132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Leiguverð fiskveiðiheimilda.

611. mál
[13:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér í dag fiskveiðar og fiskveiðistjórn. Mörgum verður heitt í hamsi og skyldi kannski engan undra. Þessar umræður hafa fylgt þjóðinni um margar aldir og sjávarútvegur er þýðingarmikill fyrir Íslendinga.

Ákveðin kaflaskil urðu í umræðunni 1983 þegar sett voru lög um fiskveiðikvótann eða aflaheimildirnar og sameiginleg auðlind þjóðarinnar var gefin fáum útvöldum. Þessi lög eða gjöf hefur valdið deilum síðan og á eflaust eftir að gera um ókomna tíð.

Aftur urðu ákveðin kaflaskil 1990 þegar ákveðið var að heimila frjálst framsal veiðiheimilda. Þetta leiðir af sér að þeir sem áður fengu veiðiheimildir gefins geta nú látið þær ganga kaupum og sölum og jafnvel, hugsanlega, braskað með þær. Þeir sem eru kvótalausir tala um lögleysu á sama tíma og kvótaeigendur tala um að sala veiðiheimilda sé nauðsynleg til að stuðla að hagræðingu og bættri nýtingu heimildanna.

Frú forseti. Nú eru mögulega komin enn ein kaflaskilin í fiskveiðum okkar Íslendinga, samráð um verðlagningu veiðiheimilda. Hvorki stjórnvöld né verðlagseftirlit hafa gert athugasemdir í þá veru en getur verið að stjórnvöld séu hér sofandi á verðinum fyrir samráði líkt og var t.d. varðandi olíusamráðið?

Frú forseti. Í kjölfar greinaskrifa í Morgunblaðinu í marsmánuði vil ég fá að bera upp eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um leiguverð fiskveiðiheimilda:

1. Telur ráðherra að samráð eigi sér stað um verðlagningu fiskveiðiheimilda á markaði, en þar virðist leiguverð víðast það sama?

2. Hefur ráðherra staðið fyrir skoðun á því hvernig verðmyndun á leiguverði fiskveiðiheimilda á sér stað? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra standa að slíkri skoðun?