132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Skattkerfið og fjárfestingar í sprotafyrirtækjum.

515. mál
[14:41]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög athyglisverð umræða og mjög mikilvægt að við skoðum sértækar leiðir til að koma til móts við nýsköpunarfyrirtæki og fyrirtæki sem eru í þróun og eru með mikinn þróunarkostnað. Ég tel verulega illa búið að slíkum fyrirtækjum hér á landi. Þó að við séum hér með lágan tekjuskatt á fyrirtæki þá nýtist það þessum sprotafyrirtækjum ekki neitt vegna þess að þau skila ekki tekjum. Talað er um allt að 10–15 ár sem upphafsár fyrirtækja af þessu tagi, þ.e. áður en afurð þeirra verður arðbær.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér verði ríkisvaldið að koma með sértækar leiðir. Það er ekki nóg að leggja áherslu á almennar reglur fyrir fyrirtæki vegna þess að fyrirtæki sem er í uppbyggingu og fyrirtæki sem er komið yfir þróunarkostnaðinn eru í eðli sínu gjörólík og þurfa gjörólíka nálgun hvað þetta varðar. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda, ég tel (Forseti hringir.) að við eigum að skoða norsku leiðina mjög vel hvað varðar endurgreiðslu á þróunarkostnaði.