132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Innlausn fiskveiðiheimilda.

536. mál
[12:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég er með aðra spurningu til hæstv. ráðherra. Hún er um það hvort ríkið ætti að innleysa til sín fiskveiðiheimildir sem ekki eru nýttar á yfirstandandi fiskveiðiári og endurúthluta þeim eða jafnvel taka viðkomandi tegundir út úr kvóta. Á síðasta ári brunnu inni, ef svo má að orði komast, tugir þúsunda tonna af aflaheimildum af ýmsum fisktegundum, svo sem sandkola, skrápflúru og sömuleiðis voru ekki nýtt nokkur þúsund tonn af grálúðu. Það má ætla að þjóðarbúið hafi orðið af milljarða tekjum einungis vegna þess að grálúðan var ekki nýtt í samræmi við fyrirliggjandi aflaheimildir á síðasta fiskveiðiári. Það verður mjög fróðlegt að heyra svar hæstv. ráðherra við þessari spurningu. Ef svar hans er nei er augljóst að ráðherra er enn og aftur að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni.

Fiskveiðistjórnarkerfið er auðvitað algjör della út frá líffræðilegum forsendum kerfisins sjálfs, þ.e. að hægt sé að nota ákveðinn hluta af veiðiheimildum í hverri tegund til að skipta yfir í veiðiheimildir á allt öðrum tegundum. Þetta er svona álíka og ef hægt væri að skipta á því að í stað þess að veiða þrjár hrefnur mætti breyta því í veiðileyfi á einum hnúfubak eða steypireyði eða hverju sem er. Hvernig litist mönnum á að það væri hægt að breyta veiðirétti á fjórum rjúpum í eina grágæs? Þetta er auðvitað hrein og klár della og það er alveg stórundarlegt að menn skuli hafa þetta hér í lögum og reglum og vera að hefta atvinnurétt með svona vitleysu. En ég á kannski ekki sérstaklega von á því að hæstv. ráðherra taki vel í þetta vegna þess að hann er eiginlega orðinn eins og kontóristi. Hann vill ekki breyta neinu. Hann er kosinn til þess að móta stefnu en nú er eins og hann sé kominn inn í eitthvert kerfi þar sem hann vill engu breyta.

Það kom fram í svörum um daginn að hæstv. ráðherra vildi ekki einu sinni leyfa bændum í landinu að nýta veiðiréttinn í eignarlöndum sínum, og þá á ég við fjöruborðið, því ef opnuð væri glufa í þessu kerfi sem hann er að vinna í og ætlar ekki að breyta, þá væri kerfið jafnvel hrunið yfir hann. Ég er á því að menn verði að fara að spyrja sig gagnrýnna spurninga og átta sig á því hvernig þeir ætli í rauninni að hafa framtíð sjávarútvegsins í landinu. Er það þannig að sjávarþorpin eigi að koma með betlistaf og sníkja út byggðakvóta eins og var gert núna t.d. á Vestfjörðum eða ætla menn í rauninni að fara að breyta einhverju og standa við þau orð sem þeir voru kosnir út á, m.a. fyrir síðustu kosningar og þar áður, að menn væru að vinna að almannahagsmunum? Eða er eingöngu verið að passa sérhagsmuni fyrir þá sem eflaust greiða nokkrar krónur eða jafnvel nokkrar milljónir í kosningasjóði viðkomandi manna?