132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Upplýsingar ef meiri háttar slys eða hamfarir verða.

599. mál
[18:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu eru hamfarir afstætt hugtak en ég kalla það hamfarir þegar verður jarðskjálfti upp á rétt tæplega 5 á Richter örskammt frá þéttbýlasta svæði landsins. Þá kalla ég það hamfarir. Þá tel ég brýnt að komið sé á framfæri við almenning skilaboðum um hvað var að gerast og ekki síst, við skulum ekki vanmeta það, skilaboðum um að engin hætta sé á ferðum. Mér finnst það mjög mikilvægt og það ætti alls ekki að draga úr því.

Það er á vissan hátt ágætt að heyra að hér sé fyrir hendi kerfi og viðbragðsáætlanir. Þó það nú væri í landi þar sem náttúruhamfarir geta dunið yfir hvenær sem er. Það sem vakir fyrir mér með þessum fyrirspurnum er einmitt að þær verða til af ákveðnu tilefni. Mér finnst einmitt svona lagað tilefni, þegar svona lagað gerist, þó allt hafi nú farið vel, eigi að verða til þess að við förum yfir það í þjóðfélaginu, líka hér í sal hins háa Alþingis, hvernig í raun og veru var brugðist við því sem gerðist og hvort það sé ekki eitthvað sem betur mætti fara.

Það er það sem vakir fyrir mér með þessum fyrirspurnum, bæði með fyrirspurn minni í dag til hæstv. dómsmálaráðherra og líka fyrirspurn minni til menntamálaráðherra fyrir viku. Ég er að kalla eftir umræðu um hvað betur mætti fara þegar svona lagað gerist og á vissan hátt að reyna að vekja, ekki síst yfirvöld sem bera ábyrgð á þessu og hafa vissulega staðið sig vel að mörgu leyti. Ég er alls ekkert að reyna að draga neitt úr því eða gera lítið úr því góða starfi sem unnið hefur verið. En ég er að hvetja til þess að yfirvöld skoði líka vandlega hvort ekki sé eitthvað sem betur mætti fara svo við séum þá virkilega vel undirbúin (Forseti hringir.) loksins þegar hætta steðjar að.