132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samningar við hjúkrunarheimili.

483. mál
[13:48]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel eðlilegt að skoða hvort fara eigi í þá vinnu að láta stífari reglur gilda um hverjir komast inn á hjúkrunarheimilin. Það er eðlilegt að það verði skoðað þó ég vilji ekki kveða algerlega upp úr með hvort það verði niðurstaðan. Það þarf líka að skoða vistunarmatið. Það er framkvæmt á mjög mörgum stöðum og ég tel ástæðu til að skoða hvort við eigum að fækka þeim hópum sem gera vistunarmat.

Þegar maður sér niðurstöður eins og fengust í Hafnarfirði, þar sem helmingurinn af biðlistanum gæti verið heima ef hann fengi meiri þjónustu heim, spyr maður sig hvað sé í gangi. Af hverju er biðlistinn svona? Af hverju er þá ekki reynt að mæta þessum þörfum fyllilega heima? Það er líka rétt sem hér hefur verið bent á að það er vandi að ráða inn fólk til að sinna þessari þjónustu. Á það bæði við um heimahjúkrunina og félagsþjónustu sveitarfélaga. Það eru því ýmis vandamál á ferðinni í þessu sambandi.

Áðan var sagt að það þyrfti líklega ekki að byggja fleiri hjúkrunarrými. Ég held að það sé ekki hægt að taka svo sterkt til orða. Reyndar er búið að byggja upp fjölmörg hjúkrunarrými úti á landi eins og í Dalabyggð. Þar eru fleiri en 30 pláss fyrir 100 íbúa sem eru 67 ára og eldri. Hægt er að vista meira en 30% af eldri borgurum Dalabyggðar inni á stofnunum. Það er auðvitað ótrúlega há tala. Þannig er þetta víða á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu eru plássin fyrir 100 íbúa 67 ára og eldri svipuð og á Norðurlöndunum, en samt er þörf á að byggja meira. Maður spyr sig því: Af hverju er staðan svona? Ég tel að bæta þurfi við plássum á höfuðborgarsvæðinu en að leggja eigi meginþungann á næstu árum á að þjónusta meira heima og í öðruvísi og fjölbreyttara formi en er í dag á sambýlum og minni einingum.