132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Skattlagning styrkja úr sjúkra- og styrktarsjóðum.

644. mál
[15:12]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þá tek ég til við lesturinn aftur en það er svar við fjórðu spurningu hv. fyrirspyrjanda: „Telur ráðherra skattlagninguna eðlilega og ef svo er, með hvaða rökum?“

Sjúkrastyrkir teljast til skattskyldra tekna skv. 2. tölul. a-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Um frádrátt frá slíkum tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. nefndra laga. Í því ákvæði felst að beinn kostnaður við öflun teknanna leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar.

Það leiðir af tilvísun 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri, að við skilgreiningu á beinum kostnaði ber að fara eftir almennum reglum um rekstrarkostnað eftir því sem við á með þeim takmörkunum sem ákvæðið sjálft mælir fyrir um. Persónuleg útgjöld eru því ekki heimil til frádráttar sem rekstrarkostnaður. Útgjöld, m.a. vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, krabbameinsskoðunar, ættleiðingar, glasafrjóvgunar, tannviðgerða, skoðunar hjá Hjarta- og lungnastöðinni, heilsufarstryggingar, gleraugnakaupa og hjálpartækja, teljast persónulegur kostnaður sem ekki kæmi til álita að heimila til frádráttar sem rekstrarkostnað. Verður að telja þá reglu sem að framan greinir, um að persónuleg útgjöld sé ekki heimilt að draga frá skattskyldum tekjum, samræmast jafnræðissjónarmiðum í skattframkvæmd og þeirri meginreglu að allar tekjur séu skattskyldar nema þær séu sérstaklega undanþegnar samkvæmt lögum. Ríkisskattstjóri hefur með ákvörðun frá 22. nóvember 2004 staðfest þessa framkvæmd með áliti sínu. Ég vil auk þess vísa til heimildarinnar til ívilnunar.

Að lokum fimmta spurningin: „Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingu á þessari skattlagningu?“

Að störfum er nefnd sem á að endurskoða skattalögin eins og þau eru í dag og hafa verið frá því 1988. Nefndin á skoða hvernig þau hefur reynst. Skattkerfi okkar byggist á því að hafa mjög fáar undanþágur og því hlýtur það að koma til athugunar hjá nefndinni hvort við eigum að gera breytingar þar á og þá mun þetta verða skoðað. Ég vænti þess að nefndin skili (Forseti hringir.) af sér á hausti komanda.