132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:18]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessar umræður hafa ekki komið á óvart og þar sem hv. þm. Suðurk., Jón Gunnarsson, veik nokkrum orðum að fundarstjórn minni í utanríkismálanefnd í morgun vil ég láta þess getið að ég fullvissaði utanríkismálanefndarmenn um það að hugur utanríkisráðherra og minn stæði til þess að samráð yrði haft um þessi mál eins og heitið hafði verið. Eins og fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er málið nú á því stigi að ekki er tímabært að taka upp umræður um það innan utanríkismálanefndar en auðvitað verður það gert á þeim tíma sem málið verður þroskað og á þeim tíma sem eðlilegt er að utanríkisráðherra taki málið fyrir á þeim vettvangi.

Við vitum það, þingmenn, að þegar unnið er að málum verða viðræðurnar, umræðurnar og undirbúningurinn að sjálfsögðu að komast á ákveðið stig til að það hafi þýðingu og tilgang og til að það sé málinu til góðs og þroska að fara að reifa það á þverpólitískum vettvangi innan utanríkismálanefndar. En við vitum að umræður þar eru oft viðkvæmar og við vitum líka að ekki eru neinar nákvæmar og skýrar reglur um það hversu mikið af því sem þar er frá sagt megi fara í almennar umræður í þjóðfélaginu þó svo að skýrt sé kveðið á um það að algjör trúnaður skuli ríkja um hvað sem sagt er á þeim vettvangi. Ég álít að við þingmenn séum allir sammála um að nauðsynlegt sé að vinna að þessu máli með gát. Við hljótum að bera ríkar skyldur til þess að gæta öryggis lands og þjóðar í hvívetna og þess vegna skulum við ekki á þessu stigi vera að brigsla mönnum um óheiðarleika í vinnubrögðum (Forseti hringir.) eins og hér hefur verið gert. Ég leyfi mér í lengstu lög að vona (Forseti hringir.) að gott hafi gengið til þeim þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa tekið til máls.

(Forseti (JóhS): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutíma.)