132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Málsókn vegna meintra brota á Svalbarðasamningnum.

511. mál
[12:33]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það svo í þessum málum og öðrum milliríkjamálum milli vinaþjóða að reynt er að ná niðurstöðum með samningum og við mundum helst vilja gera það þannig. Ég hef sagt það alveg skýrt við hinn norska kollega minn og aðra sem ég hef talað við um þessi mál, og það hafa fyrirrennarar mínir einnig gert, að ef ekki nást samningar þá er það líka siðaðra manna háttur í samskiptum að leggja mál fyrir dómstóla. Til þess eru þeir. Þess vegna höfum við ákveðið, ef ekki nást samningar, að halda þeirri leið opinni að fara með málið fyrir dómstólinn í Haag. Það var ákveðið í ágúst 2004.

Hins vegar eru þessi mál þannig vaxin að þau eru ekki hrist fram úr erminni eins og einhver venjuleg kæra fyrir innanlandsdómstóli. Slíkt mál kallar á verulegan lögfræðilegan undirbúning sem nú hefur verið unnið að og verður haldið áfram að vinna að með aðild alþjóðlegra sérfræðinga, erlendra sérfræðinga. Þess vegna kallar þetta mál á tímafrekan undirbúning og það er þess vegna sem það er ekki komið lengra en raun ber vitni. Það þarf að vanda allan málatilbúnað í máli sem þessu.

Svo vildi ég leiðrétta, virðulegi forseti, aðeins það sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði áðan. Hér er ekki um að ræða gagnkvæman samning milli Íslands og Noregs. Hér er um að ræða fjölþjóðlegan samning frá 1920 sem Íslendingar gerðust aðilar að u.þ.b. 75 árum eftir að hann var fyrst gerður. Það eru því miklu fleiri ríki, tugir ríkja, sem þarna eiga hagsmuna að gæta sem við getum vonandi að einhverju leyti fengið í lið með okkur í þessu máli.