132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Viðarnýtingarnefnd.

601. mál
[18:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Fyrsta þingsályktunartillaga mín sem ég flutti á Alþingi 1995 fjallaði um á hvern hátt bæri að nýta trjávið sem til fellur við grisjun. Tillagan var samþykkt vorið 2003. Skógrækt er að verða alvöruatvinnugrein á Íslandi. Á ári hverju fellur talsvert til af trjáviði vegna grisjunar. Það er þegar til talsvert magn af trjábolum, t.d. á Mógilsá, í Hallormsstað og í Heiðmörk. Ég hef það á tilfinningunni að stjórnvöld sýni þeirri náttúruauðlind ekki nægilega mikinn áhuga. Það er því nauðsynlegt að gera áætlanir um hvernig nýta beri þennan við í framtíðinni.

Við verjum miklum peningum í landshlutabundin skógræktarverkefni á ári hverju. Þar hefur hæstv. landbúnaðarráðherra ekki hrotið í fleti sínu, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson komst að orði. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur verið mjög ötull að verja fé til skógræktar í landinu og er það vel. Við verjum líka miklum peningum til Skógræktar ríkisins og þetta er að hluta til verkefni Skógræktar ríkisins að gera tillögur um hvernig nýta beri þennan við.

Ég tel reyndar mjög brýnt og nauðsynlegt að gefa þessum hlutum gaum, hvernig nýta beri þann trjávið sem til fellur við grisjun. Hér er um mjög atvinnuskapandi verkefni að ræða og hér eru verkefni sem Vinstri grænir mundu sjálfsagt kalla að væri eitthvað annað. Þetta er mjög vistvænt og margir Íslendingar hafa sýnt þessu áhuga, þar á meðal Guðmundur Magnússon, trésmiður á Flúðum, sem hefur verið að gera mjög merkilegar tilraunir, t.d. hvernig hægt er að nýta lerki sem klæðningu á hús. Við sjáum líka að á Egilsstöðum eru innviðir á skrifstofu Skógræktar ríkisins úr íslenskum viði. Innviðir kirkjunnar á Djúpavogi eru úr íslenskum viði o.s.frv. Hér er í rauninni um spennandi verkefni að ræða. Spennandi verkefni fyrir arkitekta, verkfræðinga, trésmiði og listafólk.

Þess vegna hef ég lagt fram spurningar til hæstv. ráðherra í þremur liðum.

1. Í hverju er starf viðarnýtingarnefndar fólgið?

2. Hverju hefur hún áorkað frá því að hún tók til starfa?

3. Hvernig er fyrirhugað að nýta allan þann við sem til verður vegna aukinnar skógræktar í landinu?