132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Innlausn fiskveiðiheimilda.

536. mál
[12:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst eðlilegt að löggjöfin að þessu leyti miðist við það meginmarkmið að fiskurinn sé veiddur. Það er tilgangur þess að gefa út veiðiheimildir yfir höfuð, að tilteknir aðilar sem fá þær í hendur veiði þann fisk sem þeim er heimilt að veiða.

Í því skyni hafa verið sett í löggjöfina ákvæði um veiðiskyldu. Þau eru hins vegar mjög rúm og veita handhöfum veiðiréttarins heimildir, töluvert svigrúm til þess að veiða ekki, þær heimildir sem þeir hafa undir höndum og framselja gegn gjaldi. Ég hygg að það megi segja almennt um þessi úrræði laganna að veiðiskylduákvæði er ekki nógu stíft og veiðileiguákvæði er allt of rúmt og ég held að menn þurfi að skoða hvort tveggja til úrlausnar á þessum vanda.