132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Skattlagning styrkja úr sjúkra- og styrktarsjóðum.

644. mál
[15:06]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hv. fyrirspyrjanda Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég verð að viðurkenna að það kemur manni afskaplega spánskt fyrir sjónir að menn skuli sjá þarna pott til að sækja í einhverja aukaskatta, einhverja jaðarskatta. Að vísu hefur ráðherra ekki unnist tími til í umræðunni að svara síðustu spurningunni en ég bíð spenntur eftir því svari og skora eins og aðrir á ráðherra að beita sér fyrir breytingu á þessari skattlagningu, því eins og komið hefur fram er verið að bæta upp tekjumissi fólks og þeirra sem virkilega þurfa á þessu að halda. Það má í raun og veru segja að verið sé að auka á misskiptingu með því að taka skatt af þessum nauðsynlegu styrkjum sem fólk þarf virkilega á að halda við erfiðar aðstæður.