132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Innlausn fiskveiðiheimilda.

536. mál
[12:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra einfaldra spurninga hvort hann ætlaði að taka heildarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Svar var ekki mjög skýrt. Það var svona já-nei, já-nei og farið í einhverja hringi og vitnað í kerfið og reglur og niðurstaðan virtist að hann ætlaði engu að breyta. Hann væri að vinna í þessu kerfi og væri hálfgerður þræll þess.

Ég er á því að með þessu svari undirstriki hann í rauninni að hann er kontóristi. Það er ekkert annað. Það er átakanlegt að hæstv. ráðherra sem er búinn að lofa fólki breytingum, ekki bara einu sinni heldur fyrir hverjar einustu kosningar sem hann hefur verið í framboði, að þegar til kastanna kemur þá segist hann ekki ætla að taka heildarhagsmuni þjóðarinnar fram yfir sérhagsmuni. Hér kom upp í ræðustól hv. þingmaður Magnús Þór Hafsteinsson með nýjar og sorglegar fréttir af því að stofnvísitalan hefði lækkað í þorskinum. Þetta er átakanlegt. Síðan kemur hæstv. ráðherra hér eflaust í lokasvari sínu og heldur því fram að hann ætli ekki að breyta neinu. Þetta sé allt undir stjórn. En þetta er ömurleg staða og ömurlegt af hæstv. ráðherra að bjóða upp á þessa umræðu, bjóða sjávarbyggðunum m.a. á Vestfjörðum upp á að þurfa að fara með betlistaf í hendi til að fá að veiða fisk sem þeir hafa gert frá fornu fari.