132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:11]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við mikilvægt mál sem mjög margir í þjóðfélaginu eru uppteknir af þessa dagana. Það er alveg rétt að við erum á mjög mikilvægum sögulegum krossgötum í varnarmálum á Íslandi og það hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa af hálfu stjórnarandstöðunnar að hún fái aðgang að upplýsingum um gang mála á hverjum tíma. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa og það er að sjálfsögðu hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita stjórnvöldum aðhald í þessu máli.

Ég hefði sjálfur viljað sjá að sett hefði verið í gang eins konar þverpólitísk vinna þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka fengju að koma að borðinu til að sinna þessu máli og þessu máli eingöngu. Mér finnst að þegar við höfum gert það á hinu háa Alþingi, valið þá lausn í erfiðum málum, þá hafi okkur farnast vel. Hér er um að ræða sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna, mál sem á margan hátt gengur þvert á allar pólitískar línur. Það eru áhöld um hvort ríghalda eigi áfram í varnarsamninginn við Bandaríkjamenn. Það eru líka áhöld um hvort við eigum að leita leiða varðandi nánara samstarf við aðrar Evrópuþjóðir. Ég hef hlustað með kostgæfni á ráðherra ríkisstjórnarinnar tjá sig um þessi mál og mér sýnist að þeir séu að skoða alla þessa hluti, en mér finnst að þeir mættu ganga lengra í því að greina þjóðinni frá gangi mála á hverjum tíma þó að vissulega hljóti maður að sýna því skilning að í sumum tilfellum sé nauðsynlegt að gæta trúnaðar. Ég hefði til að mynda viljað sjá hæstv. utanríkisráðherra koma fram að kvöldi 15. mars sl., þegar tilkynnt var að Bandaríkjamenn væru að fara, og tala þar með skýrum hætti til þjóðarinnar og greina henni frá því hver staðan væri í raun og veru. (Forseti hringir.) Ég beið þá allt kvöldið en ég sá honum ekki bregða fyrir.