132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Gjaldtaka á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

643. mál
[14:29]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að hreyfa þessu máli. Að heyra þá tölu að krabbameinssjúklingur í „velferðarríkinu“ Íslandi greiði 100.000 kr. á ári eftir að hafa fengið afsláttarkort vegna meðferðar sinnar, finnst mér ekki hægt. Það er ekki boðlegt fyrir sjúklinga á Íslandi, sem eiga við jafnalvarleg veikindi að stríða og krabbamein er að þurfa að greiða slíkar upphæðir. Þetta er tala frá einum sjúklingi. Við höfum ekki fengið tölur frá öðrum og því er hægt að ímynda sér að þær geti verið bæði hærri og lægri.

En það sama hver talan er þá er þetta allt of hátt. Þetta er eitthvað sem verður að fara í gegnum. Það hefur verið mín skoðun lengi að gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu sé komin úr öllu hófi og hana verði að taka til gagngerrar endurskoðunar. Og sömuleiðis verði að einfalda leiðir og aðgengi fólks að möguleikum (Forseti hringir.) tryggingakerfisins.