132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Upplýsingar ef meiri háttar slys eða hamfarir verða.

599. mál
[18:41]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Mér virðist af ræðu hv. þingmanns að hann sé annars vegar að tala um viðburði eins og jarðskjálfta, sem er fréttnæmur í sjálfu sér, og hins vegar meiri háttar slys og hamfarir. Ég svara hér spurningu varðandi meiri háttar slys og hamfarir en ég get ekki svarað fyrir Ríkisútvarpið varðandi hvenær það telur nauðsynlegt að rjúfa dagskrá sína og segja frá einhverjum atburðum sem hafa orðið, t.d. jarðskjálfti og slíkt, Ríkisútvarpið hefur sérstakt mat varðandi sínar fréttir.

Samkvæmt lögum er það meðal verkefna ríkislögreglustjórans að annast viðvaranir vegna yfirvofandi eða viðvarandi hættuástands. Í neyðarskipulagi Almannavarna er að finna leiðbeiningar um hvernig viðvörunum og nauðsynlegum upplýsingum verði komið til almennings. Ríkislögreglustjóri og Ríkisútvarpið hafa gert með sér samkomulag sem felur í sér að útvarpið nefni fulltrúa til starfa við Samhæfingarmiðstöð Almannavarna og eru þeir boðaðir út við tilteknar aðstæður. Almannavarnir hafa jafnan treyst á Ríkisútvarpið sem fyrsta tæki við miðlun upplýsinga til almennings en samkvæmt útvarpslögum er öllum útvarpsstöðvum skylt að láta lesa og án endurgjalds tilkynningar frá Almannavörnum, lögreglu og skyldum aðilum. Góð samvinna hefur verið milli Almannavarna og annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins.

Í aðgerðum upplýsir almannavarnadeild ríkislögreglustjórans fjölmiðla um atburðinn eftir því sem við á og gefur leiðbeiningar um viðbrögð. Í vissum almannavarnaaðgerðum er gert ráð fyrir því að fjölmiðlar fái boð um leið og lögregla, slökkvilið og aðrir slíkir. Þá hefur verið komið upp tengingu til beinna útsendinga frétta frá Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð. Allt er þetta hugsað til þess að mikilvægar upplýsingar berist til almennings eftir því sem þörf og aðstæður kalla á hverju sinni.

Í þessu samhengi má geta þess, eins og ég gat um áðan, að nýverið breytti Neyðarlínan boðunarkerfi sínu þannig að nú má koma boðum til íbúa á svokölluðu áhrifasvæði jarðelda í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli með smáskilaboðum og talskilaboðum. Sú aðferð mun geta nýst við rýmingu fleiri svæða í framtíðinni en hafa verður í huga að geta kerfisins er takmörkuð. Það eru með öðrum orðum ýmsar áætlanir uppi um það hvernig viðvörunum verður komið til sem flestra ef á þarf að halda. Engu að síður verða menn að gera sér grein fyrir að seint verður náð til allra þótt yfirvöld geri sitt besta og reyni að setja upp raunhæfar áætlanir. Sumir eru ekki nálægt fjölmiðlum, aðrir eiga þess ekki kost að nýta sér þá, sumir skilja ekki málið o.s.frv. Almannavarnir munu vitanlega gera sitt besta en hlutur einstaklingsábyrgðar og nágrannahjálpar má þó ekki gleymast.

Ég tel því að hér sé kerfi sem gripið er til ef þær aðstæður skapast sem spurt er um í fyrirspurninni, meiri háttar slys eða hamfarir. Þetta kerfi hefur verið notað og ég tók þátt í æfingunni Bergrisinn á dögunum og þar var m.a. æft hvernig ætti að miðla upplýsingum til almennings, á hvaða stigum ætti að halda blaðamannafundi o.s.frv., sem er mikilvægur þáttur í því ef almannavarnaástand skapast.

Hitt er annað mál sem ég ætla ekki að ræða hér, enda finnst mér fyrirspurnin ekki snúast um það hvenær Ríkisútvarpið segir frá atburðum sem eru að gerast án þess að þetta almannavarnaástand hafi skapast og það er ekki annarra en þeirra sem stjórna Ríkisútvarpinu að taka ákvarðanir um það. Þessar umræður urðu t.d. töluverðar eftir jarðskjálftana 17. júní árið 2000. Þá var verið að ræða um hvaða miðill hefði fyrst sagt frá þeim fréttum og hvernig þær fréttir hefðu borist, þannig að alltaf þegar jarðskjálftar verða hér munu vakna spurningar um það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Svar mitt snýst í raun og veru ekki um það því ég er að tala um það þegar við erum búin að virkja það kerfi sem virkjað er við meiri háttar slys eða hamfarir.