132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:07]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það væri á margan hátt fróðlegt að fá þá kynningu sem hæstv. ráðherra hefur boðað til — þannig blasir það við okkur — af því að einhver vandræði eru í stjórnarsamstarfinu. En ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að ég trúi varla að hæstv. ráðherra geri ráð fyrir að stjórnarandstaðan muni hlaupa upp og bjarga málinu. Ég hef ekki trú á að svo sé. Það getur því alveg passað hjá hv. þingmanni að þannig sé í pottinn búið að ýmislegt hafi verið gert á bak við tjöldin. Ég trúi að hv. þingmaður þekki örlítið betur til a.m.k. sumra hv. þingmanna sem hafa verið að tala þvert á hæstv. ráðherra í þessu tiltekna máli. Ég get alveg leyft mér að trúa að eitthvað sé til í þeirri kenningu. En mér finnst samt hv. þingmaður hafa of mikla trú á Framsóknarflokknum í þessu máli. Ég er ekki viss um að hann hafi svo mikinn kraft sem hv. þingmaður telur að þarna geti leynst á bak við einhvers staðar og að búið sé að tryggja málinu farveg.

Hins vegar er alveg ljóst, herra forseti, að hæstv. ráðherra gengi vart svo langt í fjölmiðlum og við höfum heyrt, eins og hv. þingmaður bendir á, nema eitthvað standi þar að baki. Vegna þess að hæstv. ráðherra hefur þurft að þola nokkuð hér í þinginu í vetur varðandi ýmis mál. Það hlýtur því að vera orðin býsna erfið staða hjá hæstv. ráðherra ef eitt málið enn lendir í ógöngum.

Að vísu eru dæmi þess að þegar sýndur hefur verið ákveðinn samstarfsvilji hefur verið hægt að lagfæra mál fyrir hæstv. ráðherra til að liðka örlítið fyrir þeim. (Forseti hringir.) Það er spurning í þessu máli sem við vitum ekkert um því við vitum ekki hvort einhver leið er í því.