132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:16]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka þessa umræðu og lýsi ákveðinni furðu á því að hæstv. utanríkisráðherra sé hálfpartinn súr yfir því að þurfa að svara hvernig viðræðurnar hafi gengið fyrir sig, sérstaklega í ljósi þess að maðurinn hefur lýst því yfir að það hafi verið sérstaklega bjart yfir þeim viðræðum. En núna virðist vera sem hann telji sem svo að tíma hans sé jafnvel illa varið að þurfa að svara þingmönnum á Alþingi um stöðu viðræðnanna. Mér finnst það vera mjög undarleg afstaða hjá hæstv. utanríkisráðherra í málinu.

Fleira hefur vakið furðu mína í yfirlýsingum hæstv. utanríkisráðherra svo sem það að Bandaríkjamönnum verði látið það eftir að meta varnarviðbúnað þjóðarinnar, alfarið. Ég vil þá minna á að þetta eru sömu stjórnvöld og sækjast eftir því að sitja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem á einmitt að meta öryggismál og ófriðarhættu víða um heim. Menn geta ekki metið þá hættu hér heima fyrir, en samt telja þeir sig þess umkomna að sitja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að taka ákvarðanir m.a. um stríð eða viðskiptaþvinganir víða um heim. Mér finnst þetta ekki fara saman. Það væri fróðlegt ef hæstv. utanríkisráðherra gæti séð eitthvað örlítið af tíma sínum í að fara yfir það mál, hvers vegna við getum ekki metið varnarþörfina hér heima en farið síðan út um öll heimsins horn til að meta öryggismál og ófriðarhættu, frú forseti.