132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lokun veiðisvæða.

468. mál
[12:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Íslenska fiskveiðistjórnarkerfið er algerlega ónýtt, sama á hvaða mælikvarða það er notað. Það kemur minni afli upp úr sjó en fyrir daga þess, það hefur valdið byggðaröskun, það kemur ekki fram í launaumslagi sjómanna að það bæti einhverju þar við heldur þveröfugt, það hefur skert tekjur sjómanna. Það er sama hvernig á það er litið, þetta er kerfi sem skilar engu.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ætíð fyrir hverjar einustu kosningar boðað að hann ætli að breyta einhverju. En nú þegar hann er kominn í embætti sjávarútvegsráðherra og getur breytt þá er hann orðinn eins og kontóristi sem bara vinnur í kerfinu og ætlar engu að breyta.

Fyrirspurnin sem ég ber hér upp varðar þá stýringu sem er lokun svæða. Sú stjórn sem fer fram á miðunum, sem ekki skilar neinum árangri, felst ekki eingöngu í því að verið sé að ákveða hvað á að koma upp af afla á hverju ári, heldur felst einnig í henni að loka svæðum og friða svæði. Hafsvæðið í kringum Ísland er orðið eins og jarðfræðikort. Það er allt merkt einhverjum lokuðum svæðum. Þar með er ekki öll sagan sögð því að auk þessara merkinga eru svokallaðar skyndilokanir sem Hafró framkvæmir án tilstuðlan sjávarútvegsráðuneytisins og e.t.v. væri kortið enn þá svartara ef allt væri tínt til.

En fyrirspurn mín lýtur að því hvort farið hafi fram mat á einhverjum árangri af því að loka þessum svæðum. Ég get ekki séð að það hafi farið fram, ég hef fylgst með sjávarútvegsmálum lengi en það er ekki að sjá. Þetta var talsvert í umræðunni á síðasta ári vegna þess að þá var stórum hafsvæðum lokað í Breiðafirði. Þegar gerð var rannsókn á þeim fiski sem þar var verið að vernda kom í ljós að stór hluti hans var orðinn gamall hægvaxta fiskur sem ekki skilaði nokkru með því að vernda hann því þó að hann hefði verið lengur í hafinu var ekki að sjá að hann hefði bætt við sig í einu né neinu í þyngd.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort gerð hafi verið einhver úttekt á þessu og hverju það hafi yfirleitt skilað að loka þessum svæðum. Ég hef ekki rekist á þau gögn. Það væri fróðlegt að fá það fram hvort það hafi verið gert því að menn eru ekki bara að gera eitthvað, það hlýtur að vera einhver tilgangur með þessu. Ef verið er að vernda eða loka svæðum hlýtur að vera hægt að mæla þetta að einhverju leyti. Við sjáum það ekki í því að verið sé að auka fiskveiðiheimildir með þessari lokun eða þessu kvótakerfi. Það er orðið löngu tímabært að hæstv. sjávarútvegsráðherra segi okkur frá því hverju þetta kerfi er að skila (Forseti hringir.) og þessar svæðalokanir.