132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Leiguverð fiskveiðiheimilda.

611. mál
[13:19]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram.

Menn verða að hafa í huga að spurningin um aflamarkskerfi eða sóknarkerfi er eitt og spurningin um hvort hafa eigi framsalskerfi er annað. Við tökum eftir því að jafnvel í löndum þar sem menn búa við sóknarstýringu, eins og t.d. í Færeyjum, búa menn líka við framsal. Ég tók eftir að vitnað var í viðtal við fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja á dögunum, Jörgen Niklassen, sem hefur komið hingað til lands, m.a. að frumkvæði Frjálslynda flokksins. Hann sagði að það væri bráðnauðsynlegt að hafa framsal í sóknarkerfi þeirra, m.a. til að stuðla að því að draga úr sóknartengdum kostnaði.

Ég vil því undirstrika það að spurningin um aflamarkskerfi eða sóknarkerfi er allt önnur en spurningin um framsalskerfi. Út af fyrir sig væri auðvitað hægt að hafa kvótakerfi þar sem ekki væri framsal. Ég tel það hins vegar ekki skynsamlegt. Ég held að eðlilegra sé að hafa framsal. Hins vegar er það alveg rétt sem hér hefur komið fram að þá þarf þetta framsal að vera þannig að það sé algjörlega gagnsætt, að það leiði ekki til þess að sjómenn taki þátt í kvótakaupum. Ég held að það sem við höfum verið að gera í þessum efnum á undanförnum árum hafi verið skref í rétta átt. Við sjáum það á viðbrögðum forustumanna sjómanna, t.d. eins og formanns Sjómannasambands Íslands, Sævars Gunnarssonar, sem sagði nýlega að áberandi minna væri um það að sjómenn tækju þátt í kvótakaupum núna en áður.

Hér var m.a. spurt um hversu margir hefðu haft milligöngu um kvótamiðlun. Ég veit það ekki nákvæmlega en þeir eru allnokkrir, ég þekki a.m.k. nokkur dæmi um það. Hv. þingmaður spurði jafnframt hvort hægt væri að leigja kvóta og gera út eingöngu á leigukvóta. Ég held t.d. að það sé ekki hægt í þorski en það er hins vegar örugglega hægt í ýmsum öðrum tegundum sem þannig stendur á um. Það er alveg rétt að t.d. í þorski er klárlega seljendamarkaður. Það er hins vegar ekki í ýmsum öðrum tegundum sem minni eftirspurn er eftir. Það eru líka dæmi um kaupendamarkaði í þessum kvóta þótt svo sé ekki í okkar stærstu nytjategund.

Ég ítreka að ég held að um þetta þurfi að gilda skýrari reglur en við (Forseti hringir.) höfum í dag og gagnsærri.