132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér eru nokkrar spurningar frá hv. þingmanni sem lúta beint að kjörum eldri borgara og snúa að frítekjumarki og tekjutengingum. Starfandi er nefnd undir formennsku Ásmundar Stefánssonar og sú nefnd, sem forsætisráðherra skipaði, á einmitt að ná sem bestri sátt um mörg þeirra álitamála sem hv. þingmaður nefndi hér. Ég tel því að það væri í hæsta máta óeðlilegt að ég færi að úttala mig núna um þau atriði þar sem þau eru til skoðunar í nefnd Ásmundar Stefánssonar fyrir stjórnvöld en nefndin á að skila niðurstöðum í haust.

Varðandi það að einfalda allar reglur vil ég benda á að almannatryggingakerfi okkar og velferðarkerfi er byggt upp á því að reyna að aðstoða þá sem minna mega sín, þá sem þurfa á hjálpinni að halda, og þá þurfa auðvitað að koma til ákveðnar reglur til að koma aðstoðinni þangað. Eðli málsins samkvæmt hljóta því að koma til reglur sem hægt er að kalla flóknar reglur. Það er ekki hægt að hafa kerfið mjög einfalt af því að þá værum við ekki að jafna til þeirra sem á því þurfa að halda.

Varðandi stöðuna hjá Tryggingastofnun og þann drátt sem er núna á svörum frá stofnuninni vegna ofgreiddra bóta og þess andmælaréttar sem fólk hefur nýtt sér þá vil ég sérstaklega benda á að þennan vanda má rekja til lagabreytinga frá árinu 2002. Þær lagabreytingar voru samþykktar samhljóða á Alþingi, það voru allir sammála um þær. Megintilgangur þeirra var að koma til móts við álit umboðsmanns Alþingis varðandi skilgreiningu á tekjuhugtaki laga um almannatryggingar og laga um málefni aldraðra en umboðsmaður beindi þeim tilmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að fram færi endurskoðun á þessum lögum og reglugerðum með stoð í þeim.

Einnig var, með lögum nr. 74/2002, verið að taka tillit til athugasemda í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá september 1999 um lífeyristryggingasvið Tryggingastofnunar ríkisins varðandi tekjutengdar bætur almannatrygginga og greiðslu bóta. Tilgangurinn með lagabreytingunum var því að sjá til þess að Tryggingastofnun ríkisins greiddi réttar bætur til réttra aðila á réttum tíma. Það átti að greiða rétt, hvorki of né van, og það voru allir sammála þessu. Til þess að stofnunin geti framkvæmt þessa skyldu þarf hún á hverjum tíma að hafa réttar upplýsingar um þau atriði sem skipta máli við ákvörðun bótaréttar og útreikning bóta.

Ef um er að ræða tekjutengdar bætur greiðir stofnunin þær á grundvelli áætlunar og samtímaeftirlits með tekjum lífeyrisþega sem síðan eru gerðar upp árlega við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Við það uppgjör koma í ljós van- eða ofgreiðslur frá Tryggingastofnun. Það kom í ljós og árið 2005 var í fyrsta sinn farið að innheimta ofgreiðslur hjá lífeyrisþegum með tilheyrandi tilkynningum til lífeyrisþega og drætti á bótagreiðslum. Heildarfjárhæð vangreiðslna á árinu 2004 var ríflega 800 millj. kr. sem skiptist á 19.500 einstaklinga. Búið er að greiða út núna þessar vangreiddu bætur.

Hins vegar var heildarfjárhæð ofgreiðslna um 1,8 milljarðar sem skiptist á tæplega 15 þúsund einstaklinga. Þarna kom upp vandi. Það kom í ljós, og það er mjög fróðlegt, og ég vil benda hv. þingmönnum á það, að 85% af ofgreiðslunum mátti rekja til söluhagnaðar eða fjármagnstekna lífeyrisþeganna sem voru að fá ofgreitt. Það voru fyrst og fremst aldraðir lífeyrisþegar. Viðkomandi áttu ekki rétt á þeim bótum sem þeir fengu af því að þeir voru betur staddir en reglurnar sögðu til um. 85% þeirra voru með fjármagnstekjur. Þetta verða menn að hafa hugfast.

Varðandi fjárbeiðni frá Tryggingastofnun ríkisins þá var í maí 2002 lögð fram beiðni vegna fyrirsjáanlegs viðbótarkostnaðar vegna nýju laganna. Sú beiðni var upp á 16 millj. kr. Á fjárlögum ársins 2003 fékk Tryggingastofnun ríkisins 10 millj. kr. Síðan er hægt að rekja í seinna svari mínu þær fjárveitingar sem Tryggingastofnun hefur fengið, en hún hefur fengið um 30 millj. kr. af 36 millj. kr. beiðni fram til ársins 2006.

Núna er hins vegar komin ný beiðni frá Tryggingastofnun ríkisins sem við erum að skoða. Hún er vegna þess að það er svo mikill þungi á þessum málum hjá stofnuninni að því þarf að styrkja hana enn frekar og það erum við með til skoðunar. (Forseti hringir.) Við erum að vinna að þeim málum í tengslum við fjárlagagerð næsta árs.