún lifi ekki mikið lengur svona. Það er hægt að taka undir það. Það er lífsnauðsynlegt fyrir stofnunina að breyting verði á þeirri þróun sem þar hefur verið.

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að vitna í þessa umsögn frá Ríkisútvarpinu og þar sem ég gerði nokkurn útúrdúr á þessari tilvitnun held ég að ég byrji aftur á sömu málsgrein og ég hóf lestur á áðan, með leyfi forseta:

„Þessum taprekstri verður ekki mætt einvörðungu með hagræðingu. Á undanförnum árum hefur Ríkisútvarpinu tekist að hagræða verulega í rekstri enda ítrekað verið farið ofan í rekstur einstakra deilda. Ekki verður séð að hægt sé að ganga mikið lengra á því sviði án þess að skerða þjónustuna. Þá er ýmis kostnaður þess eðlis að litlu verður um hnikað auk þess sem frumvarpið gerir ráð fyrir því að öllum starfsmönnum verðið boðið starf hjá hinu nýja félagi. Loks ríkir mikil óvissa með ýmsa kostnaðarliði, taprekstrinum verður því einnig að mæta með tekjuaukningu.“

Frú forseti. Þetta er auðvitað bara áframhaldandi lýsing á staðreyndum á því hvernig reksturinn er og að þetta verði ekki leyst öðruvísi en með auknum tekjum. Ég mun síðar í ræðu minni einmitt fjalla um þær leiðir sem rætt er um að fara í tekjuöflun fyrir Ríkisútvarpið hf.

Í umsögn Ríkisútvarpsins, sem ég er nú að vitna í, er rétt að enda á því að tala um það sem segir í umsögninni um eigið fé, en þar segir, með leyfi forseta:

„Það er nauðsynlegt að tryggja hinu nýja félagi eigið fé svo að það þoli sveiflur í rekstrinum og áföll sem alltaf geta komið upp. Hversu hátt eiginfjárhlutfallið á að vera er matsatriði en endurskoðendur stofnunarinnar leggja til 30% eða hærra, samanber meðfylgjandi bréf þeirra dagsett 11. janúar 2006.“

Frú forseti. Ég hef nokkuð áður rætt einmitt um þennan þátt og vakti athygli á því að starfsmenn á fundi sínum í hádeginu gerðu það einnig og það af eðlilegum ástæðum. Til þess að ljúka tilvitnunum held ég að ég haldi áfram og fari í það bréf sem vitnað var í í umsögn Ríkisútvarpsins, þ.e. bréf frá endurskoðanda Ríkisútvarpsins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að auðvitað standi til að reka Ríkisútvarpið með hagnaði í framtíðinni er saga síðustu ára mikill taprekstur og það þrátt fyrir að efnahagslíf hér á landi hafi verið í miklum blóma. Samkeppni er mikil á þeim markaði sem Ríkisútvarpið er á, bókfært eigið fé Ríkisútvarpsins er nú líklega orðið neikvætt.“

Frú forseti, það kom fram einmitt í umsögninni áður, sem er dagsett um mánuði frá þessu bréfi, að þá er bókfært eigið fé orðið neikvætt. En það er varfærni endurskoðendanna sem ræður því að þeir segja „líklega orðið neikvætt“ því að þá er væntanlega 11. janúar, sem þetta er ritað, ársreikningi fyrir árið 2005 líklega ekki lokið.

Áfram held ég, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið hefur notið fjárhagslegs trausts vegna þess að það er ríkisstofnun. Ólíklegt verður að teljast að Ríkisútvarpið nyti mikils fjárhagstrausts ef ríkisábyrgðar nyti ekki við.“

Að lokum:

„Það er niðurstaða okkar að ekki væri óeðlilegt að Ríkisútvarpið hefði um 30% eiginfjárhlutfall eða jafnvel hærra þegar því verður breytt í hlutafélag.“

Frú forseti. Hér liggur fyrir mat endurskoðanda stofnunarinnar. Það liggur fyrir strax 11. janúar 2006. Þrátt fyrir það er, eins og ég hef áður nefnt, búið að upplýsa menntamálanefnd um að í ráðuneytum mennta og fjármála eru menn í viðræðum og skoðunum um það hvernig eigi með þessi mál að fara og það eina sem við höfum fengið er að það verði tryggt að þegar þetta er allt saman frágengið og búið að skrá hlutafélagið og það að taka til starfa þá verði það tryggt að það verði „eðlilegt“, eins og það er orðað, „eðlilegt eiginfjárhlutfall“.

Frú forseti. Ég hef trú á því að það geti verið nokkuð vandmeðfarið þetta orð „eðlilegt“, vegna þess að þarna segja endurskoðendur stofnunarinnar að það þurfi að vera 30%. Á fundi í menntamálanefnd kom hins vegar fram að allt önnur skoðun er uppi í ráðuneytunum. Þar var talað um mun lægri tölu. Mér sýnist að mikil hætta sé í raun og veru á ferðum ef það verður niðurstaðan. Vegna þess að það er augljóst mál að við þær miklu breytingar sem stofnunin er að fara í og miðað við það hvernig staðan hefur verið í stofnuninni, látlaus taprekstur, búið að éta upp allt eigið fé, þá er það alveg ljóst mál að á þessum markaði þar sem tækniþróun er ör, mikill tækjakostur nauðsynlegur, hlýtur að þurfa að koma til töluvert fjármagn ef menn ætla að ná að sigla þessari skútu áfram á þann hátt, sem okkur heyrist að sé vilji mikils meiri hluta Alþingis, að sómi verði að rekstri stofnunarinnar.

Þetta er sem sagt allt á huldu en af einhverjum ástæðum varð það niðurstaða meiri hluta menntamálanefndar að nauðsynlegt væri að ljúka umfjöllun um málið áður en m.a. þessir hlutir lægju fyrir. Þetta er auðvitað sérkennilegt en það er margt sérkennilegt sem við höfum þurft að búa við í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta er bara eitt af því.

Frú forseti. Það er fleira sem komið er inn á í ályktun starfsmannafundarins frá því í hádeginu. Það er út af fyrir sig ekki lítill kafli sem þar er minnst á. Því þar segir, með leyfi forseta:

„Það er lágmarkskrafa að réttindi starfsmanna verði tryggð, sérstaklega fullur biðlaunaréttur, aðild allra starfsmanna að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og áframhaldandi aðild starfsmanna að núverandi stéttarfélögum innan Ríkisútvarpsins. Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa um árabil þolað láglaunastefnu og talið að réttindin, sem eru eign starfsmanna, mundu að einhverju leyti vega upp á móti lágum launum.“

Frú forseti. Þetta eru eðlilegar áhyggjur starfsmanna. Það er væntanlega þessi kafli sem verið er að vísa í þegar hér rétt áður, sem ég var búinn að lesa, er spurt um tilganginn, eins og segir hér, með því að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjörð, þ.e. að gera umsagnir um frumvörp til menntamálanefndar, koma í heimsókn til nefndarinnar og upplifa síðan, þegar fólk er búið að leggja mikið á sig, að ekkert hefur verið á það hlustað. Ekkert hefur verið á það hlustað. Ekkert mark tekið á því. Það er alvarlegt mál sem hlýtur að koma til skoðunar hér á þinginu, hvort það geti verið að Alþingi sjálft sé að láta fólk sinna slíkri vinnu án þess að nokkur tilgangur sé með því. Að það sé eingöngu verið að sýnast.

Það er einnig athyglisvert að bera saman það sem ég var að lesa nú úr ályktuninni og það sem segir í athugasemdum með frumvarpinu. En þar segir, með leyfi forseta:

„Tryggilega er búið um réttindi núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins, samanber nánar ákvæði til bráðabirgða II.“

Frú forseti. Það var augljóst mál að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, talsmaður meiri hluta nefndarinnar hér, trúði þessari setningu. Það var alveg greinilegt að þrátt fyrir að nefndinni hefðu borist mjög ítarleg gögn — og ég hef ákveðið að fara hér aðeins í gegnum eina umsögn af nokkrum umsögnum sem bárust til nefndarinnar varðandi réttindi starfsmanna — var trú meiri hluta nefndarinnar á þessari einu setningu slík að það var alveg sama hvað gestir nefndarinnar sendu nefndinni eða sögðu á fundum nefndarinnar, á það hefur ekkert verið hlustað. Þrátt fyrir að færð hafi verið sterk rök fyrir því að ekki sé verið að tryggja réttindi starfsmanna.

Nú getur það auðvitað verið skoðun meiri hluta Alþingis að það eigi ekki að tryggja réttindi starfsmannanna. En hvernig stendur á að hv. þingmenn hafa ekki dug í sér til að viðurkenna það? Af hverju þennan blekkingarleik? Af hverju er verið að halda einhverju fram sem stenst ekki? Það er athyglisverður kafli einmitt í þessu samhengi hér í umsögn samtakanna BSRB og BHM. Með leyfi forseta vil ég vitna aðeins í það sem stendur framarlega í umsögn þeirra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í landinu eru lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem ætlað er að gilda við aðstæður sem þessar.“ — Þ.e. þegar stofnunum ríkisins er breytt í hlutafélög eða þær lagðar niður. — „Það er auðvitað óþolandi að það sé gert aftur og aftur við þessi skilyrði að setja sérstök lög sem taka almennu lögin um ríkisstarfsmenn úr sambandi þegar á þau reynir.“

Síðan segir, sem er sérstaklega athyglisvert, frú forseti:

„Ef það er mat þingmanna að réttindi ríkisstarfsmanna séu þannig að þeim þurfi að breyta, á auðvitað að gera það með því að breyta almennu lögunum þannig að þessi ómögulega staða komi ekki upp aftur og aftur. Þá þurfa ríkisstarfsmenn heldur ekki að vera með væntingar um starfsöryggi sem ekki stenst þegar á reynir. Óréttlætið birtist líka í að það gerist oft en ekki alltaf. Svo virðist vera að þegar breytingarnar snerta litlar stofnanir með fáa starfsmenn þá séu almennu lögin látin gilda en þegar sambærilegar breytingar ná til stærri stofnana eru almennu lögin tekin úr sambandi. Þetta er afleit lagaframkvæmd sem ber merki um hentistefnu og óhreinskilni.“

Frú forseti. Ekki er annað að heyra en að þetta sé afskaplega þörf ábending. Ég skora því á þingmenn meiri hlutans að koma fram með sinn vilja. Það er vissulega skoðun út af fyrir sig að þessi lög eigi hreinlega ekki að gilda en þeir yrðu menn að meiri með því að setja fram skoðanir sínar á því hvernig þeir vilji hafa þetta og koma þá með breytingar við almennu lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það er hinn eðlilegi framgangsmáti. En ekki gera þetta með þessum hætti, þ.e. að taka lögin úr sambandi þegar henta þykir en hafa ekki jafnræðisregluna að leiðarljósi í þessum efnum. Ef það er, eins og segir hér í þessari ályktun, vilji meiri hluta þingmanna að hafa þessi lög öðruvísi þá eiga menn að ganga fram og breyta þeim.

Frú forseti. Ég sagði að í þessum umsögnum væru sterk rök færð fyrir því að réttindin héldu ekki þrátt fyrir það sem sagt væri í athugasemdum með frumvarpinu. Ég held áfram tilvitnunum og er nú kominn hér nokkuð inn í umsögnina þar sem gerðar eru athugasemdir varðandi breytingar á réttarstöðu starfsmanna. En hér segir, með leyfi forseta:

„Árin 1993 og 1996 voru sett hér skýr og einföld lög, þ.e. upplýsinga- og stjórnsýslulög, sem gilda áttu um stjórnsýsluna til að borgurum sé gert kleift að fylgjast með og kynnast athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem reknar eru í almenningsþágu. Í stað þess að stofnanirnar taki mið af þessum lögum þá er rekstrarformi þeirra breytt svo þær þurfi ekki lengur að lúta þessum reglum. Af hverju leita stjórnvöld ekki annarra leiða sem tryggi þann sveigjanleika sem stjórnendur telja sig þurfa að sækjast eftir? Með frumvarpinu er verið að færa Ríkisútvarpið hf. undan ákvæðum stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, reglum um auglýsingar á lausum störfum, o.s.frv.“

Hér er m.a. minnst á það að ekki þarf að auglýsa störf og við sjáum það einmitt í frumvarpinu að m.a. hið valdamikla starf útvarpsstjóra virðist ekki þurfa að auglýsa miðað við textann. Að vísu getur stjórn væntanlega ákveðið að gera slíkt. En hún þarf ekki að gera það til að uppfylla lagatextann. Það eru ekki gerðar kröfur til útvarpsstjóra um þekkingu á ákveðnum sviðum, menntun eða neitt þess háttar, heldur þarf útvarpsstjóri eingöngu að uppfylla sömu skilyrði og stjórnarmenn og út af fyrir sig allt gott um það að segja. En það hlýtur að hafa komið til athugunar að velta þessum möguleika upp og alveg klárlega hefði komið upp umræða um það, ef menntamálanefnd hefði átt einhverja umræðu um innihald frumvarpsins sín á milli. Þá hefði það alveg ábyggilega komið upp og hefði verið hægt að velta fyrir sér hvaða leið væri vænlegust í þeim efnum.

Frú forseti. Í þessari umsögn BSRB og BHM er víða komið við. Hér er m.a. vitnað til svokallaðra aðilaskiptalaga, sem eru nr. 72/2002. Þeir segja hér að samkvæmt þeim lögum eigi Ríkisútvarpið hf. að yfirtaka gildandi ráðningarsamninga með réttindum og skyldum sem þar greinir. Það eru færð hér sterk rök fyrir því að frumvarpið geri ekki ráð fyrir því að eftir þessum lögum sé farið. Eru það þá lög nr. 2 sem sveigt er hjá í þessu frumvarpi. Hvað er nú átt við með því að samkvæmt lögunum eigi að yfirtaka gildandi ráðningarsamninga? Jú. Hér segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Í ráðningarsamningi Ríkisútvarpsins við starfsmenn sína er sérstaklega tekið fram að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Það er allt svo ákveðinn hluti þar inni í ráðningarsamningnum að eftir þessu skuli farið. Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Jafnframt er tilgreint í ráðningarsamningi í hvaða deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins starfsmaður greiðir. Er það álit BSRB og BHM að þessi réttindi eigi að fylgja starfsmönnum til Ríkisútvarpsins hf. eins og skýrt er samkvæmt aðilaskiptalögunum“ — þ.e. 3. gr. þeirra laga. „Hins vegar virðist sem frumvarpshöfundar séu ekki að fylgja aðilaskiptalögunum að öllu leyti.“

Þannig að það virðist vera ljóst, og kemur fram hér síðar, að ekki er að öllu leyti verið að taka upp það sem segir í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Næsti kafli í þessari umsögn fjallar sérstaklega um eitt atriði, sem er biðlaunarétturinn. Það er nákvæmlega það ákvæði til bráðabirgða sem vitnað var til í greinargerð með frumvarpinu, þ.e. þar sem fullyrt var að tryggilega sé búið um réttindi núverandi starfsmanna, samanber ákvæði til bráðabirgða II. Hér segir, með leyfi forseta:

„Í bráðabirgðaákvæði II í frumvarpinu segir að um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum hjá Ríkisútvarpinu, gilda ákvæði laga nr. 70/1996. Þó skulu starfsmenn halda biðlaunarétti sínum verði starf þeirra lagt niður fyrir 31. desember 2008. Í athugasemdum frumvarpsins um ákvæði til bráðabirgða II er nánar skýrt hvað átt er við með þessu. Segir þar að meginreglan sé sú að réttur til biðlauna flyst ekki til hlutafélagsins. Hins vegar sé gerð sú undanþága frá meginreglunni að biðlaunarétturinn flyst til hlutafélagsins til 31. desember 2008. Þessi tilhögun er rökstudd með því að miklar skipulagsbreytingar séu fram undan hjá Ríkisútvarpinu hf. sem flestar verði komnar fram fyrir árslok 2008. Þeir sem eiga biðlaunarétt og missa starf sitt vegna niðurlagningar stöðu fyrir 31. desember 2008 munu ekki njóta þeirra réttinda samkvæmt frumvarpinu.“

Þannig að lokadagurinn er 31. desember 2008. Ef einhver störf eru lögð niður eftir það er þessi biðlaunaréttur horfinn. Svo segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Ef það er mat löggjafans að verið sé að bjóða sambærilegt starf hjá Ríkisútvarpinu hf. og hjá Ríkisútvarpinu, eiga öll réttindi að fylgja við ráðningu, þar með talin biðlaunaréttindi, samanber aðilaskiptalögin.“

Frú forseti. Ég verð að segja að þetta getur varla verið miklu skýrara. Ef störf eru fyllilega sambærileg hlýtur auðvitað allt að fylgja nema frá því sé gengið með samningum að eitthvað annað komi á móti einhverju. En svo virðist ekki vera í þessu. En áfram er haldið og þetta er á margan hátt býsna fróðleg lesning þegar allt er samantekið, með leyfi forseta:

„Með því að fella niður biðlaunarétt eftir 31. desember 2008 er að mati BSRB og BHM verið að skerða réttindi þeirra starfsmanna Ríkisútvarpinu sem njóta biðlaunaréttar.“

Þetta virðist vera nokkuð ljóst. Þannig er það auðvitað ef fólk hefur biðlaunarétt í dag, hefur haldið biðlaunarétti sínum til 31. desember 2008, en falli hann brott þá er augljóslega verið að skerða réttindin. Ég verð að segja alveg eins og er að það hefði verið miklu hreinlegra að segja það í greinargerðinni að það væri verið að skerða réttindi, t.d. biðlaunarétt, en þó ekki fyrr en 31. desember 2008. Það væri aðlögunin sem gefin væri. Þessi feluleikur er eiginlega alveg óskiljanlegur, að það sé verið að reyna að blekkja á einhvern hátt. Svo vel hefur það gengið að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, lögfræðingurinn sjálfur, hefur algerlega kokgleypt þetta og heldur þessu látlaust og stöðugt fram þrátt fyrir að þessi umsögn hafi borist nefndinni, þrátt fyrir það að fulltrúar þessara samtaka hafi setið fund hjá nefndinni og farið yfir málið mjög greinilega og skýrt. Ekkert dugar. Það sem segir í greinargerðinni, það sem sagt hefur verið á einhverjum meirihlutafundum, eða þar sem ákvörðun hefur verið tekið í málinu, það skal standa. Alveg sama hvað fram kemur.

Er að furða að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi á fundi í hádeginu í dag orðið hvumsa yfir því að fólk hafi verið kallað í alls konar vinnu, látið skila pappírum og það kallað á fundi en svo sé ekkert eftir því farið. Það er ekki skrýtið þótt fólk sé hissa á þessu.

Áfram er haldið, frú forseti, og kemur nú mjög athyglisverður kafli. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem starfsmenn njóta ekki lengur ýmissa réttinda sem fylgdu starfi þeirra sem ríkisstarfsmenn er ekki um að ræða sambærilegt starf hjá RÚV hf. Eiga þeir starfsmenn sem hafna starfi hjá félaginu því rétt á biðlaunum hafi þeir verið ráðnir fyrir 1. júlí 1996, samanber 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur. Þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var hlutafélagavædd fengu þeir starfsmenn sem höfnuðu starfi hjá félaginu biðlaun. BSRB og BHM leggja áherslu á að sama þurfi að tryggja fyrir starfsmenn RÚV sem ákveða að taka ekki starfi hjá RÚV hf.“

Þetta er auðvitað býsna mikilvægt. Þegar við höfum kynnt okkur hvað gerst hefur í þessu hefur komið í ljós að unnið var í samkomulagi við aðila og lögð í það gífurleg vinna. Það er voðalega sérkennilegt að ekki skuli hægt, þegar menn ganga þessa leið, að tryggja bætur fyrir það sem tekið er af fólki. En meðan menn viðurkenna ekki að réttindi séu skert er auðvitað ekki von á að neitt slíkt sé í boði. Það er kannski alvarlegast í þessu að skerðingin skuli ekki viðurkennd.

Upptalningunni í þessari umsögn um skerðingu á réttindum er ekki lokið. Nú er komið að því að líta á hvernig þetta snýr að fólki í hinni svokölluðu B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Hér segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu segir að starfsmaður RÚV sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfrest í hálft starf eða meira geti ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann láti af því starfi.“

Það er sjónarmið út af fyrir sig, að þetta eigi að vera svona, en það sem vekur athygli er að hér er jafnræðisreglan ekki viðhöfð. Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„BSRB og BHM benda á það ójafnræði sem ákvæðið til bráðabirgða hefur í för með sér þar sem jafnræðisreglu er ekki gætt. Fjölmörg dæmi eru um fyrrverandi starfsmenn ríkisins sem eru í dag í starfi samhliða töku lífeyris. T.d. á það við um starfsmenn Póstsins og Símans sem er mjög stór hópur starfsmanna.“

Hér er því gert upp á milli starfsmanna eftir stofnunum. En það eru engin rök færð fyrir þeirri tilhögun. Það er erfitt að trúa því að þeir sem að þessu frumvarpi standa viti ekki hvað þeir eru að gera. Það hvarflar auðvitað stundum að manni að þannig sé það. Svo björt eru augun í hv. þingmönnum þegar þeir koma í þennan ræðustól og fullyrða allt annað en hér er sagt. Það virðist a.m.k. svo að hv. þingmenn trúi því að öll réttindi séu tryggð og engin réttindi skert. Það er slæmt og væri auðvitað eðlilegra að sömu þingmenn segðu: Okkar mat er að það eigi að skerða réttindin á þennan hátt. Þeir ættu að færa rök fyrir því af hverju þeir vilja það í stað þess að fara í feluleik og halda því fram að réttindin séu ekki skert þegar við blasir að svo er.

Þetta átti við um starfsmenn sem greiða í svokallaða B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hvernig horfir málið við hinum, sem borga í A-deildina? Áfram segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Hver er réttarstaða starfsmanna sem greiða til A-deildar LSR í dag og nýrra starfsmanna samkvæmt frumvarpi um RÚV hf.?

Mun verða tryggt að starfsmenn geti áfram verið í LSR? Möguleikar starfsmanns sem greiðir í A-deild LSR til áframhaldandi aðildar að LSR er háð nokkrum skilyrðum. Sé ekki gengið tryggilega frá því í lagafrumvarpinu yrði aðildin háð samþykki RÚV hf. og að hlutafélagið tæki á sig þær skuldbindingar sem henni fylgja.“

Frú forseti. Staðan er sú að þar sem ekkert er tryggt í frumvarpinu er það algjörlega undir fyrirtækinu komið, hlutafélaginu Ríkisútvarpinu hf., hvort það samþykki að starfsmenn fái að halda áfram að greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá verður hlutafélagið að taka á sig þær skuldbindingar sem því fylgja. Það liggur ekkert fyrir um hvort svo verður. Það verður eiginlega að segjast eins og er, að það er eiginlega lágmarkskrafa til hv. þingmanna sem tjá sig um þetta mál af hálfu meiri hlutans að þeir svari því að tryggt verði að þannig verði frá málum gengið. Í raun væri það lágmark að hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. menntamálaráðherra, helst báðir, fullyrti að þannig yrði frá málum gengið með samningum, að þessi réttindi verði ekki tekin af fólki. Það væri a.m.k. í samræmi við það sem sagt er í greinargerðinni, að ekkert muni eiga sér stað af því sem ég hef farið yfir í umsögn BSRB og BHM. Það blasir við að þessi samtök hafa fylgst með málinu og vita gjörla hvað er á ferðinni.

Það er afar sérkennilegt að ekki hafi verið betur yfir þessi mál farið með þessum samtökum til að athuga hvaða enda þarf að hnýta til að tryggja ákveðin réttindi, og síðan væri bara klárt að einhver önnur réttindi ætti að skerða. Þá væri hugsanlega hægt að semja um einhverjar bætur fyrir það. En það virðist ekki opnað fyrir slíka samninga og trúarsetningunni er haldið á lofti, að ekki sé verið að skerða nokkurn skapaðan hlut og allt sé tryggt. Sumir hv. þingmenn hafa jafnvel haldið því fram að allt sé betur tryggt en nokkru sinni fyrr. Svo mikil virðist trú einstakra þingmanna geta verið að þeir trúi þessu fullkomlega.

Það kemur fleira fram í umsögnum um málið sem ég ætla að láta liggja á milli hluta, a.m.k. að þessu sinni. En ég tel að í umsögnum og því sem ég hef fjallað um í framhaldi af því hafi verið sýnt afar glögglega fram á að réttindi starfsmanna haldi ekki fyllilega. Því miður hafa engin rök verið færð fyrir því af hálfu meiri hlutans. En því er haldið fram í greinargerð með frumvarpinu. Þetta er eitt af því sem órætt var í menntamálanefnd þegar tekin var vinkilbeygja og ákveðið að nú væri tíminn á þrotum sem hægt væri að gefa sér til umfjöllunar um málið.

Frú forseti. Ég hef í ræðu minni vitnað í ályktun frá starfsmannafundi Ríkisútvarpsins frá því í hádeginu í dag. Ég hef nýtt mér tilvitnanir í hana til að taka fyrir þau mál sem þar er á minnst. Ég er eiginlega kominn að lokum þessarar ályktunar. En þar segir, með leyfi forseta:

„Eitt það versta sem fyrir getur komið er áframhaldandi óvissa næstu árin, af því að ný lög hafi ekki verið nóg vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem duga.“

Frú forseti. Þetta er meginatriðið í öllu þessu máli. Ég hef fjallað um málið en vil verja í það örfáum orðum nú. Það hefur auðvitað verið vakin athygli á því að töluvert magn af hugmyndum um vinnubrögð liggur fyrir, hugmyndum um hvernig við getum mótað framtíðarsýn fyrir Ríkisútvarpið. Það hefur m.a. komið fram að allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt fram gögn um það á Alþingi.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp. Þar er mikið af gögnum og hugmyndum. Við höfum hins vegar ekki lokað okkur inni í einu eða neinu í þeim efnum. Við höfum litið svo á að svo mikilvæg væri stofnunin að það væri nauðsynlegt að reyna að mynda sem mesta samstöðu um hvernig við tækjum á þessu mikla verkefni. Það hefur mjög lengi legið fyrir að við værum reiðubúin í slíka vinnu með öðrum stjórnmálaflokkum til að freista þess að ná þannig utan um stofnunina. Því miður, frú forseti, hefur því algjörlega verið hafnað af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans og engin skýring fengist á því hvernig á því stendur. Hvað veldur hinni undarlegu vegferð stjórnarmeirihlutans í þessu máli? Þrátt fyrir að hafa rekist á stóran og mikinn vegg í fjölmiðlafrumvarpinu, hafa lært af því máli, þá skortir að því er virðist yfirfærsluhæfileikann, til að færa það yfir á önnur mál, þótt málið tengist meira að segja fjölmiðlum eins og þetta mál. En ég hef áður um það fjallað og ætla ekki að orðlengja það.

Það eru fleiri þættir sem mætti koma að og ég ætla a.m.k. að fara yfir einn enn. Ég nefndi fyrr í ræðu minni að tekjustofnar fyrirtækisins væru býsna mikilvægir. Ég verð að segja eins og er, að því miður sýnist mér stjórnarmeirihlutinn hafa valið afar óheppilega leið, svo ekki sé meira sagt, með þeim tekjustofnum sem fyrirtækinu eru ætlaðir. Meiri hlutinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að nefskattur væri allra meina bót í þessum efnum. Það er eiginlega með ólíkindum hvernig sú niðurstaða fékkst. Í greinargerð er reyndar vitnað í starfshóp sem skoðaði þetta og benti á nokkrar leiðir. Hún nefndi reyndar þessa leið en ýmsa fleiri möguleika. Það er ljóst að auðvitað koma mun fleiri möguleikar til greina. Ég verð að segja eins og er, að mér sýnast flestar leiðirnar vænlegri en sú sem valin hefur verið.

Frú forseti. Um þetta var heldur ekki hægt að gefa sér tíma í menntamálanefnd til að ræða, um hvaða leiðir væru vænlegastar til tekjuöflunar. Það er athyglisvert í þessu samhengi að skoða umsögn ríkisskattstjóraembættisins um nefskattinn. Maður hefði ætlað að þegar unnið væri að slíku frumvarpi þá væri þekkingar leitað þar sem hana er helst að finna. Þegar menn velta fyrir sér sköttum er ekki óeðlilegt að leita til ríkisskattstjóraembættisins og athuga kostina. Ég verð að segja að ég hef ekki í langa tíð séð jafnhressilega jarðarför á einni hugmynd. Ég tala nú ekki um þegar það er í umsögn ríkisskattstjóraembættisins þegar kemur að sérsviði stofnunarinnar. Það má segja að í þessari umsögn sé í raun og veru gengið frá þessari hugmynd. Það er eiginlega með ólíkindum að þrátt fyrir að þetta hafi legið í menntamálanefnd skuli ekkert hafa verið á það hlustað og ekki hreyfður litli fingur til að leita annarra leiða. En það er væntanlega vegna þess sem kemur fram í ályktun sem ég hef nokkrum sinnum vitnað til, frá því í hádeginu, að upplifun fólks sem sendir inn umsagnir, a.m.k. til menntamálanefndar í þessu máli, er sú að á það sé ekkert hlustað og ekkert eftir því farið.

Frú forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt vegna þess að þessi umsögn er á margan hátt býsna merkileg og eins og ég sagði kemur frá ríkisskattstjóraembættinu þar sem við skulum nú ætla að sé fyrir hendi allveruleg þekking á sköttum.

Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Helsti ókostur nefskatts er að hann tekur ekki tillit til greiðslugetu og er íþyngjandi fyrir tekjulága, þ.e. að þeir greiða hærra hlutfall tekna sinna í skattinn en þeir sem hærri hafa tekjurnar. Af þessum ástæðum er sjaldgæft að nefskattar séu lagðir á, …“

Frú forseti. Í raun og veru hefði þessi litli hluti eða þessar þrjár setningar átt að duga meiri hlutanum til þess a.m.k. að velta málinu fyrir sér. Nei, nei, það var greinilegt að einhvers staðar annars staðar var búið að taka ákvarðanir vegna þess að þá reynslu hef ég af þeim hv. þingmönnum sem sitja í menntamálanefnd að þeir hafa alveg örugglega allir áttað sig á því hvað hér var á ferðinni en hafa því miður ekki ráðið för.

Frú forseti. Hér er líka til upprifjunar og fróðleiks í þessari ágætu umsögn ríkisskattstjóraembættisins farið yfir ýmis mál sem eru fróðleg og lýsandi fyrir svona undarlegar hugmyndir eins og nefskatt.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Fyrr á öldum voru nefskattar algengir en eru að mestu horfnir í dag. Tvö þekkt dæma úr skattasögunni eru annars vegar skattur sem Ríkharður II. Englandskonungur lagði á 1380 til að fjármagna stríðið við Frakkland. Skattur þessi leiddi til bændauppreisnarinnar 1381. Hins vegar er tilraun á síðari tímum til að leggja á verulegan nefskatt þegar stjórn Margrétar Thatcher í Englandi lét lögleiða nefskatt í stað nokkurs konar fasteignagjalda til að fjármagna starfsemi sveitarfélaga.“

Frú forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að gera örstutt hlé hér á upplestrinum úr þessari merku umsögn vegna þess að allt í einu þegar ég les þetta dettur mér í hug, svo sérkennilegt sem það nú er, að ýmsir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa haft alveg sérstakt dálæti á Margréti Thatcher. Það skyldi þó ekki vera að það væri skýringin á nefskattinum að Margrét Thatcher sjálf hafi notað þessa aðferð og þá hafa sumir trúbræður hennar talið að það væri sjálfgert að nota nefskatt. Fyrst að frú Margrét Thatcher gerði það hljóti að vera hægt að gera það hér. (Gripið fram í.) Að vísu, hv. þingmaður, er þetta talinn hluti af skýringunni á því að hún missti völdin en svo mikil getur hrifningin, hv. þingmaður, verið á einstökum stjórnmálaleiðtogum að bara það að eitthvað hafi verið gert séu næg rök til þess að þá sé óhætt að gera það aftur. Telja þá væntanlega ýmsir hv. þingmenn úr þessum hópi að nú séu aðstæður á Íslandi kannski eitthvað örlítið öðruvísi en voru í Bretlandi á þessum tíma og geta hugsanlega huggað sig við að þessi nefskattur þeirra er ekki alveg jafn hár og nefskattur Thatcher og þeir hugsa þá kannski að afleiðingarnar verði ekki eins miklar. En lykilatriðið er þetta: Hann er alveg jafnóréttlátur og hjá Margréti Thatcher en þetta er stefna sumra hv. þingmanna í Sjálfstæðisflokknum. Það er ekkert verið að velta fyrir sér réttlæti í skattheimtu á þeim bæ. Við höfum ekki orðið vör við það í þessum sölum. Nei, það er vaðið fram með hverja svokallaða skattalækkun af annarri. og hvaða skattalækkanir eru þetta? Jú, fyrir sérvalinn hóp sem þessir ágætu hv. þingmenn hafa alveg sérstakt dálæti á. Þá er þeim alveg sama þótt skattar hækki hjá öllum öðrum. Þeir mæta aftur og aftur og tilkynna að skattar hafi verið lækkaðir af því að þeir voru lækkaðir hjá þessum tilgreinda hópi.

Þannig er það í raun og veru með þennan nefskatt líka. Þegar hann er farinn þá er í raun og veru hægt að horfa á það þannig að verið sé að lækka skatta hjá þeim tekjuhæstu vegna þess að ef þetta væri gert eftir ýmsum öðrum leiðum sem tækju mið af tekjum t.d. þá mundu hinir tekjuhærri borga hærra hlutfall en hinir tekjulægri og jafnvel mundu þeir tekjulægstu þá ekki borga neitt.

En þessi skattur, nefskattur, er í anda Thatcher og er í anda þar af leiðandi ríkisstjórnarinnar og við, hv. þingmenn, eigum kannski ekkert að vera mjög hissa á því að þessi ríkisstjórn fari þessa leið. Þetta er í anda ríkisstjórnarinnar. Réttlæti eða jöfnuður í gegnum skattkerfið er eitthvað sem þeir hafa algjörlega litið fram hjá. Að því leytinu til er þetta líklega eðlileg niðurstaða.

Frú forseti. Höldum aðeins áfram með sögu frú Thatcher í Englandi:

„Skattinum var komið á 1989–1990. Skattur þessi mætti mikilli andstöðu, milljónir manna neituðu að borga hann og náðu mótmælin hámarki sínu með óeirðum á Trafalgar Square í lok mars 1990. Andstaða innan Íhaldsflokksins leiddi m.a. til þess að Margaret Thatcher sagði af sér um haustið. Arftakar hennar lækkuðu skattinn og afnámu hann frá og með 1994.“

Frú forseti. Þetta var sögulegt yfirlit frá ríkisskattstjóraembættinu um nefskatt og hefði nú einhver haldið að þetta gæti dugað en því er ekki svo fyrir að fara. Það er hægt að vitna miklum mun meira og ég ætla að vitna örlítið meira reyndar í þessa ágætu umsögn og held nú áfram, með leyfi forseta:

„Eins og að framan segir er einn helsti galli við nefskatt tengslaleysi hans við gjaldþol manna. Í fyrirliggjandi tilviki er brugðist við því með því að undanþiggja hina tekjulægstu gjaldinu. Ennfremur eru þeir sem komnir eru yfir tiltekinn aldur undanþegnir. Frítekjumörkum fyrir fast krónugjald fylgja ákveðin vandamál vegna þeirra sem eru sitt hvoru megin næst mörkunum, sem vakið getur spurningu um jafnræði. Sama á við þegar litið er til mismunandi skattlagningar hjóna eftir því hvort annað eða bæði eru ofan markanna. Þá eru skattfrelsismörk samkvæmt frumvarpinu með þeim annmarka að eingöngu er miðað við almennar tekjur, þ.e. launatekjur o.þ.h. en ekki fjármagnstekjur. Allstór hópur manna hefur miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur og yrði samkvæmt þessu undanþeginn gjaldinu.“

Frú forseti. Er nema von að maður velti enn fyrir sér réttlætinu? Auðvitað á maður ekki að láta þetta koma sér á óvart. Þetta er í anda skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Þarna er bent á það svart á hvítu að stóreignamenn sem hafa miklar fjármagnstekjur en litlar launatekjur, nei, þeir þurfa ekki að borga nefskattinn. Þeir eru í þessum hópi sem ríkisstjórnin er alltaf að fjalla um sem lækkaðir hafa verið skattarnir á og það á auðvitað að halda áfram á sömu braut.

Áfram, frú forseti, með umsögn ríkisskattstjóraembættisins. Er nú fram haldið, með leyfi forseta:

„Fyrir aldursmörkunum eru hins vegar engin rök færð fram. Tekjulágir aldraðir yrðu þá þegar undanþegnir vegna lágra tekna en aldursmörkin leiða til þess að tekjuháir aldraðir yrðu undanþegnir á meðan mun tekjulægri yngri skattaðilar bæru skattinn.“

Þegar við því meira að segja skoðum það sem er verið að gera tilraun til að sýna eitthvert örlítið réttæti þá eru líka slíkir gallar á því að þeir blasa við og æpa framan í okkur. Það er líka hægt að benda á og þarna bendir ríkisskattstjóraembættið einmitt á muninn á hinum yngri og eldri burt séð frá tekjum. En það sem mun líklega verða stærsti vandinn í þessu er að þetta á að ná alveg niður í 16 ára börn. Við höfum lög um það að einstaklingar eru börn fram að 18 ára aldri, eru ekki sjálfráða fyrr. Þrátt fyrir það eiga þau að borga nefskattinn. Þeim fjölskyldum sem eru með unglinga á þeim aldri er íþyngt verulega. Skattleysismörkin eru í þessu tilfelli með þeim hætti að manni sýnist að velflestir unglingar á þessum aldri sem hafa atvinnu muni þurfa að borga.

Áfram er haldið, með leyfi forseta, í umsögn ríkisskattstjóraembættisins:

„Frá skattalegu sjónarmiði hefur nefskattur á einstaklinga fáa kosti en marga galla. Helstu rökin með honum eru framkvæmdalegs eðlis, þ.e.a.s. hann er einfaldur í framkvæmd og auðveldur í eftirliti.“

Þetta hafa verið, frú forseti, helstu rök stjórnarmeirihlutans. Hér sé um að ræða einfalt mál í framkvæmd og ódýrt. Það hins vegar kemur í ljós hjá ríkisskattstjóraembættinu að þetta er ekki alveg svona einfalt. Það eru á þessu ýmsar flækjur og augljóst mál að það mun kalla á einhvern kostnað meira að segja að innheimta hann af þeirri einföldu ástæðu að ýmsir þurfa að borga hann sem eru ekki annars í innheimtu hjá embættinu.

Þeir segja hér, svo ég hafi bara þessa tilvitnun stutta, með leyfi forseta:

„Mun það hafa í för með sér að einhverja aukningu innheimtuumsvifa og innheimtukostnaðar.“

Þetta verður því ekki alveg ókeypis eins og fram hefur verið haldið en þetta eru þó þeir einu kostir sem til staðar eru.

Niðurlag umsagnar ríkisskattstjóra er býsna slungið en um leið mjög skýrt vegna þess að hér segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til alls framangreinds verður ekki hjá því komist að draga í efa að sú tillaga frumvarpsins að afla Ríkisútvarpinu tekna með álagningu nefskatts sé heppileg.“

Ekki verður hjá því komist að draga í efa að hún sé heppileg. Þetta er auðvitað kurteisislegt orðalag embættismanna og ber að taka það sem slíkt en textinn sem ég hef verið að vitna til segir okkur ósköp einfaldlega að þetta er afar óheppileg leið og er þá vægt til orða tekið. Eins og ég sagði áðan og endurtek hér held ég að í einhverjum flýti eða í þeim vanda að ná saman innan einhvers hóps, sem við í stjórnarandstöðunni vitum ekkert hver var, hafi hugsanlega þessi niðurstaða fengist af þeirri einföldu ástæðu að menn gátu ekki náð saman um einhverjar aðrar leiðir. Þá hafi þessi leið verið þannig að allir aðilar hafi verið mátulega mikið á móti henni þannig að menn gætu sæst á hana þannig að enginn hafi orðið sigurvegari í þeirri deilu. Miðað við niðurstöðuna er ekki annað að sjá en í raun og veru hafi allir tapað því að leiðin er ein sú slakasta sem hægt var að fara.

Þetta er líka sérkennilegt í ljósi þess að gerð hefur verið viðhorfskönnun meðal þjóðarinnar um þessi mál vegna þess að við vitum að lengi hefur verið deilt um hin svokölluðu afnotagjöld sem hafa verið lýði og eru við lýði mjög víða um heim. Það er nauðsynlegt þegar maður segir að þetta hafi verið ein óheppilegasta leiðin sem valin var að fara aðeins yfir hvaða leiðir voru hugsanlega í þessu. Það hefðu verið eðlileg vinnubrögð í menntamálanefndinni að þar hefði verið farið yfir þessa möguleika og vegnir og metnir kostir og gallar. En því miður var ekki gefinn tími til þess þannig að ég verð að fara stuttlega yfir þá möguleika sem blasa hvað best við. Ég útiloka þó að ekki að þeir séu miklum mun fleiri og þeir eru auðvitað miklum mun fleiri en það er nauðsynlegt að þeir komi hér fram.

Ég nefndi að gerð hefði verið viðhorfskönnun af IMG Gallup fyrir Ríkisútvarpið árið 2002 og þar kom í ljós að 41% aðspurðra vildu að Ríkisútvarpið yrði fjármagnað með beinum framlögum úr ríkissjóði. Væntanlega þá á fjárlögum með þjónustusamningi til einhverra ára eins og við höfum nokkur dæmi um. Það var ekkert verið að fara neinar flóknar leiðir í því heldur bara að ákveðið framlag rynni til stofnunarinnar. Þá væri eðlilegt að í þeim þjónustusamningi væri skilgreint nákvæmlega hvaða þjónustu væri verið að kaupa af stofnuninni og hún ætti að sinna. Þetta er auðvitað leið sem á margan hátt er örugglega ein sú einfaldasta. En auðvitað hafa menn á henni skiptar skoðanir eins og hérna sést. En það var þó stærsti hópurinn, 41%, sem taldi sig vilja fara þessa leið. 33% voru með afnotagjöldum einstaklinga 18 ára og eldri. 33%. Og 26% með nefskatti. Þegar þessar þrjár leiðir eru bornar saman kemur í ljós að nefskatturinn er óvinsælastur af þessu. Trúi ég þó að allir hafi gert ráð fyrir að það væri miðað við 18 ára aldur þegar hann yrði innheimtur og síðan auðvitað ýmsir möguleikar, að minnsta kosti, eins og í afnotagjöldunum að afsláttur yrði hjá öryrkjum og eldri borgurum.

Aðrar leiðir eru til staðar. Ef ég fer stuttlega yfir helstu möguleikana í þessu getum við sagt að afnotagjöldin eru kerfi sem hefur verið lengi við lýði en hefur verið mjög umdeild leið á margan hátt. Kostirnar eru auðvitað þeir að þetta er öruggur tekjustofn og hann veitir Ríkisútvarpinu ákveðið sjálfstæði. Það er engin spurning um það. Samt sem áður er sjálfstæðið ekki meira en að Ríkisútvarpið hefur alltaf þurft að sækja um hækkun til að láta afnotagjöldin halda í við verðlag o.s.frv. Það hefur gengið misjafnlega. Því það hefur ekkert verið neitt sjálfvirkt í því. Auðvitað væri hægt að hugsa sér einhverja viðmiðun þannig að sjálfstæðið væri mun meira hjá stofnuninni ef sú leið væri farin. En gallarnir eru þeir m.a. að innheimtukostnaður er töluverður, hefur verið eitthvað kringum tæpar 80 millj. á ári. Innheimtuaðferðir hafa verið umdeildar. Það hefur verið leitað að tækjum og svona. Þetta hefur þótt frekar hvimleitt. Fyrirtæki hafa sloppið nokkuð vel frá þessu gjaldi þannig að það hefur verið umdeilt líka. Síðan það sem ég nefndi áðan að þetta hefur ekki fylgt verðlagi. Það er galli fyrir stofnunina þannig að þetta hefur rýrnað verulega á ákveðnum tímum. Þessu til viðbótar má reyndar vekja athygli á að þó afnotagjöldin hefðu fylgt verðlagi, sem þau hafa sem sagt ekki gert, virðist margt benda til að kostnaður í svona stofnun eins og Ríkisútvarpinu hafi vaxið jafnvel meira en verðlagsþróun af ýmsum ástæðum. Það er þannig auðvitað hluti af göllunum þegar þörfunum er ekki mætt.

Ég sagði áðan að þessi aðferð væri notuð mjög víða um lönd og hefur á margan hátt reynst býsna vel. En það sem sker okkur úr við flestar og líklega allar aðrar þjóðir er að afnotagjöldin hjá okkur hafa verið miklum mun hærri en annars staðar. Bretland er þekktast fyrir afnotagjaldið. Þar er þetta að því er ég best veit ekki mjög umdeildur tekjustofn og jafnvel alls ekki umdeildur. En þar er gjaldið um helmingi lægra en hjá okkur þannig að ekki verður eins vart við það. Annars staðar á Norðurlöndunum er þetta líka mun lægra en hér. Þetta sem sagt hefur verið notað og þetta er eitthvað sem hefði verið eðlilegt að menntamálanefnd hefði skoðað hvort ætti að halda áfram eða ekki.

Um nefskattinn hef ég fjallað og hann hefur þennan kost að vera skilvirkur og til þess að gera einfaldur og ódýr í innheimtu. En gallarnir eru verulegir eins og bent hefur verið á og ekki síst á að ekki er gerður greinarmunur á greiðslugetu þeirra sem borga þurfa. Þetta getur lagst afskaplega misjafnlega á fjölskyldur, t.d. þar sem unglingar eru á heimili.

Ein leið hefur verið nefnd líka sem er einhvers konar fasteignaskattur þar sem lagt er gjald á fasteign. Þar eru kostirnir þeir að það gjald gæti verið mun lægra en bæði afnotagjaldið og nefskatturinn því það eru fleiri sem mundu greiða og þetta mundi leggjast jafnar á fólk og fyrirtæki, lögaðila. Gallarnir eru líklega helstir þeir að fasteignaskatturinn er ekki vinsæll skattur. Það er ekki heldur heppilegt að ríki og sveitarfélög séu að leggja á sambærilegan skatt. Það hefur ekki verið. En kosturinn er sem sagt sá að grunnurinn er alveg klár. Upphæðin mundi dreifast betur á einstaklinga og fyrirtæki. Það yrði minna sem hver og einn mundi greiða þannig að það virðist benda til að vera mun jafnari leið en nefskatturinn og hefur þó alla kosti nefskattsins virðist vera. Síðan væri hægt að fara tekjuskattsleiðina svokölluðu, þ.e. taka ákveðið hlutfall af tekjuskatti einstaklinga og lögaðila sem rynni þá til Ríkisútvarpsins. Það væri til þess að gera einfalt að gera þetta. Bara ákveðið hlutfall sem mundi renna til Ríkisútvarpsins og það væri hægt að hafa það þess vegna fast og síðan mundi það hækka í takt við að tekjuskattsstofninn mundi vaxa með auknum hagvexti t.d. Þarna væri ákveðin tenging og töluvert frjálsræði til handa stofnuninni. Hún væri ekki eins háð ákvörðunum hér á þingi þó það væri þannig að alltaf væri hægt að breyta þessari prósentu. Hún væri í lögum og það væri hægt að taka það hvenær sem er. Að því leytinu til væri þetta svipað og er með afnotagjaldið. Það er hægt að hoppa með það fram og til baka.

Ég nefndi líka, og það var það sem var niðustaðan í Gallup-könnuninni, fjármögnun á fjárlögum. Það er ljóst að það er líklega einfaldasta leiðin, þ.e. að gerður yrði þjónustusamningur við Ríkisútvarpið, eins og gert er við ýmsar aðrar stofnanir, til einhverra ára í senn og fjárhæðin þar með tilgreind. Stærsti gallinn við þetta er sá að þetta þyrfti ætíð að fara í gegnum bæði ríkisstjórnarmeirihluta og Alþingi og það væri hægt að krukka í þetta.

Þetta eru sem sagt nokkrir þeir möguleikar sem fyrir liggja en verður að segjast eins og er að því miður var ekki gefinn tími til að fjalla um í menntamálanefndinni. Það er alveg klárlega þannig að með því að fara ítarlega yfir þessar leiðir þá er þetta dæmi um það sem varla er hægt að trúa, að menn skiptist í stjórnmálaflokka eftir því hvaða leið er farin. Hér hefði átt að vera verið hægt að taka þessi mál fyrir á skipulegan hátt, komast að því hvar réttlætinu væri best fyrir komið, annars vegar gagnvart stofnuninni og hins vegar gagnvart greiðendum og velja þá leið sem vænlegust þætti eftir að búið væri að fara yfir slíkt.

Frú forseti. Það er eiginlega nauðsynlegt og kemur alltaf upp í hugann með reglulegu millibili hvernig á því stendur að ekki var vilji til að leita eftir að ná samstöðu um mál þessarar stofnunar. Ég hef sagt það nokkrum sinnum áður í ræðu minni að ég átta mig ekki á því enn þá hvernig á því stendur. En vonast eftir að við fáum skýringar á því í þessari umræðu.

Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir nefndarálit okkar í minni hluta menntamálanefndar og gerði það með þeim hætti óþarfi er að fara yfir það nokkuð frekar. Þar er komið inn á öll þau mál sem skipta hvað mestu máli og vakin athygli á því sama og kom m.a. fram á starfsmannafundinum í hádeginu hjá Ríkisútvarpinu að það er því miður stórhætta á að því ástandi sem ríkt hefur hjá stofnuninni linni ekki með samþykkt þessa frumvarps. Það verði áfram þessi mikla óvissa um framtíð stofnunarinnar. Það blasir við og kemur fram í áliti okkar í minni hlutanum að ljóst sé að það þurfi innan skamms að taka lagarammann upp til endurskoðunar til að tryggja að samstaða og friður sé um öflugt og sjálfstætt almannaúvarp. Þetta er stærsta málið í þessu. Þetta er verkefni sem ríkisstjórn á hverjum tíma hefur þegar verið er að fjalla um stofnanir eins og Ríkisútvarpið. Það er sorglegt að ríkisstjórn gefist upp við verkefni sín eins og kemur fram augljóslega í þessu máli. Ég held að því miður sé hluti af því ákafi Sjálfstæðisflokksins til að nýta nú tækifærið meðan Framsóknarflokkurinn er í sínum vanda að ganga frá málinu. Klára málið, taka ekki áhættuna á því að Framsóknarflokkurinn gæti hugsanlega skriðið upp á fæturna aftur og reist fyrri merki. Nú skal sæta lagi. Því miður virðist staða Framsóknarflokksins vera orðin sú að ekki er einu sinni tími til að velta fyrir sér taktískum möguleikum í að þrátt fyrir að vera í þessu ömurlega stjórnarsamstarfi, að koma þá að minnsta kosti einhvers staðar við vörnum.

Ég held að þetta mál sé táknrænt fyrir þetta stjórnarsamstarf. Framsóknarflokkurinn talar mjög digurbarkalega um hvað ekki megi gera við Ríkisútvarpið, hvert sé verkefnið við Ríkisútvarpið, gefst síðan upp smám saman þangað til uppgjöfin er orðin algjör. Algjör eins og við sjáum í þessu frumvarpi. Svo algjör er hún að það er bent á eina litla setningu í 1. gr. sem þeim hefur verið afhent sem hálmstrá til að halda í, til að gera tilraun til að réttlæta fyrir sjálfum sér að styðja frumvarpið. Þetta er sorglegt og ekkert annað hægt um það að segja að svo aumur geti einn stjórnmálaflokkur orðið að láta fara svona með sig. Það birtist svo í ýmsu hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er farinn að líta á samstarfsflokkinn.

Ég hef minnst á mál sem er alkunna og er mjög áberandi í umræðunni nú um stundir, þ.e. hin nýja stofnunarhugmynd hæstv. iðnaðarráðherra þar sem hver háttvirtur þingmaðurinn af öðrum úr Sjálfstæðisflokknum gengur fram og segir að við þetta verði ekki unað. Þetta muni aldrei ná fram að ganga. Þrátt fyrir að málið hafi farið í gegnum ríkisstjórnina. Þar hefur ekki frést af nokkurri mótstöðu. Þar var málið bara gleypt, væntanlega sem hluti af einhverjum pakka sem stjórnarflokkarnir hafa þurft að semja um. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins virðist búinn að samþykkja frumvarpið. Samt sem áður segja fjölmiðlar frá því að hver einasti nefndarmaður í nefndinni sem átti að fjalla um málið úr Sjálfstæðisflokknum sé á móti málinu.

Það er augljóst mál að skilaboðin frá Sjálfstæðisflokknum eru þau að Framsóknarflokkurinn er bara hér til að fylla upp í stóla. Hann hefur ekkert um málin að segja. Við förum fram með þau mál sem okkur sýnist og stoppum þau mál sem okkur sýnist. Það sem merkilegt er, jú, það heyrist örlítið í hæstv. ráðherra. Svona stöku sinnum heyrist í hæstv. ráðherra í fjölmiðlum sem segir að málið verði samþykkt fyrir vorið. Og leitar nú leiða til að koma því í gegn. Ég vonast til þess, frú forseti, að fá að sitja fund með morgni þar sem þetta merka frumvarp hæstv. ráðherra verður kynnt.

Ég verð að segja eins og er að það væri skemmtilegt að við fengjum fleiri slíkar kynningar áður en mál eru lögð fram, áður en umræða hefst á þingi eða að við fáum þessu dreift á pappír, að við fengjum kynningu frá sjálfum ráðherranum. Ég hef skilið það svo að hæstv. ráðherra ætli að kynna þetta sjálfur eða einhver sem veit alla vega ekki minna um frumvarpið en hæstv. ráðherra. Það verður fróðlegt að fara yfir þessa kynningu og heyra um þetta mikla og stóra mál.

Þrátt fyrir að þetta komi upp í svona vandræðagangi þá er það á margan hátt til fyrirmyndar að allir þingflokkar á Alþingi fái sérstaka kynningu á málum áður en við förum að undirbúa okkur undir umræður. Ég er alveg viss um að ef þetta mál hefði farið í slíkan farveg liti það allt öðruvísi út í dag. Þá væri verið að leita eftir víðtækri samstöðu um mikilvægt mál og ég er alveg klár á því að allir þingflokkar á Alþingi hefðu tekið því fagnandi og mætt með opnum hug til þess að reyna að ná samstöðu um málið. Því miður var sú leið ekki farin en hver veit hvert þessi vandi ríkisstjórnarflokkanna leiðir okkur í framtíðinni? Það verður framtíðin úr að skera en við bíðum spennt eftir því að sjá hvert framhaldið verður.

Frú forseti. Þótt ekki séu margir stjórnarliðar í salnum þá vill svo vel til að einn hv. þingmaður er hér úr þeim merka flokki, Framsóknarflokknum, sem hlýðir á mál mitt. Ég verð að segja það alveg eins og er, og ég held að ég tali fyrir munn ábyggilega a.m.k. flestra hv. þingmanna í stjórnarandstöðunni, þegar ég segi að við erum tilbúnir til þess að aðstoða Framsóknarflokkinn við það að rísa upp aftur í þessu stjórnarsamstarfi — ég segi ekki að það þurfi að vera neitt meira, ég sé að það fer um ýmsa hv. þingmenn — til þess að bjarga því máli sem við erum að ræða. Ég er viss um að ef Framsóknarflokkurinn fengi aðstoð við það gæti það jafnvel hjálpað Framsóknarflokknum inn í framtíðina.

Ég held að það sé til þess vinnandi, sjáið þið, að þetta mál sé svo mikilvægt að ég er jafnvel tilbúinn til þess að hjálpa Framsóknarflokknum örlítið inn í framtíðina ef við björgum þessu máli. Ég er viss um að við erum flest tilbúin til þess þó svo að við munum að sjálfsögðu ekki hlífa þeim flokki í næstu alþingiskosningum enda á hann það ekki skilið. En ég er alveg viss um að það yrði skemmtilegra að mæta frambjóðendum Framsóknarflokksins í komandi alþingiskosningum ef hann hefði aðeins reist sig við. Ég held því að við ættum öll að koma örlítið til liðs við flokkinn í þessu endurreisnarstarfi sem gæti farið fram á ýmsan hátt en það væri táknrænt að byrja það t.d. í þessu máli: að rísa nú upp aftur, rifja upp skoðanir flokksins í gegnum tíðina og halda þeim fram. Síðan gæti framtíðin orðið alla vega og kannski líklegust sú að þessi flokkur sem, eins og ég hef nokkrum sinnum sagt, á afskaplega merka sögu en allir eiga sinn tíma og margt bendir til þess að tími flokksins sé senn liðinn. Það er auðvitað spurning hvort það gerist með því að flokkurinn fari í ýmsar áttir eða renni heill eitthvert. Það er erfitt að sjá fyrir í dag. (Gripið fram í.) Já, rétt, en margt bendir til þess að flokkurinn sé þannig að líklegast sé að hann muni fara í mismunandi áttir. Ætla ég ekki að gerast meiri spámaður í þeim efnum en orðið er en ítreka að þetta er allt saman sagt með góðri meiningu til Framsóknarflokksins vegna þess að ég hef lengi borið, kannski að mati sumra, of hlýjan hug til Framsóknarflokksins í ýmsum efnum. Það verður að viðurkennast að sá hlýhugur hefur breyst mikið meira í meðaumkun í seinni tíð og það kannski bera ummæli mín nokkuð með sér. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður, ég var að tilkynna að ég ætlaði ekki að gerast meiri spámaður í þessum efnum en orðið er og geri ráð fyrir því að hver liðsmaður Framsóknarflokksins geri sjálfur upp hug sinn hvernig framtíðin verður.

Frú forseti. Ég held að ég farið yfir flest þau mál sem hér koma við sögu en tel mig þó eiga töluvert eftir, m.a. á ég eftir að fara yfir rekstrarform, af hverju við höfum talið annað form hentugra en hlutafélagaformið. Þar sem það hefur nokkuð verið rætt í dag held ég að ég fari ekki mjög nákvæmlega yfir þann þátt. Ég tel þó nauðsynlegt og ætla að hafa það síðasta stutta kaflann í ræðu minni að vekja athygli á hluta af athyglisverðri umsögn talsmanns neytenda. Hann horfir eðlilega á þessi mál út frá sjónarhorni neytanda og það eru þeir sem notfæra sér Ríkisútvarpið og fjölmiðlun. Þar af leiðandi er eðlilegt að horfa til þess finnst mér, að hluta til a.m.k., sem þar segir. Talsmaður neytenda, sem er nýtt embætti og er að þreifa sig nokkuð áfram í því að móta það embætti, kemur nokkuð víða við en ég ætla eingöngu að taka það sem snýr að rekstrarforminu úr umsögn Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda.

Það segir hér um rekstrarform og arðsemiskröfur, með leyfi forseta:

Ég tel að í greinargerð með frumvarpinu (bls. 10–11) sé ekki sýnt fram á að hagsmunum og réttindum neytenda – notenda þjónustu Ríkisútvarpsins – sé betur borgið með því að Ríkisútvarpinu sé breytt í hlutafélag í eigu ríkisins. Lít ég þá annars vegar til þess að af því virðist leiða að lög á borð við upplýsingalög, nr. 50/1996, með síðari breytingum, og stjórnsýslulög, nr. 37/1993, með síðari breytingum — sem taka til „stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga“ — gildi ekki um Ríkisútvarpið; er það að mínu mati ekki til þess fallið að bæta stöðu notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hins vegar tel ég að hlutafélagsformið sé ætlað fyrir rekstur með arðsemismarkmið — en ég tel óljóst hvort arðsemi eigi samkvæmt frumvarpinu að vera tilgangur Ríkisútvarpsins framvegis. Verði sýnt fram á nauðsyn formbreytingar tel ég að hagsmunum notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu sé betur borgið með því að Ríkisútvarpið sé sjálfseignarstofnun eins og nefnt er sem valkostur á sama stað í greinargerð með frumvarpinu. Um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur gilda lög nr. 33/1999; þar eru ítarleg og skýr ákvæði um stjórnun og fjárhagslegan aðskilnað (sjá t.d. 29. gr. þeirra laga) sem samrýmast vel þeim sjónarmiðum sem nefnd eru í greinargerðinni (bls. 11 og 12) til stuðnings vali á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Sjálfseignarstofnun er að mínu mati hentugt form fyrir rekstur sem hefur almannaþjónustu sem megintilgang. Sjálfseignarstofnun hefur arðsemi ekki sem rekstrartilgang heldur rennur hugsanlegur arður af starfseminni aftur inn í reksturinn til þess að sinna markmiðinu með honum og þar með til notenda þjónustunnar. Þá er sjálfseignarstofnun með takmarkaða ábyrgð enda er hún ekki tengd neinum eigendum þar eð stofnendur skilja sig frá rekstri sjálfseignarstofnunar þegar hún er sett á fót.

Frú forseti. Þetta er mjög athyglisvert sjónarmið sem kemur fram hjá talsmanni neytenda og er eiginlega með ólíkindum að menntamálanefnd skuli ekki hafa gefið sér tíma til þess að velta þessum möguleika fyrir sér, bera hann saman við hlutafélagaformið, bera hann saman við núverandi form og átta sig á því hvað væri betra til að ná þeim markmiðum sem fram eru sett. Við höfum að vísu heyrt að það eru ansi margir, heyrðum það á ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur að trúarbragðafræðin í Sjálfstæðisflokknum hafi alveg náð inn í Framsóknarflokkinn. Það er augljóslega þannig að ekki er gefinn neinn tími til þess að ræða neitt annað form en hlutafélagaformið. Ekki nóg með það heldur skal hlutafélagaformið vera með þeim hætti eins og gengur og gerist á markaðnum með hvert annað fyrirtæki.

Það var mjög athyglisvert í menntamálanefndinni þegar fulltrúar annarra fjölmiðla komu. Sérstaklega var athyglisvert að heyra í fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sem, ef ég man þetta rétt, talaði um að þetta frumvarp og ef það yrði að lögum væri algjör bastarður inn í þennan rekstur af þeirri einföldu ástæðu að ef frumvarpið yrði samþykkt væri verið að sleppa, eins og hann orðaði það, göllunum við ríkisstofnunina, göllunum við hlutafélagið, þ.e. helstu göllunum vegna þess að það væri raunverulega ríkisábyrgð á hlutafélaginu, en taka kostina úr báðum kerfum og búa til nýtt. Þetta taldi núverandi framkvæmdastjóri eða forstjóri — maður kann ekki alveg að vera viss um það hvaða titlar eru notaðir — 365 miðla að gengi hreinlega ekki upp og þá út frá sjónarmiðum annarra á þessum markaði, þ.e. að þessi samkeppnisstaða væri með slíkum ólíkindum að hún gæti hreinlega ekki gengið.

Það er ein óvissan varðandi þetta frumvarp að væntanlega verður áfram kært eða gerðar athugasemdir til ESA um þessi mál. Það er því til viðbótar við þá óvissu sem hér hefur mest verið fjallað um í dag. Óvissan er því raunverulega úr öllum áttum og því verr og miður virðist það blasa við, eins og skilmerkilega er fjallað um í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar, að ekki sé verið að skapa þann frið, þá sátt um þessa mikilvægu stofnun sem virðist blasa við að mikill meiri hluti hv. alþingismanna hafi áhuga á a.m.k. ef tekið er mark á því sem sagt er. Því miður virðist einhver hluti, og ég vil leyfa mér að fullyrða einhver hluti hv. þingmanna í Sjálfstæðisflokknum, ekki hafa áhuga á slíku, hver sem ástæðan er. Ég held að það sé sama ástæða og er fyrir því að menntamálanefnd fékk ekki að ljúka málinu með sómasamlegum hætti. Það liggur þar eitthvað á bak við sem ég tel að sé nauðsynlegt að hv. þingmenn leggist á eitt við að reyna að grafa upp í umræðunni: Hver er ástæðan fyrir því að þessi leið er farin í eins mikilli ósátt og hugsanleg er í þessu máli? Hvernig stendur á því að það er valið? Hvernig stendur á því að ekki er reynt að ljúka málinu á sómasamlegan hátt, heldur keyrt með það í eins mikinn ágreining og hægt er? Það er ekkert gert, frú forseti, til þess að reyna að ná sáttum, ekki tilraun, ekki lyft litla putta til þess. Svo öruggur virðist stjórnarmeirihlutinn í lagasetningu sinni að ekki einu sinni er sett inn endurskoðunarákvæði sem væri hugsanlegt að setja ef menn telja að það þyrfti að fara yfir einhver mál, að menn væru að gera tilraunir með eitthvað. Ekkert slíkt er sett inn sem oft hefur verið gert hins vegar þegar menn eru með stór mál á ferðinni og telja að sé kannski ekkert óeðlilegt að þurfi einhvern tíma til að átta sig á hvernig gangi. Ekkert slíkt er sett á. Óvissunni er haldið opinni í allar áttir og ég segi: Því er nú verr og miður.

Frú forseti. Að lokum þetta: Þrátt fyrir það að hér blasi við að keyrt verði í gegn óheillafrumvarp fyrir Ríkisútvarpið þá verðum við þó að lifa í þeirri trú að eftir kosningar 2007 gefist tækifæri til þess að leiðrétta þann ranga kúrs sem í er stefnt með þessu frumvarpi. Þótt það sé ljóst, frú forseti, að við munum að sjálfsögðu reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur, við í minni hluta menntamálanefndar og þeir sem styðja okkar álit, til þess að bæta það frumvarp sem hér liggur fyrir, verð ég að segja eins og er að margt bendir til þess að stjórnarmeirihlutinn sé ákveðinn í því að keyra þetta í þessari mynd vegna þess að það kemur í ljós að þrátt fyrir að margar mjög góðar umsagnir og góðar heimsóknir í menntamálanefndina hefðu átt að duga til þess að opna augu meiri hlutans í nefndinni þá hefur það ekki gerst. Þar af leiðandi er minni trú á því að það gerist hér í salnum en að sjálfsögðu munum við reyna eins og kostur er að bæta frumvarpið en, frú forseti, í seinasta lagi á haustþingi 2007 má búast við því að hér liggi fyrir annað frumvarp um Ríkisútvarpið.