132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:13]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. utanríkisráðherra að koma hingað og halda því fram að haft hafi verið eðlilegt samráð við nefndina. Fyrsti fundurinn í þessu ferli, samningaferlinu við Bandaríkjamenn, var á föstudaginn. Við höfum haft misvísandi upplýsingar um hvað fór fram á þessum fundum. Það er fullkomlega eðlilegt að hæstv. ráðherra hafi samráð við utanríkismálanefnd, hann greini henni frá gangi viðræðna, frá því hvaða markmið eru uppi og hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli, undir þeim trúnaði sem þar ríkir. Það hefur hæstv. ráðherra ekki gert.

Lögin segja að það eigi að hafa samráð. Ég held að hæstv. ráðherra hefði gott af því að heyra þau viðhorf sem eru í nefndinni. Við vitum að hingað til hefur hæstv. utanríkisráðherra metið rangt allar vísbendingar sem komið hafa fram í málinu. Hann var eini maðurinn á Íslandi sem hélt fram á síðustu stund að herinn væri ekki að fara þegar allir aðrir, m.a. hæstv. forsætisráðherra, töldu að það væru allar líkur á því.

Ég held, frú forseti, að það sé þeim mun meiri nauður sem rekur til samráðs þegar ljóst er að uppi er skoðanaágreiningur á milli hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Það er mergurinn málsins. Hæstv. utanríkisráðherra hefur talað þannig að það sé bara eitt í þessari stöðu sem sé að halla sér að Bandaríkjamönnum áfram og endurnýja og útfæra tvíhliða samninginn við Bandaríkjamenn á meðan hæstv. forsætisráðherra hefur sagt alveg skýrt að við eigum að skoða aðra kosti. Hann hefur sagt það alveg skýrt að við eigum að kanna þá möguleika sem felast í nánara samstarfi í Evrópu. Þarna eru uppi tveir mismunandi skoðanapólar og ástæðan fyrir því að þessir herramenn vilja ekki ræða við utanríkismálanefnd kann að felast í því að þeir vilja ekki að þessi ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar komi fram.