132. löggjafarþing — 99. fundur,  5. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[05:12]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Klukkan er nú 12 mínútur gengin í 6 og umræða sú sem hér stendur yfir hefur staðið samfleytt að undanteknu hálftíma matarhléi í eina 15 tíma, rúma. Við sem höfum verið við hana alla höfum verið í salnum eða einhvers staðar í námunda við hann í þessa 15 tíma. Venjulegur vinnudagur er svona 8, 10–12 tímar. Menn fara að þreytast eftir að komið er mikið meira af þeim (PHB: Þreytast?) og vinnan slakari en ella.

Ég vildi þess vegna spyrja hvað vakir fyrir forseta um framhald fundar og kannski fá skýringar líka á því svari sem hann veitir ef fundur á að halda áfram, hvernig stendur á því að hann á að halda áfram. Forseti á að geta veitt slík svör. Forseti er embættismaður þingmanna. Hann er kosinn á þinginu, hann er ekki skipaður af konungi, þó að sumir forsetar kunni að álíta það, eða búinn til af guði almáttugum, heldur er hann kosinn á þinginu. Þingmenn hafa kosið hann sem embættismann sinn og hann á að geta svarað til um þessa hluti.

Forseti á líka að vita það að ef hann fer fram með ósanngjörnum hætti (Gripið fram í.) er því auðvitað svarað — forseti, ég bið um næði í stólnum. Það er ákveðinn hv. þingmaður sem gengur hér fram og aftur í hvert skipti sem ég kem í þennan stól með hróp og köll sem hann getur ekki einu sinni haft skiljanleg þannig að hægt sé að svara þeim eða bregðast með einhverjum hætti við þeim (PHB: Ég nefni ...) og ég bið forseta um að útvega mér næði í þessum sal meðan ég er að ræða um fundarstjórn forseta eða ella bæta við þann tíma sem þessi hv. þingmaður stelur frá mér með þessum hætti. Ég vil að forseti svari þessu, fer fram á það við hann að hann gefi þessi svör og hyggst ræða síðar um þau við hann þegar þau hafa verið veitt.