132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Málsókn vegna meintra brota á Svalbarðasamningnum.

511. mál
[12:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Það fer vel á því að við höldum áfram og hefjum fyrirspurnir, höldum áfram með þeirri fyrirspurn sem ég hyggst bera upp við hæstv. utanríkisráðherra. Þó að sumir vilji líta í austur og aðrir í vestur tel ég líka brýnt að við höfum hugfast að það eru fleiri höfuðáttir og ein þeirra er norður. Við megum ekki missa sjónar á norðrinu þó að við séum nú að horfa til beggja átta hér í Norður-Atlantshafi, austur og vestur, norðrið er líka til staðar.

Það sem mig langar til að ræða aðeins um við hæstv. utanríkisráðherra er hið svokallaða Svalbarðamál. Við Íslendingar höfum um nokkuð margra ára skeið eldað grátt silfur við Norðmenn út af yfirráðum yfir því svæði. Deilur hófust við Norðmenn á síðasta áratug og þær deilur standa í raun og veru enn. Þær hafa ekki verið leystar, við höfum ekki fundið lausn á þessum málum. Segja má að málið hafi legið í láginni núna í nokkur ár eftir að samið var milli Íslendinga, Norðmanna og Rússa um veiðar í Barentshafi eftir Smugudeiluna svokölluðu, en málið liggur samt sem áður óleyst.

Ástæðan fyrir því að ég setti saman þessa litlu spurning mína sem ég hyggst bera upp við hæstv. utanríkisráðherra er sú að í janúar blossaði upp í Noregi umræða um að Norðmenn ættu hugsanlega að lýsa yfir 200 sjómílna efnahagslögsögu umhverfis Svalbarða. Ég hef undanfarin ár, eftir að ég varð þingmaður, tekið þátt í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra til þingsins, en reyndar verður sú umræða hér á morgun aftur og við hlökkum öll til hennar. Ég hef tekið þátt í þeirri umræðu og ég hef a.m.k. síðustu tvö árin tekið eftir því að hæstv. utanríkisráðherra, ekki sá sem nú er heldur forveri hans, hafi upplýst þingið um að vinna stæði yfir varðandi undirbúning að málsókn gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag vegna meintra brota á Svalbarðasvæðinu. Þá erum við m.a. að tala um brot á hinni svokölluðu jafnræðisreglu sem er mjög mikilvægur burðarbiti ef svo má segja í hinum svokallaða Svalbarðasamningi sem var gerður árið 1920, eftir fyrri heimsstyrjöld, og hefur verið í gildi allar götur síðan. Við Íslendingar gerðumst fullgildir aðilar að þeim samningi árið 1996, ef ég man rétt.

Ég kem hér upp, virðulegi forseti, til að bera upp þá spurningu til hæstv. utanríkisráðherra:

Hvað líður undirbúningi að málsókn gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag vegna meintra brota á Svalbarðasamningnum?