132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Upplýsingar í ársreikningum um lán til stjórnenda fyrirtækja.

663. mál
[15:23]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísar sérstaklega í fyrirspurn sinni til niðurstöðu héraðsdóms í áfrýjuðu máli, einhverju umdeildasta máli sem rekið hefur á fjörur dómskerfisins á undanförnum árum, og kallar eftir umsögn um dóminn meðan málið er hjá Hæstarétti. Ég held að í máli sem þessu sé það mjög óvarlegt, þó ekki sé meira sagt, af fjármálaráðherra að fara að lýsa skoðun á niðurstöðu héraðsdóms eða draga ályktanir af henni. Ég sé ekkert sem knýr á um það. Því áður en varir mun Hæstiréttur hafa úrskurðað í málinu og það verður auðvitað endanleg niðurstaða í því dómsmáli.

Ég verð enn og aftur að lýsa furðu minni á því að hv. þingmaður skuli á þennan hátt draga efnisatriði þessa máls hér inn í þingsali og reyna að knýja á um að fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið blandi sér í það á þann hátt sem hægt væri að túlka sem svo að verið væri að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar.