132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Slys á börnum.

504. mál
[14:03]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Spurt var um m.a. hvaða upplýsingar Árvekni hefur almennt undir höndum. Ég get ekki svarað því á þessari stundu. En það er alveg ljóst, eins og kom fram í fyrra svari mínu, að 13 slys voru skrásett árið 2004 á höfuðborgarsvæðinu á snjóþotum og sleðum. 13 slys á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að bæta skráninguna eins og kom fram áðan og hvatt er til þess að börn noti hjálma við sleðanotkun eins og við hjólanotkun. Sá áróður er því í gangi og hefur verið um nokkurt skeið. Við sjáum að vaxandi fjöldi barna notar hjálma á sleðum núna.

Ég held að þingmenn allir muni það þegar þeir voru yngri og voru á sleðum, það var enginn með hjálm, ekki nokkur maður. Og enginn með hjálm á skíðum. Það er því að aukast að krakkar noti hjálma sem betur fer. Ég kýs að túlka það svo að Árvekni – slysavarnir barna, Lýðheilsustöð og almenn fræðsla í samfélaginu sé að skila sér.

En auðvitað mun þessi áróður halda áfram. Hann er mjög mikilvægur af því slys sem verða á sleðum geta verið mjög alvarleg, geysilega alvarleg. Þess vegna er mjög brýnt að koma því líka á framfæri, eins og ég gerði í fyrra svari mínu, að börn eiga að sitja svo þau slasi sig sem minnst ef þau lenda í einhverju.