132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Gjaldtaka á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

643. mál
[14:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hvort ráðherra finnist eðlilegt að mismuna sjúklingum, svo sem krabbameinssjúklingum með gjaldtöku, eins og gert er á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, eftir því hvort þeir fá meðferð á göngu- eða legudeild. Það er líka spurt: Hefur ráðherra áform um að koma til móts við sjúklinga sem bera mikinn kostnað af meðferð á göngudeild sjúkrahúsa?

Því er til að svara að lög um almannatryggingar gera ráð fyrir að ef sjúkratryggður einstaklingur þarf að ráði læknis á sjúkrahúsvist að halda þá sé honum tryggð ókeypis sjúkrahúsvist. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir. Lögin gilda óháð því hvort um er að ræða krabbameinssjúklinga eða sjúklinga með annars konar sjúkdóma. Þetta er bara hin almenn regla sem er háð læknisfræðilegu mati. Matið á því hvort sjúklingur eigi að leggjast inn á sjúkrahús eða hvort meðferð fari fram á göngudeild sjúkrahúss er hjá læknum. Þeir geta væntanlega metið fólk með sömu sjúkdóma á mismunandi hátt, þ.e. hvort leggja einhverja þurfi inn vegna hugsanlegra aukaverkana af því viðkomandi er í ákveðnu líkamlegu ástandi o.s.frv. Þarna er um læknisfræðilegt mat að ræða þar sem skorið er úr um hvort meðferðin fari fram á göngudeildinni eða með innlögn.

Ef hægt er að veita þjónustuna á göngudeildum sjúkrahúsa gilda sambærilegar reglur um gjaldtöku og ef þjónustan er veitt utan sjúkrahúsa á einkastofum sérgreinalækna. Göngudeildarþjónustan telst vera sambærileg þeirri þjónustu sem veitt er á einkastofum sérgreinalækna og því ekki hægt að hafa gjaldtökuna lægri á göngudeildum sjúkrahúsa. Gæta verður að samkeppnislögum í þessu sambandi.

Hvort áform séu um að koma til móts við sjúklinga sem bera mikinn kostnað af meðferð á göngudeildum sjúkrahúsa, þá vil ég benda á að það er gert með ýmsu móti og vil ég nefna hér nokkur atriði í því sambandi. Til dæmis er komið til móts við sjúklinga þannig að ef kostnaður fer umfram 18.000 kr. þá á sjúklingurinn rétt á afsláttarskírteini sem leiðir til lækkunar á gjöldum. Sambærilega tölur eru 6.000 kr. fyrir börn og 4.500 kr. fyrir aldraða og öryrkja. Ég geri mér grein fyrir að í því tilviki er hér um ræðir þarf viðkomandi að greiða miklu hærri upphæðir.

Annað dæmi um hvernig komið er til móts við sjúklinga sem bera mikinn kostnað af læknismeðferð, er að heimilt er, samkvæmt reglugerð, að endurgreiða sjúklingi útgjöld vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar ef útgjöldin teljast umtalsverð miðað við tekjur fjölskyldunnar. Þarna er sem sagt heimild í reglugerð og Tryggingastofnun ríkisins sér um þessar greiðslur eftir að búið er að meta viðkomandi og þá hve mikinn kostnað hann hefur borið. Það er þá tengt við fjölskyldutekjur og hvort þetta teljist umtalsverður kostnaður. Þannig að þar er líka möguleiki að koma til móts við þá sem bera mikinn kostnað af meðferð sinni.

Virðulegur forseti. Undanfarið hefur verið rætt um að sjúklingum sé mismunað í notendagjöldum fyrir heilbrigðisþjónustu. Þetta hefur verið almenn umræða í samfélaginu í tengslum við skýrslur sem Tryggingastofnun gerði. Ég tel að þegar sjúklingar fá ókeypis sjúkrahúsvist, afsláttarskírteini sem leiða til lægri gjalda fyrir heilbrigðisþjónustuna, eða fá endurgreitt frá Tryggingastofnun ríkisins vegna kostnaðar við læknishjálp, lyf og þjálfun, þá sé um jákvæða ívilnun að ræða en ekki mismunun. Í því sambandi vil ég benda á að það er megininntak velferðarkerfisins að koma til móts við þá sem bágast eiga í samfélaginu með þessum úrræðum. Það er því mjög erfitt að kalla þetta mismunun því þetta er á almennum nótum, þ.e. að sumir fá afslætti en aðrir ekki, því af hverju fær fólk afslætti? Það hefur verið samstaða um að veita þeim afslætti sem þurfa á því að halda. Það er mjög auðvelt að hrópa á stjórnmálamenn: Einfaldið þið kerfið, einfaldið þið kerfið. En það er eðlilegt að það sé flókið af því við erum að koma til móts við ákveðna aðila sem eiga erfiðara með að standa undir kostnaði en aðrir.

Auðvitað væri mjög jákvætt að einfalda kerfið. En ég bendi á að það verður aldrei mjög einfalt. Eðli kerfisins felur það í sér að það getur ekki orðið mjög einfalt.