132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Boð til heyrnarskertra um viðvarandi hættuástand.

598. mál
[18:36]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hefur verið samstarf af hálfu Neyðarlínunnar við þessa aðila og ég á von á því að jafnvel á morgun eða innan mjög skamms tíma verði kynnt hvað er til boða fyrir heyrnarlausa. Það er algjörlega rangt hjá hv. þingmanni að halda því fram að þetta sé eitthvað í lausu lofti, það er ekki. Það er verið að vinna að þessu og það er notuð sú tækni sem best er í hverju tilviki til þess koma boðum til fólks. Það hefur ekki reynt á þetta nema með æfingum. Á æfingu sem haldin var fyrir tíu dögum kom t.d. í ljós varðandi GSM-símana að það eru vandræði ef fólk er með svokölluð frelsisnúmer, þ.e. óskráð farsímanúmer, en fólk getur látið skrá þessi númer líka hjá Neyðarlínunni. Það er því ákveðið frumkvæði sem einstaklingurinn verður að hafa sjálfur til þess að vera inni í þessu kerfi og ekki við því að búast að ríkisvaldið sé að hlutast til um það, því ef menn láta ekki skrá sig og láta ekki skrá númer sín þá hefur enginn þau númer og þess vegna getur Neyðarlínan ekki náð í upplýsingar um númerið eða nálgast menn í gegnum slík númer.

Mér finnst því að hv. þingmaður geri lítið úr því starfi sem hefur verið unnið, sem er mikið og eins og ég segi verður væntanlega kynnt og þá munu menn átta sig á því betur í hverju það felst.