132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Viðhald sauðfjárveikivarnagirðinga.

582. mál
[18:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það þótti nokkuð til marks um búskaparhætti bænda áður hversu vel og snyrtilega þeir héldu við túngörðum sínum. Þetta er svo enn þó nú séu þessi mannvirki ekki lengur úr torfi og grjóti. Girðingar eru bændum nauðsyn vegna bústarfa sinna og engum bændum finnst það gott að nágrannar hafi tilefni til að kvarta yfir lélegu viðhaldi girðinga og flækingi fjár af þeim sökum um lendur annarra manna. En sá bóndi sem lengstan hefur túngarðinn í landi þessu hefur þó enn mikilvægara hlutverk að rækja en að koma í veg fyrir að rolluskjátur rangli á milli bæja eða hrútur lembi lömb á öðrum bæjum í óþökk eigandans.

Þessi bóndi, sjálfur hæstv. landbúnaðarráðherra, ber ábyrgð á baráttu Íslendinga gegn sjúkdómum í búfé. Þessir sjúkdómar eru sumir, t.d. riðuveikin, afar illvígir. Útrýming þeirra getur tekið áratugi eins og dæmin sanna. Afar mikilvægur hluti þessara baráttu er háður með girðingarnetið, gaddavírinn og girðingarstaurinn að vopni. Það hefur náðst árangur sem er gríðarlega mikilvægur en það má ekki láta deigan síga. Slíkt getur valdið óbætanlegu tjóni. Sauðfjárveikivarnagirðingarnar eru að drabbast niður. Að slíkt skuli vera að gerast er til marks um stórfellt ábyrgðarleysi. Gríðarlegt tjón getur orðið vegna ástands þessara girðinga ef riða eða aðrir sjúkdómar berast á milli svæða af þeim sökum.

Því miður er hæstv. landbúnaðarráðherra með „brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld“, eins og skáldið sagði, eða öllu heldur slitna víra, brotna staura og brostið net. Hæstv. ráðherra hefur langt í frá staðið sig í þessum málum. Höfuðástæða vandans er nefnilega fjárskortur. Þetta staðfestir Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Keldum, í viðtali við Bændablaðið um daginn. Hann þekkir þessi mál betur en aðrir menn. Þar kom fram, og ég hef einnig fengið það staðfest hjá öðrum bændum, að fé hefur farið í mörgum tugum yfir varnarlínur og tjón sumra bænda er mikið vegna þess að auðvitað verður að slátra fénu þegar til þess næst. En það tjón er hjóm eitt hjá því tjóni sem er boðið heim með slugsi hæstv. landbúnaðarráðherra í þessum málum.

En þó ég hafi reynt að vekja hann af dvalanum áður með fyrirspurnum og þingmáli hrýtur hann enn í fleti sínu og umfjöllun Bændablaðsins þann 28. febrúar ber það með sér.

Því spyr ég hæstv. landbúnaðarráðherra: Telur ráðherra að ástand sauðfjárveikivarnagirðinga sé viðunandi og að nægilegt fjármagn sé til ráðstöfunar til að viðhalda þeim? Ef ekki, til hvaða ráðstafana hefur ráðherra gripið eða hyggst grípa til að tryggja sauðfjárveikivarnir í landinu?