132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samningar við hjúkrunarheimili.

483. mál
[13:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég heyri að hún hefur verið að kynna sér þessi mál og ég fagna því að hún tekur jákvætt í þá hugmynd sem ég bar fram í fyrirspurn um að semja sérstaklega við hjúkrunarheimilin um að Landspítalinn hafi forgang. Það eru mjög dýrir einstaklingar í dýrum rúmum þar inni eins og við höfum margoft bent á og ráðherra gerir sér grein fyrir, en það vantar heimaþjónustu, það er alveg ljóst.

Á dögunum spurði ég hæstv. ráðherra hvort hún teldi ástæðu til að koma á sjúkrahústengdri heimaþjónustu fyrir aldraða af Landspítalanum. Hún taldi svo ekki vera. Ég tel fulla ástæða til að skoða það líka því við vitum að stór hluti þeirra sem eru á biðlistum og þeirra sem eru á spítala telja sig geta verið heima ef næg þjónusta væri fyrir hendi, en svo er ekki. Heimaþjónustu vantar og það vantar líka hjúkrunarpláss þar sem Landspítalinn hefur ekki forgang inn á önnur heimili en þau tvö sem við nefndum. Það þarf því að taka á þessum málum.

Stærsta vandamálið og stærsta áhyggjuefnið er hvernig á að reka þau hjúkrunarheimili sem við höfum. Það þýðir lítið að tala um að byggja upp ný hjúkrunarheimili ef menn hafa ekki vilja til að greiða fólkinu í umönnunarstéttunum almennileg laun. Því verður að breyta og á því verður hæstv. ráðherra að taka í ríkisstjórninni því án þess lendum við í miklu stærri vanda en þeim sem ég er að brydda upp á í sambandi við sjúklingana á Landspítalanum.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til að skoða samningaleiðina sem ég bendi á við hjúkrunarheimilin til að leysa vandann. Síðan þarf auðvitað að taka sérstaklega á heimaþjónustunni því það er ódýrasta leiðin og sú sem flestir vilja. Flestir vilja vera heima eins lengi og þeir geta og við viljum líka gera fólki það kleift.