132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Jú, við erum sjálfsagt öll sammála um að það beri að viðhalda samstöðu um tryggingakerfi og samhjálparkerfi. En slíkt kerfi þarf þó að mínu viti örugglega að vera þannig uppbyggt að það tryggi fólki lágmarksafkomu. Það gerir núverandi tryggingakerfi ekki. Ef eldri borgari fær 10 þús. kr. í tekjur tapar hann 4.500 kr. úr bótunum. Síðan er hann skattlagður um 3.672 kr. vegna skatts. Hann heldur sem sagt eftir innan við 2.000 kr. í tekjur. Hvað hefur hann þá uppskorið? Hann hefur farið úr 108 þús. kr., sem eru hámarksbætur, niður í 104 þús. kr. hjá Tryggingastofnun og heldur síðan eftir tvöþúsundkalli í rauntekjur til viðbótar við þetta. Sem sagt, hann lækkaði úr 108 niður í 104 þúsund.

Hæstv. ráðherra. Það sem ég er að vara við með því að koma þessu máli inn í umræðuna er að forðast að gera kerfið flóknara, forðast að fara þá leið að ef við höldum áfram með þessar útfærslur, skerðingar og tekjutengingar, skattlagningar og lágan persónuafslátt þar sem skattleysismörk eru undir 80 þús. kr. á mánuði þá erum við með kerfi sem er ekki réttlátt, það tryggir ekki lágmarksafkomu. Meðan við erum með slíkt kerfi megum við ekki festa okkur í því að það sé aðalmarkmið heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins að sjá til þess að Tryggingastofnun geti haldið áfram að fara eftir þeim flóknu reglum sem búnar hafa verið til. Það verður að einfalda þær. Það hlýtur að vera markmið.

Ég vil óska ráðherra velfarnaðar í því að takast á við það markmið í framtíðinni.