132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Skattkerfið og fjárfestingar í sprotafyrirtækjum.

515. mál
[14:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það mátti lítið greina í svörum hæstv. fjármálaráðherra um hans pólitísku viðhorf í þessu máli, hvaða leiðir hann vildi sjá farnar og einhverjar vísbendingar nýs fjármálaráðherra um það hvernig hann vildi búa að þessum fyrirtækjum.

Sprota- og nýsköpunarfyrirtækin og hátæknigreinarnar verða að fá svigrúm til að verða til. Þeim duga ekki hinar almennu reglur þó svo að þær dugi þeim síðar. Þau verða að fá einhvers konar ívilnandi svigrúm til að eflast og þróast og þar er norska leiðin, einhvers konar útgáfa af henni, mjög vænleg. Ég hefði viljað heyra hæstv. fjármálaráðherra svara því fyrir sitt leyti, sem leiðandi stjórnmálamaður í landinu, hvort það væri leið sem hann vildi sjá og teldi færa, burt séð frá einhverjum nefndum og nefndaskipunum.

Stjórnvöld á Íslandi hafa á síðustu árum tekið mjög hraustlega á í málefnum stóriðjunnar svo vissulega er mjög umdeilt. Lengi má deila um það hvort of langt hafi verið gengið, en það er ekki til umræðu hér. Þar hafa menn ekki hikað við að beita ívilnandi aðferðum og alls konar bænaskrám o.s.frv. til að laða að erlenda fjárfesta og stóriðjurekstur hvers konar. Stóriðjuframkvæmdir hafa, má segja, tröllriðið allri atvinnuumræðu á Íslandi um árabil.

Ég tel að nýsköpun, hátækni og sprotafyrirtæki séu mikilvægasti þátturinn í umræðum um atvinnumál og tengist að sjálfsögðu menntun og rannsóknum og þeim hlutum líka. Þessi fyrirtæki þurfa að fá pólitískar vísbendingar frá stjórnvöldum um það hvert stefnir. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að kveða upp úr um það hvort hann telji koma til greina að fara ívilnandi leið eins og gert er í Noregi með því að greiða til baka 20–30% af rannsóknar- og þróunarkostnaði skilgreindra verkefna upp að ákveðnu marki. Annað eru óboðleg svör, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.