132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

MFS-einingin á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

563. mál
[14:14]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Forseti. Þetta er verðug umræða um MFS-eininguna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem hefur gefist mjög vel. Það sem mér finnst vera aðalatriðið er að sængurkonur eigi valkost. Það var einmitt umræðan hér þegar verið var að leggja niður Fæðingarheimilið á sínum tíma. Þá var ekki lengur valkostur fyrir konur sem voru að fæða því þær urðu allar að fara inn á Landspítala.

Síðan kom upp valkosturinn með MFS og hæstv. ráðherra segir að sambærileg þjónusta verði í heilsugæslunni. Ég spyr: Munu ljósmæðurnar í heilsugæslunni koma inn á spítalann og vera viðstaddar fæðinguna eða aðstoða við fæðingu? Það held ég ekki. Að minnsta kosti skilst mér það ekki. Þá er það náttúrlega ekki sambærileg þjónusta.

Aftur á móti spyr ég mig hvort það sé jákvætt að mun fleiri geta nýtt sér Hreiðrið til að fæða og þá aðstöðu sem þar er. En ég velti þá fyrir mér hvort það sé sambærileg þjónusta sem heilsugæsluljósmæðurnar (Forseti hringir.) eru að veita.