132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Málsókn vegna meintra brota á Svalbarðasamningnum.

511. mál
[12:26]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það var í ágúst 2004 sem ríkisstjórnin ákvað að hafinn skyldi undirbúningur málsóknar gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag vegna hins svokallaða Svalbarðamáls. Ákvörðun þessi var tekin vegna þess að að mati íslenskra stjórnvalda hafa Norðmenn ítrekað brotið gegn ákvæðum Svalbarðasamningsins frá 1920 á undanförnum árum.

Norsk stjórnvöld komu árið 2004 í veg fyrir endurnýjun samningsins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum með ósanngjörnum og óraunhæfum kröfum um stóraukna hlutdeild Noregs í heildaraflanum og misbeittu að okkar dómi jafnframt meintum fullveldisréttindum sínum á Svalbarðasvæðinu með því að takmarka síldveiðar á svæðinu við 80 þús. lestir án nokkurra vísindalegra röksemda. Tilgangur umræddrar takmörkunar var augljóslega sá að torvelda skipum hinna eigenda, ef svo mætti segja, síldarstofnsins að ná aflahlut sínum og styrkja þannig samningsstöðu Noregs í síldarviðræðunum. Norsk stjórnvöld beittu svipaðri takmörkun í fyrra og tóku þá jafnframt einhliða ákvörðun um hækkun aflahlutar síns sem íslensk stjórnvöld neyddust til að svara í sömu mynt til að halda hlut sínum í heildarveiðinni. Í ár hafa Norðmenn enn hækkað aflahlut sinn og höfum við orðið að bregðast við því með samsvarandi hækkun.

Þessi óábyrga afstaða norskra stjórnvalda sem stefnir sjálfbærni veiða úr hinum mikilvæga norsk-íslenska síldarstofni í hættu hefur valdið okkur miklum vonbrigðum. Því miður eru engin teikn á lofti um að hún muni breytast og útlit fyrir að norsk stjórnvöld muni áfram virða viðeigandi ákvæði Svalbarðasamningsins að vettugi. Málsókn virðist því vera eina leiðin til að vernda lögmæta íslenska hagsmuni á Svalbarðasvæðinu en þess er einnig að geta að fyrir utan fiskveiðihagsmuni geta aðildarríkin að Svalbarðasamningnum einnig átt mikilvæga hagsmuni að verja á landgrunni Svalbarða.

Undirbúningur málsóknar gegn Noregi vegna Svalbarðamálsins er tvíþættur. Annars vegar hefur verið aflað ítarlegrar lögfræðilegrar álitsgerðar og unnið er að frekari lögfræðilegum rannsóknum sem vonast er til að ljúki á næstu vikum eða mánuðum. Hins vegar hafa verið haldnir tvíhliða samráðsfundir með fjölda annarra aðildarríkja Svalbarðasamningsins. Þeir fundir hafa verið gagnlegir og almennt hafa komið fram lík sjónarmið af hálfu þessara ríkja hvað varðar réttarstöðu Svalbarðasvæðisins. Enn fremur hefur verið rætt um möguleika viðkomandi ríkja til að verða aðilar að væntanlegu dómsmáli með svonefndri meðalgöngu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og standa vörð um hagsmuni sína sem aðildarríki Svalbarðasamningsins. Hver úrslit verða í því efni verður auðvitað að koma í ljós.

Undirbúningur málsóknarinnar er að mínum dómi vel á veg kominn og þegar það verður tímabært mun ég gera utanríkismálanefnd nánari grein fyrir stöðu málsins þegar það hefur skýrst frekar.