132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Upplýsingar ef meiri háttar slys eða hamfarir verða.

599. mál
[18:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi síðari fyrirspurn mín til hæstv. dómsmálaráðherra er á vissan hátt rökrétt framhald af hinni fyrri og hún á rætur að rekja til sama viðburðar og ég ræddi um áðan, þ.e. jarðskjálfta sem varð hér á dögunum. Þá var ég mjög óánægður með hvernig staðið var að miðlun upplýsinga til almennings, eða ég taldi að sá viðburður hefði leitt til þess að alvarlegar gloppur hefðu komið fram í því hvernig Ríkisútvarpið fer að því að miðla upplýsingum um svona hamfarir til almennings. Eins og kunnugt er hefur ein af helstu röksemdunum fyrir því að réttlæta tilvist Ríkisútvarpsins verið að það gegndi mikilvægu öryggishlutverki.

Ég flutti fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra fyrir einni viku og þar kom t.d. fram að upplýsingar sem eru látnar rúlla yfir sjónvarpsskjáinn birtust ekki fyrr en rúmum hálftíma eftir að skjálftinn reið yfir. Það var heldur ekki sagt frá þessum skjálfta á Rás 1 Ríkisútvarpsins fyrr en hálftíma eftir að skjálftinn hafði riðið yfir. Sem betur fer urðu engin slys eða neitt tjón af völdum skjálftans en mér finnst það í raun og veru ekki skipta miklu máli, mér finnst aðalatriðið að upplýsingum sé komið út til fólks eins fljótt og auðið er með öllum tiltækum ráðum þegar svona lagað gerist því fólk verður eðlilega mjög áhyggjufullt og veltir því fyrir sér hvað hafi verið að gerast og það var greinilegt að mikil þörf var fyrir upplýsingar um hvað hér hefði verið á ferðinni.

Í framhaldi af því fór ég að hugleiða hvort fyrir hendi væri, og reyndar reikna ég með því að svo sé, einhver aðgerðaáætlun um upplýsingar ef meiri háttar slys eða hamfarir verða hér á landi, hvort stjórnvöld hafi samræmda aðgerðaáætlun um hvernig staðið skuli að dreifingu upplýsinga til almennings ef meiri háttar slys eða hamfarir verða. Ef svo er, spyr ég hvernig áætluninni sé háttað.