132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:02]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Lögum samkvæmt ber ríkisstjórninni að hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiri háttar mál sem varða utanríkisstefnuna. Það eru uppi viðsjár í varnar- og öryggismálum. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því á fundi utanríkismálanefndar að það yrði haft gott samráð við nefndina um stöðu og þróun þeirra mála. Það endurtók hæstv. forsætisráðherra í ræðustól Alþingis og hv. formaður utanríkismálanefndar talaði um að haft yrði gott samráð við nefndina í þessum málum.

Síðastliðinn föstudag hófust samningaviðræður á milli Bandaríkjamanna og Íslendinga. Það hafa komið mjög misvísandi skilaboð úr þeim viðræðum. Hæstv. utanríkisráðherra kvaðst mjög bjartsýnn eftir þær viðræður en hæstv. forsætisráðherra sagði að ekkert nýtt hefði komið fram. Það var sömuleiðis alveg ljóst að það var meiningarmunur á milli hæstv. utanríkisráðherra og forsætisráðherra um hvert stefna ætti. Hæstv. utanríkisráðherra talaði með þeim hætti að það var ljóst af máli hans að hann taldi að það væri einboðið að halda áfram tvíhliða varnarsamningnum við Bandaríkin og það var erfitt að skilja hann öðruvísi en svo að það væri forgangsatriði og ekki ætti að skoða aðra möguleika í stöðunni.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hins vegar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins að skoða ætti aðra möguleika og nefndi sérstaklega möguleika á því að tryggja öryggi Íslendinga með einhverjum hætti í samstarfi við Evrópusambandið. Við þessar aðstæður, frú forseti, finnst mér nauðsynlegt að viðhorf ríkisstjórnarinnar og stefna eða eftir atvikum stefnuleysi sé kynnt utanríkismálanefnd eins og loforð liggja fyrir um. Því spyr ég hæstv. forseta og hæstv. utanríkisráðherra sem hér er staddur: Með hvaða hætti á að efna loforð um samráð við utanríkismálanefnd og þær skyldur sem lög setja á ríkisstjórnina í þessu máli?