132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Skattkerfið og fjárfestingar í sprotafyrirtækjum.

515. mál
[14:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem hljóðar svo:

„Er til athugunar að nota skattkerfið í auknum mæli til að auka áhuga fjárfesta á sprotafyrirtækjum? Ef svo er, hvernig?“

Ástæða fyrirspurnarinnar er sú að ég tel að við þurfum að nota skattkerfið í miklu meira mæli til að efla sprotafyrirtækin og hátækniiðnaðinn og leita leiða til að fá aukið fjármagn inn í þessar greinar með ívilnunum í gegnum skattkerfið og endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Það er úrelt leið að ausa út styrkjafé til nýsköpunarfyrirtækja hvers konar, sprotafyrirtækja og hátækniiðnaðar. Við eigum miklu frekar að fara þá leið að endurgreiða og ívilna í gegnum skattkerfið. Þar hefur verið talað um norsku leiðina þar sem 20% af rannsóknar- og þróunarkostnaði skilgreindra verkefna eru endurgreidd upp að ákveðinni upphæð, 10 milljónir, 20 milljónir eða 100 milljónir. Þetta er mjög góð og gagnsæ aðferð til að ívilna sprotafyrirtækjum og greinum í hátækni hvers konar sem verið er að stofnsetja, sérstaklega af því að 70% af þróunarverkefnum eru almennt launakostnaður. Þetta fer því allt með einum eða öðrum hætti í ríkissjóð og þetta er miklu betri leið en flókið kerfi ógagnsærra styrkja og ívilnandi lána sem skila sér illa til baka.

Í þessu sambandi er mjög athyglisvert að skoða hagtölur um hlutfall verðmætasköpunar í hátækniiðnaði hvers konar. Árið 1995 var hlutfall hátækniiðnaðar í verðmætasköpun 0,6%. Níu árum síðar, 2004, var það orðið 3,9%, 852 milljarðar, hafði verið 451 milljarður árið 1995 og hefur orðið gífurleg breyting þar á. En á síðustu árum hefur hægt á þessari þróun og hún er eiginlega stopp og þarf að leita leiða til að efla hátækni- og sprotagreinar með sérstökum hætti. Verðmæti hátæknigreina var árið 1998 talið vera um 5 milljarðar og verðmætasköpun eftir greinum árið 2003 var tæp 4% á sama tíma og áliðnaðurinn skapaði um 1,2% af þessu. Það er því fróðlegt að skoða ýmsar hagtölur, sérstaklega til að sjá hve aukningin hefur verið mikil á síðustu árum í svokölluðum hátæknigreinum, upplýsingatækni, framleiðslu lyfja, lækningatækjum og sérhæfðum vélbúnaði, sem skapa nú, eins og áður sagði, um 4% af landsframleiðslunni en hafa hægt mjög á sér og þarf að leita leiða (Forseti hringir.) til að efla þessi fyrirtæki.