132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Þjónusta við börn og unglinga með geðraskanir.

482. mál
[13:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Herra forseti. Oft hefur maður orðið fyrir vonbrigðum í lífinu en aldrei nokkurn tímann eins miklum og núna, held ég. Ef við drögum saman í nokkur orð það sem ráðherrann sagði nákvæmlega þá var það að skýrslunni var stungið undir stól. Það hefur nákvæmlega ekkert verið gert. Ég er ekki hissa þó að tekið hafi hátt í þrjá mánuði að fá ráðherra til að koma hingað upp og svara þessari fyrirspurn, þetta er elsta fyrirspurnin á þinginu. Það er ósköp eðlilegt því að þarna var komið við einhvern kaun.

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að mér finnst það algjörlega til háborinnar skammar fyrir heilbrigðisráðherra, þegar búið er að leggja svona mikla vinnu í þessa frábæru skýrslu og samantektir og komið er fullt af tillögum til úrbóta, að það komi í ljós núna að skýrslan hefur bara legið undir stól í tvö ár og það hefur nákvæmlega ekkert verið gert. En hverju var lofað? Jú, að setja þetta í aðra nefnd.

Þetta er alveg til háborinnar skammar, herra forseti og mikil niðurlæging fyrir þingið og fyrir ráðherrann. Það er ekki oft sem sá er hér stendur verður orðlaus. En ég lagði líka, út af fréttinni sem ég lagði út af áðan, svipaða fyrirspurn bæði til félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra. Félagsmálaráðherra benti einungis á heilbrigðisráðuneytið þrátt fyrir að í fréttinni frá heilbrigðisráðuneytinu komi fram að þessi þrjú ráðuneyti væru að skoða þetta mál saman. Menntamálaráðherra sá enga einustu ástæðu til að svara þessu þó að við séum að tala um vandamál í grunnskólunum. Þetta er þjónusta sem þarf að sinna þar. Nei, menntamálaráðherra svarar þessu ekki einu sinni.

Málið er einfaldlega að þessi góða skýrsla, sem unnin var í ágúst 2004 og hampað var á ráðstefnu og gefin út fréttatilkynning um í febrúar 2005, hefur verið undir stól hjá heilbrigðisráðherra. Þetta er ekki sú fyrsta, það kemur fram í þessari skýrslu að (Forseti hringir.) margar aðrar skýrslur um sambærileg málefni hafa verið unnar en það hefur ekkert verið gert með þær.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að ávarpa ráðherra sem hæstvirtan.)