132. löggjafarþing — 99. fundur,  5. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[05:30]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að svara hv. þm. Jóni Bjarnasyni varðandi stjórn þingsins, um fundarstjórn forseta. Þeir forsetar sem verið hafa á þessum fundi hafa stjórnað honum afskaplega vel. Það var ákveðið að halda kvöldfund. Þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf sína ræðu klukkan rúmlega 11 í gærkvöldi þá hefði maður haldið að hægt yrði að hleypa hv. þm. Pétri H. Blöndal í ræðustól kl. hálfeitt eða eitt. En nú er klukkan að verða hálfsex. Ég legg til að menn fari að stytta mál sitt í þessari umræðu um fundarstjórn forseta og hleypi hv. þm. Pétri H. Blöndal að, sem hefur beðið æðilengi. Það hefur enginn haldið þingmönnum svo lengi hér inni nema stjórnarandstaðan, með málþófi sem hefur staðið æðilengi.

Ég hef hlustað á þetta í alla nótt og fylgst vel með. Mér finnst að menn geti ekki kvartað undan því að fundur standi lengi þegar þeir teppa ræðustólinn endalaust. Ég hvet menn til að fara að stytta í þessu og leyfa þeim þingmanni sem bíður eftir að fá orðið að komast að.