132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:08]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Lög um þingsköp Alþingis segja í 24. gr.:

„Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“

Það kom mér því sem utanríkismálanefndarmanni verulega á óvart í morgun á fundi nefndarinnar að ekki skyldi vera á dagskrá nein skýrsla um það hver staðan væri í samningaviðræðunum við Bandaríkjamenn.

Hver er það sem metur hvað er meiri háttar? Hver er það sem metur hvað er samráð? Er það nefndin undir forustu formanns á hverjum tíma sem á að meta það og kalla eftir samráði eða er það hæstv. ráðherra á hverjum tíma sem metur það hvort ástæða sé til að hafa samráð við nefndina? Utanríkismálanefndin hlýtur að eiga að hafa á því sjálfstæða skoðun hvort rétt sé að krefja hæstv. ráðherra og framkvæmdarvaldið um samráð og að farið sé að lögum. Þegar ósk þess efnis var borin upp á fundinum í morgun var engu líkara en formaður nefndarinnar, hv. þm. Halldór Blöndal, teldi það sitt hlutverk að sitja og bíða eftir því að hæstv. ráðherra þóknaðist að hafa samráð við nefndina. Helst lítur út fyrir að hæstv. ráðherra sitji og bíði eftir því að Bandaríkjamenn segi hvað þeir vilji gera og hvað þeir ætli að gera. Það er í raun búið að mynda keðju manna sem sitja og bíða og ekkert gerist. Ég tel það engan veginn ásættanlegt sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd að fá fréttir af svona mikilvægu máli eingöngu úr fjölmiðlum og hafa á því enga þekkingu eða engar upplýsingar til að leggja mat á þær fréttir sem fram koma í fjölmiðlunum. Miðað við þau lög sem gilda og 24. gr. þingskapa ber að hafa samráð og það var ekki innt af hendi. Það er því ekki verið að fara að lögum í þessu máli.