132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Skattlagning styrkja úr sjúkra- og styrktarsjóðum.

644. mál
[14:59]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég vildi í upphafi geta þess að það eru nokkuð margir liðir í þessari fyrirspurn þannig að svarið gæti orðið nokkuð langt og ef mér tekst ekki að klára það í fyrri ræðu minni mun ég freista þess að klára það í síðari ræðunni.

Fyrsta spurningin er: „Hversu miklar skatttekjur hafði ríkissjóður af framlögum og styrkjum úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaganna á árunum 2004 og 2005?“

Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum fyrir árið 2005 vegna tekna sem aflað var á árinu 2004 fengu 11.174 framteljendur framlög eða styrki úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga á því ári, samtals 852 millj. kr. Veittar voru skattalegar ívilnanir, samtals 122 millj. kr., á móti þeim greiðslum á grundvelli 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en það heimilar skattyfirvöldum að lækka þessar greiðslur, t.d. vegna skerðingar á gjaldþoli framteljenda. Stofn til tekjuskatts og útsvars nam þannig um 730 millj. kr. en af þeim greiddu umræddir einstaklingar 169 millj. kr. í tekjuskatt í ríkissjóð og 94 millj. kr. í útsvar til sveitarfélaga eða samtals 263 millj. kr. Þess má geta að framlög og styrkir frá stéttarfélögum voru að jafnaði 2,5% af skattskyldum tekjum þeirra framteljenda sem þeirra nutu eða liðlega 76 þús. kr. á ári á hvern styrkþega.

Sambærilegar tölur fyrir árið 2004 vegna tekna sem aflað var á árinu 2003 voru 10.724 framteljendur og námu heildarframlög 843 millj. kr. Þar af var skattaleg ívilnun á grundvelli 65. gr. samtals 121 millj. kr. og skattstofninn því 722 millj. kr. Af þeim stofni greiddu þessir tæplega 11 þúsund einstaklingar 162 millj. kr. í tekjuskatt til ríkisins og 93 millj. kr. í formi útsvars til sveitarfélaga eða samtals 255 millj. kr. Framlög og styrkir frá stéttarfélögum voru að jafnaði 2,8% af skattskyldum tekjum styrkþega eða tæplega 79 þús. kr. á ári á hvern þeirra. Af þessu sést að meðalgreiðsla framlaga og styrkja úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaganna lækkaði lítillega á hvern styrkþega milli áranna 2003 og 2004.

Önnur spurningin er: „Telur ráðherra að skattlagning sjúkrastyrkja hafi lagastoð?“

Í II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ásamt síðari breytingum, eru taldar upp skattskyldar tekjur. Skattskyldar tekjur teljast, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögum um tekjuskatt, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Lagastoð um skattlagningu sjúkrastyrkja er að finna í 2. tölul. a-liðar 7. gr. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Tryggingabætur, meðlög og styrkir. Skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur …“

Þriðja spurningin er: „Hvaða stefnubreyting varð á árinu 2002 þegar farið var að leggja skatt á sjúkrastyrki án þess að til lagabreytinga hafi komið?“

Sjúkrastyrkir hafa ávallt verið skattskyldir. Ágreiningur hefur hins vegar risið um það hvort styrkir þessir væru frádráttarbærir eða ekki og má í því sambandi nefna úrskurð yfirskattanefndar nr. 803/1997 og tvo nýrri úrskurði, nr. 237/2005 og 383/2005. Fyrir 1. júlí 2001 voru sjúkrastyrkir ekki staðgreiðsluskyldir, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, en frá og með 1. júlí 2001 voru sjúkrastyrkir staðgreiðsluskyldir, sbr. reglugerð nr. 500/2001, um breytingu á reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með síðari breytingum. Eðlilegra þótti að taka staðgreiðsluna af strax í stað þess að menn fengju skattinn í bakið síðar.

Skattframkvæmd hefur verið einsleit hvað þetta varðar. Með aukningu á styrkjum stéttarfélaga og betri forskráningu á framtöl hefur skattlagning vegna þeirra aukist hin síðari ár. Á árinu 1998 greiddu stéttarfélög í atvinnugrein 91200 307 milljónir alls í styrki samanborið við 909 milljónir árið 2005. Þar af voru 232 milljónir greiddar í sjúkradagpeninga árið 1998 en 565 milljónir árið 2005. Samtals eru þessar greiðslur árið 1998 307 miljónir, 1999 471 milljón, 2000 274 milljónir, 2001 783 milljónir, 2002 853 milljónir, 2003 743 milljónir, 2004 747 milljónir og 2005 909 milljónir.

Herra forseti. Ég mun ljúka svarinu í síðari ræðu minni.