132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lokun veiðisvæða.

468. mál
[12:39]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Á þingskjali 695 spyr hv. þm. Sigurjón Þórðarson eftirfarandi spurninga:

„1. Eru til athuganir á árangri skyndilokana?

2. Hver er árangur af svæðalokunum sem staðið hafa yfir í langan tíma?“

Hér er um að ræða tvenns konar spurningar. Það verður að taka fram að skyndilokanir voru mun algengari á árum áður. Um það var tekin ákvörðun á sínum tíma, m.a. í samráði við hagsmunaðila, bæði útvegsmenn stærri og smærri skipa og sjómenn, að reyna að stefna að því að fækka skyndilokunum. Þá var niðurstaðan sú að fjölga reglugerðarhólfum. Þessi mál eru auðvitað þess eðlis að þau þurfa stöðugt endurskoðunar við. Að mínu frumkvæði var hafist handa við það í vetur að fara yfir þessi mál að nýju með fulltrúum sjómanna og raunar líka fulltrúum útvegsmanna til að átta sig á hvort ástæða væri til að taka upp þessa ákvörðun og endurskoða hana eitthvað vegna margvíslegra og breyttra aðstæðna.

Hv. þingmaður spyr hvort til séu athuganir á árangri af skyndilokunum og árangri af svæðalokunum. Því er til að svara að árið 2004–2005 var gerð könnun á ferli skyndilokana og þeim árangri sem hægt er að greina með slíkum aðgerðum. Frá þessu var greint í fjölriti nr. 114 hjá Hafrannsóknastofnun árið 2005. Það heitir Skyndilokanir á þorskveiðar í botnvörpu á Vestfjarðamiðum og var unnið af þremur starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar. Vangaveltur hv. þingmanns um að ekkert hafi verið gert í þessum efnum til að meta þetta reynast ekki á rökum reistar frekar en margt annað sem hv. þingmaður heldur fram.

Niðurstöður af þessum athugunum eru m.a. þær að þó ein afmörkuð skyndilokun til skamms tíma komi líklega aðeins að takmörkuðu leyti í veg fyrir veiðar á smáfiski þá sé oft í kjölfar nokkurra lokana gripið til reglugerðarlokana til lengri tíma sem annars hefðu ekki komið til framkvæmda. Þess vegna má ætla að skyndi- og reglugerðarlokanir hafi reynst þýðingarmiklar í því að draga úr veiðum á smáfiski og þar með brottkasti.

Árið 1994–1995 var enn fremur gerð athugun á áhrifum svæðafriðunar á vöxt og viðgang þorsks á Vestfjarðamiðum sem þrír starfsmenn Hafrannsóknastofnunar unnu. Þetta birtist í fjölriti nr. 123 frá Hafrannsóknastofnun árið 2006 og er nú í prentun. Rannsóknin var gerð með merkingum á friðunarsvæðinu norðaustur af Horni, Hornbanka í Reykjafjarðarál sem margir þekkja og hefur verið nokkuð umræddur. Þar hefur verið lokað alveg fyrir tog- og línuveiðar síðan 1993, reglugerðarhólfinu norður af Horni sem aðeins er opið fyrir veiðum frá hausti og fram á miðjan vetur, auk þriggja samanburðarsvæða sem eru opin fyrir veiðum, m.a. í Djúpál.

Helstu niðurstöðurnar af þessari rannsókn voru þær að hlutfall smáþorsks undir 55 sentimetrum við merkingu, sem síðan endurheimtist við stærð undir 55 sentimetrum, var langhæst á opna svæðinu í Djúpál og langlægst á fiski sem merktur hafði verið á alfriðaða svæðinu norðaustur af Horni. Munurinn á þessu var um sexfaldur eða 25% á móti 4%. Enn fremur kom í ljós að fiskur merktur á friðunarsvæðinu endurheimtist síðar en fiskur merktur á opnum svæðum og var þá gjarnan orðinn kynþroska og genginn af friðunarsvæðinu til hrygningar við Vestur- og Suðvesturland. Þannig náði sá fiskur að taka út meiri vöxt og skila veiðunum auknum afrakstri.

Frekari rannsóknir af þessu tagi fóru fram á árinu 2004 og 2005 norður af Horni og friðuðum og opnum svæðum við Norðausturland. Enn fremur var kannað botndýralíf á bæði friðuðum og opnum svæðum á sama tíma, m.a. með neðansjávarmyndatökum, og sýnatöku á lífríki botnsins. Niðurstaðna úr þessum rannsóknum er að vænta síðar á þessu ári.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað er þetta er mál af því tagi, eins og ég sagði reyndar áðan, sem stöðugt þarf endurskoðunar við. Þessar svæðalokanir og hólfalokanir eru alltaf viðkvæmt mál og auðvitað mörg álitaefni í þessum efnum. Hins vegar hygg ég að flestir séu þeirrar skoðunar að þetta sé ein aðferðin sem við eigum að beita við fiskveiðistjórn. Það er einfaldlega ekki þannig að við eigum eingöngu að beita einni aðferð, hvort sem það eru sóknartakmarkandi eða aflatakmarkandi aðferðir. Við verðum líka að beita aðferðum sem lúta að veiðarfærastýringu og stýringu á veiðum inn á einstök hafsvæði. Það erum við að reyna að gera og ég hygg að því þurfi að beita með markvissum hætti í framtíðinni.